Posted: 26 May. 2021 2 min. read

Hvernig má varðveita arfleið fjölskyldufyrirtækisins?

Áskoranir fjölskyldufyrirtækja eru oft öðruvísi en annarra fyrirtækja

Íslendingar mega vera stoltir af þeim fjölmörgum fjölskyldufyrirtækjum sem hafa með seiglu að vopni byggt upp starfsemi sem þeirra vörumerki byggir á. Fjölskyldufyrirtæki eru í grunninn fyrirtæki sem upphaflega eru stofnuð af einum eða fleiri einstaklingum en fjölskyldumeðlimir hafa að einhverju eða öllu leyti tekið þátt í rekstrinum. Fyrirtækin bera oft falleg eða skemmtileg heiti sem geta verið samsetningar úr nafni upphaflegs eiganda eða einfaldar tilvísanir í þá vöru sem fyrirtækið selur. Mörg hafa skapað sér sterkan sess í okkar samfélagi og erfitt væri að hugsa sér íslenskt samfélag án þeirra.

Að versla við íslensk fjölskyldufyrirtæki vekur oft upp sambærilegar tilfinningar eins og að „versla í heimabyggð“ eða eiga viðskipti við kaupmanninn á horninu. Þjónustan er oft persónulegri, bæði gagnvart viðskiptavinum og þeirra eigin starfsfólki, og þau ná oft miklum árangri á grundvelli þessara einstaklinga sem standa að baki rekstrinum.

Þrátt fyrir þessa aðdáun og hughrif sem fjölskyldufyrirtæki kunna að skapa þá má ekki gleyma að þau standa oft frammi fyrir öðruvísi áskorunum en önnur fyrirtæki eða samstarfsaðilar. Fjölskyldur eru bundnar tilfinningaböndnum og kynslóðaskipti í rekstri fjölskyldufyrirtækja geta verið flókin. Í bandarísku þáttaröðinni Succession, sem á íslensku mætti þýða sem „Arftaka“, er á kómískan- og dramatískan hátt fylgst með baráttu milli systkina og annarra fjölskyldumeðlima fyrir völdum innan Waystar RoyCo fjölmiðlafyrirtækisins. Í þáttunum er fjölskyldufaðirinn og stofnandi fyrirtækisins, Logan Roy, að upplifa heilsubrest og hefst í kjölfarið dramatísk valdabarátta milli fjögurra barna hans um forstjórastólinn. Fjölskyldufaðirinn leikur sér að því að etja saman börnunum sem brýst út í erfiðu tilfinningalífi og togstreitu þeirra á milli. Samskipti sem ganga oft talsvert yfir siðferðisleg mörk. Þrátt fyrir að um skáldskap sé að ræða og umgjörðin í þáttunum sé úr takti við íslenskar aðstæður hvað varðar fjármuni, siðferði og líferni sögupersónanna, þá gefa þættirnir áhugaverð dæmi um hvernig fjölskyldufyrirtæki geta þurft að finna þennan gullna meðalveg á milli tilfinninga og rekstrarlegra ákvarðana.

Það eru ýmsar leiðir færar til að varðveita arfleið fjölskyldufyrirtækisins. Með því að greina áskoranir og afleiðingar er hægt að koma skipulagi á núverandi samstarf, undirbúa yfirtöku komandi kynslóða á fjölskyldufyrirtækjum eða búa í haginn fyrir framtíðina. Ef eignarhald skiptir um hendur getur það haft skattalegar afleiðingar sem getur verið skynsamlegt að gera ráð fyrir fyrr heldur en seinna. Ráðgjöf tengda málefnum fjölskyldufyrirtækja þarf að byggja á trúnaðarsambandi og virðingu fyrir hefðum, starfsmenningu og umhverfi þessara fyrirtækja. 

Höfundur

Guðbjörg Þorsteinsdóttir

Guðbjörg Þorsteinsdóttir

Meðeigandi, skattalögfræðingur

Guðbjörg er meðeigandi Deloitte og skattalögfræðingur hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte. Að auki hefur Guðbjörg viðamikla reynslu af ráðgjöf og verkefnum á sviði endurskipulagningar fyrirtækja, s.s. aðstoð við kaup-, sölu-, samruna- eða skiptingar, gerð lögfræðilegra- og skattalegra áreiðanleikakannana, auk þess að sinna annarri lögfræði- og skattaráðgjöf.