Posted: 28 Apr. 2021 8 min. read

Leiðtogar dagsins í dag

Hvað skiptir máli fyrir leiðtoga dagsins í dag?

Það þarf ekki að leita lengi á internetinu til að finna mikið magn lesefnis um hvað sé talið mikilvægast fyrir leiðtoga dagsins í dag eða til framtíðar litið. Það er auðvelt að verða örlítið ringlaður í lestrinum enda oft ekki mikið samræmi í því öllu.

Deloitte hefur undanfarin ár tekið saman og unnið margskonar skýrslur og rannsóknir sem snúa að leiðtogafærni, mannauðsmálum og stjórnun fyrirtækja. Þær eru oftar er ekki byggðar á alþjóðlegum gögnum og rýni frá fagaðilum innan þessara sviða og veita mikilvæga innsýn í strauma og stefnur fyrir leiðtoga. Þar má helst nefna skýrslur á borð við Global Human Capital Trends og Millenial Survey sem hafa komið út reglulega um allan heim.

Hér hef ég dregið fram þau atriði sem mér finnst skipta mestu máli fyrir leiðtoga dagsins í dag, samkvæmt rannsóknum Deloitte, og finnst vert að skoða nánar og vinna með.

Losaðu um tækifæri

Mikilvægt er að leiðtogar noti áhrif sín til að losa um sem mest af tækifærum, bæði að ryðja hindrunum úr vegi og svo að finna og skapa ný tækifæri.

Ein besta leiðin til þess er að leiðtogar eða stjórnendur tengist betur starfsfólki sínu, heyra betur hvað það er að hugsa og hvaða geta og möguleikar finnast í þeim hópi.

Þetta getur einnig kallað á að farið verði nýjar leiðir við ráðningar og mönnun fyrirtækja. Að ráðið sé í störf eða verkefni út frá þeim möguleikum sem búa í einstaklingunum, en ekki fyrst og fremst út frá fyrri reynslu eða menntun.

Einnig er líklegt að í hverju teymi finnist möguleikar, sköpunarhæfni og sýn sem er fjölbreyttari en sú sem einn leiðtogi getur haft og því er mikilvægt að leiðtogarnir einbeiti sér að því að styðja hópinn sem best, ryðja hindrunum úr vegi, afla fjármagns eða annars sem þarf, fremur en að reyna að vera með öll svörin sjálfir.

 

Notaðu tæknina með nýju sjónarhorni

Margir horfa til tækniþróunar, með áherslu á gervigreind og sjálfvirknivæðingu, til að geta gert hluti sem þegar er verið að gera, en með hraðari og ódýrari hætti en nú er gert.

Með þeirri nálgun er verið að horfa á hlutina með heldur venjulegum eða íhaldssömum hætti.

Æskilegt væri að nota tæknina til að losa okkur undan ýmsum endurtekningarverkefnum og verkum sem krefjast mikils mannafla. Það vinnuafl sem þá losnar undan verkefnum getur þá farið að vinna í verkefnum til að skapa nýjar lausnir og tækifæri.

Nýting tækninnar ætti því ekki bara að ganga út á að lækka kostnað heldur að losa um hæfni sem þá getur farið í að skapa aukið virði og jákvæð áhrif.

 

Frammistöðustjórnun til framtíðar litið

Með aukinni fjarvinnu er traust nokkuð sem nú er farið að reyna meira á við mat á frammistöðu og framlagi starfsfólks. Ekki er lengur hægt að horfa mest til þess hve lengi starfsmaður er á vinnustöð til að meta framlag. Frammistöðu ætti frekar að meta út frá sköpuðu virði og áhrifum, óháð því hversu margar stundir er unnið. Þetta er eitt af því sem leiðtogar dagsins í dag þurfa að fara að huga vel að.

Gott gæti verið að brjóta störf meira upp í verkefni og halda utan um þau með með nýjum leiðum, t.d. að nota ýmsar tæknilausnir eins og Trello, Tasks eða Planner.

Sveigjanleiki er líka vaxandi krafa og jafnvel þannig að fólk er orðið tilbúið til að gefa eftir í launakröfum fyrir meiri sveigjanleika.

 

Endurmenntun og ný hæfni

Margar framtíðarspár, sem byggja á ýmsum tölum og gagnasöfnum, segja að innan ekki svo margra ára verðum við á sama tíma að eiga við vaxandi atvinnuleysi og aukna vöntun á hæfu starfsfólki.

Þessi gjá getur myndast ef ekki verður fljótlega farið að fjárfesta meira, í tíma og peningum, í endurmenntun starfsfólks þar sem ljóst er að stór hluti starfsfólks þarf að endurnýja sín hæfnisett fyrir verkefni framtíðarinnar.

Flestir leiðtogar gera sér grein fyrir þessu en eru samt ekki farnir að setja meira fjármagn eða tíma í að vinna að þessum málum þannig að þessi gjá myndist ekki, eða verði allavega eins lítil og hægt er.

Mikilvægt er að sem fyrst verði farið í að horfa til þeirra hæfni sem talið er að vaxandi þörf verði fyrir og að tryggja það að starfsfólk nái að tileinka sér hana í tíma.

 

Gagnsæi, sjálfræði og dreifðari ákvarðanataka

Þegar fólk af tveimur af yngri kynslóðunum á vinnumarkaði, Aldamótakynslóðin og Z-kynslóðin, er spurt hvað skiptir það mestu máli við val á vinnustað, og einnig varðandi það við hverja þau vilja eiga viðskipti, þá svarar það því til að þau vilja frekar vinna fyrir, og eiga í viðskiptum við, fyrirtæki sem huga að umhverfismálum, framlagi til samfélagsins og virðingu fyrir starfsfólki sínu og fjölbreytileika þess.

Á sama hátt velja þau að hætta í störfum eða viðskiptum við aðila sem ekki huga að þessum þáttum.

Krafa fólks, sem tilheyrir þessum kynslóðum, til leiðtoga er að þeir hugi vel að upplýsingagjöf og gagnsæi. Það vill að á sig sé hlustað, sjónarmið þeirra séu virt og að þau geti tekið þátt í eða haft áhrif á ákvarðanatökur. Þau v

ilja að til staðar sé gagnkvæmt traust og gera einnig kröfu um aukið sjálfræði.

 

Aðgerðir fyrir vinnustaði að skoða

Jeff Schwartz, höfundur bókarinnar Work Disrupted og yfirmaður Future of Work hjá ráðgjafarsviði Deloitte í Bandaríkjunum, leggur til að fyrirtæki fari í eftirfarandi aðgerðir:

  • Færa markmiðið með vinnunni frá því að snúast um að auka skilvirkni í að auka virði og áhrif, sem skilar sér til viðskiptavina, starfsfólks og samfélagsins sem starfað er í.
  • Endurskilgreina vinnu algjörlega á nýjan hátt, frá því að snúast um það að leysa hefðbundin verkefni í það að með skapandi hætti að vinna með ófyrirséðar áskoranir og tækifæri.
  • Láta vinnuna nýta mannlega eiginleika okkar þannig að við færum okkur frá því að hugsa um færni yfir í að hugsa um getu.
  • Byggja upp tengsl innan og þvert á teymi þannig að stjórnendur og starfsfólk geti einbeitt sér að afköstum og áhrifum, ekki bara á vinnuflæði og viðskiptagjörninga. Tengja teymin þannig að þau íhugi áhrifin sem þau geta haft og velti því fyrir sér hvað skiptir máli fyrir viðskiptavini og starfsfólk.
  • Koma á menningu sem er opin fyrir nýjum hugmyndum og því að samþykkt sé að taka áhættu eða prófa nýjar leiðir. 

Höfundur

Herdís Pála Pálsdóttir

Herdís Pála Pálsdóttir

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, mannauðsstjóri

Herdís Pála er framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri. Hún er með MBA gráðu, með áherslu á mannauðsstjórnun og alþjóðlega vottun sem markþjálfi. Hún hóf störf hjá Deloitte í nóvember 2019. Herdís Pála hefur um það bil 20 ára reynslu af stjórnun á sviði mannauðsmála, markaðssmála, reksturs, húsnæðismála o.fl.