Posted: 21 Sep. 2021 8 min. read

Pólitík og persónuupplýsingar

Persónuverndaryfirvöld beina kastljósi sínu að meðferð persónuupplýsinga í tengslum við kosningabaráttu stjórnmálaflokkanna

Það fer eflaust ekki framhjá neinum að stjórnmálaflokkar landsins undirbúa sig nú undir Alþingiskosningar. Símhringingar, sms, skoðanagreinar, viðtöl og auglýsingar skella á okkur í takti við haustlægðirnar og ballið er rétt að byrja. Flokkadráttavertíðin er hafin og aðeins þeir verða ofan á sem ná að syngja sig inn í hug og hjörtu kjósenda. Það gerist þó ekki nema að skilaboðin komist til skila og hér, sem og í öðru markaðsstarfi,  skiptir máli að nýta allar helstu samskiptaleiðir og hugsa út fyrir kassann.

Íslendingar eru ein nettengdasta þjóð veraldar og notkun samfélagsmiðla útbreiddari en víðast hvar annarstaðar. Sem dæmi má nefna að árið 2018 sýndu kannanir að 91% þjóðarinnar voru á Facebookog það kemur því ef til vill ekki á óvart að stjórnarmálaflokkar hafi beint augum sínum í ríku mæli í þessar áttir þegar kemur að miðlun efnis og samskiptum við mögulega kjósendur. Hér, líkt og víða annarstaðar í tæknivæddu nútímasamfélagi vakna spurningar um það hvað getur talist eðlileg og lögleg vinnsla persónuupplýsinga.

Þróun erlendis gefur ástæðu til varkárni

Persónuverndaryfirvöld hér á landi, sem og erlendis, hafa gefið notkun stjórnmálaflokka og hagsmunahópa á samfélagsmiðlum sérstakan gaum. Eins og Persónuvernd bendir á, á heimasíðu sinni hefur Evrópska Persónuverndarstofnunin til að mynda sent frá sér álit sem fjallar um notkun persónuupplýsinga til þess að hafa áhrif á einstaklinga á netinu. Var það mat þeirra að slík stýring upplýsinga ógni samfélögum þar sem að einstaklingar fái ekki jafnan aðgang að upplýsingum. Úr verði því afmörkuð samfélög þar sem einstaklingar eiga erfiðar með að skilja og deila reynslu hvers annars. Að mati stofnunarinnar er hér um að ræða óábyrga, ólöglega og siðferðilega ranga notkun á persónuupplýsingum sem að endingu grafi undan lýðræðinu.

Dæmi frá Bretlandi sýna okkur að stjórnmálaflokkar þar reiða sig sífellt meira á greiningu persónuupplýsinga og þróaða gerð persónusniða (e. profiling) til þess að fylgjast með og ná til kjósenda. Í skýrslu sem gefin var út af bresku persónuverndarstofnuninni kemur til að mynda fram að stjórnmálasamtök og stjórnmálaöfl í Bretlandi og víðar hafi notað persónuupplýsingar og háþróaða greiningartækni til að ná til einstakra kjósenda með það fyrir augum að hafa áhrif á hegðun þeirra á kjördag. Um sé að ræða gerð persónusniða um kjósendur almennt, t.d. á grundvelli notkunar þeirra á samfélagsmiðlum, og eru þau notuð til að sérsníða skilaboð að einstökum kjósendum.2

Það mat ýmissa sérfræðinga að slík vinnsla persónuupplýsinga sé ekki aðeins til þess fallin að vega að persónuvernd, heldur einnig til að grafa undan tiltrú einstaklinga á hinu lýðræðislega ferli. Það er því ýmislegt í húfi og eins og gjarnan á við um hverskonar tækniþróun, þá erum við á vegferð sem við vitum ekki endilega hvert mun leiða okkur í framtíðinni.

Nú er það ekki markmiðið með þessum skrifum að saka einn né neinn um græsku. Tilgangurinn er einfaldlega að minna á að í þessum tilvikum, sem og öðrum þar sem miklir hagsmunir eru í húfi, getur verið freistandi að nota öll tólin í skúrnum til þess að ná settum markmiðum.  Það er því mikilvægt að stjórnvöld og almenningur sýni aðhald þegar kemur að þessum málum. Það er vandaverk að ná utan um síbreytilegt umhverfi tækniþróunar og gagnavinnslu, hvað þá að vera einu skrefi á undan. Stjórnvöld fá það vandasama verkefni að fylgjast með þróun mála og senda frá sér skýr skilaboð og veita leiðbeiningar um hvers konar vinnsla persónuupplýsinga er heimil í markaðs- og kynningarstarfi stjórnmálaflokka. 

Fæstir að sinna skyldum sínum

Persónuverndaryfirvöld hér á landi hafa gert það að kappsmáli sínu í aðdraganda þessara kosninga að tryggja að fólk geti skilið hvaða upplýsingar er unnið með á þessum miðlum og með hvaða hætti.

Eftir að hafa gert frumkvæðisathugun á starfsemi íslenskra stjórnmálaflokka í kjölfarið af síðustu kosningum var það mat persónuverndaryfirvalda að flokkarnir hefðu fæstir sinnt skyldum sínum nægilega samkvæmt lögum um persónuvernd3. Þannig skorti meðal annars upplýsingagjöf og fræðslu til starfsmanna og félagsmanna, ekki var að fullu tryggt að þær auglýsingastofur og/eða greiningaraðilar sem unnið var með störfuðu í samræmi við persónuverndarlög og huga þurfti betur að því á hvaða lagagrundvelli persónuupplýsingar voru unnar.

Ábyrgð okkar allra að gera þetta vel

Flestir vilja standa sig vel og sýna ábyrgð í sínum störfum og það á jafnt við íslenska stjórnmálaflokka eins og aðra, þó að áhugaleysis gæti þó vissulega á einstaka stöðum hvað þetta tiltekna málefni varðar.

Það skiptir miklu að fólk í landinu falli ekki í þá gryfju að gera lítið úr mikilvægi persónuverndar enda er það á ábyrgð okkar allra að standa vörð um réttindi einstaklingsins. Þetta er ekki bara tilgangslaust reglubákn sem veldur því að við þurfum sí og æ að samþykkja vafrakökur. Persónuupplýsingar einstaklinga eru orðin verðmæt auðlind fyrir hverskyns starfsemi fyrirtækja, stofnana og samtaka og notkun þeirra mun hafa sífellt meiri áhrif á okkur til framtíðar. Vonandi að mestu til góðs.   

Ef almenningur gefur persónuvernd lítinn gaum liggur í augum uppi að hvati fyrirtækja og stofnana og stjórnmálaafla af því að halda uppi öflugri persónuvernd verða minni. Viðskiptahagsmunir tengdir öflugri persónuvernd eru aldrei meiri en nemur áhuga einstaklinga á efninu.

Ef vel á að vera verða stjórnmálaflokkar að útbúa skýrt verklag og hátternisreglur sem allir starfsmenn flokkanna eru upplýstir um og geti tekið mið af í sínum daglegu störfum. Leitast skal eftir öflugu samstarfi við persónuverndaryfirvöld og gæta þess að upplýsingaskyldu stjórnmálaflokka sé sinnt í hvívetna, hvort sem að það er á heimasíðu flokkanna eða á samfélagsmiðlum. Þá verða stjórnmálaflokkar sem nýta sér þjónustu þriðju aðila á borð við auglýsingastofur eða greiningaraðila að tryggja að viðkomandi fyrirtæki uppfylli gerðar kröfu um viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir og að vinnslusamningur sé til staðar.   

Eins og Persónuvernd bendir á þá er það á ábyrgð stjórnmálaflokka að vanda til verka og umgangast þá tækni sem samfélagsmiðlar bjóða uppá af ábyrgð sem ýtir undir og eflir upplýsta lýðræðislega þátttöku. Það er svo á ábyrgð okkar, kjósandans og hins skráða einstaklings, að halda merkjum persónuverndar og réttindum einstaklinga á lofti til, svo tryggt sé að það verði gert.

 

1 https://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/689

2 Fjallað er um efni skýrslunnar, sem var gefin út 11. Júlí 2018 og heitir, Democracy disrupted? – Personal information and political influence, í áliti Persónuverndar. Álit á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis – Leiðbeiningar og tillögur | Úrlausnir | Persónuvernd. Þínar upplýsingar, þitt einkalíf. (personuvernd.is)

Álit á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis – Leiðbeiningar og tillögur | Úrlausnir | Persónuvernd. Þínar upplýsingar, þitt einkalíf. (personuvernd.is)

Höfundur

Ásdís Auðunsdóttir

Ásdís Auðunsdóttir

Lögfræðingur, Áhætturáðgjöf

Ásdís er með meistarpróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík, auk þess sem hún stundaði skiptinám við Aarhus University í eitt ár. Ásdís hefur fagvottun sem CIPP/e (e. Certified Information Privacy Professional/Europe) frá International Association of Privacy Professionals. Hún lagði auk þess stund á MIBM framhaldsnám í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði. Ásdís hefur tekið þátt í verkefnum og þjálfun á vegum Deloitte hérlendis sem og erlendis í beitingu GDPR, og setið námskeið um hlutverk og skyldur persónuverndarfulltrúa og aðstoðað fjölmörg fyrirtæki og stofnanir við innleiðingu nýju löggjafarinnar.