Posted: 07 Apr. 2021 3 min. read

Starfsfólk skapar virði vörumerkja

Deloitte er verðmætasta og sterkasta vörumerkið í faglegri ráðgjöf og þjónustu á sínu sviði þriðja árið í röð samkvæmt Brand Finance

Nýlega kom út listi markaðsráðgjafafyrirtækisins Brand Finance yfir verðmætustu vörumerki í heimi. Þar kom fram að Deloitte er verðmætasta og sterkasta vörumerkið í faglegri ráðgjöf og þjónustu á sínu sviði þriðja árið í röð.1

Þetta er út af fyrir sig alveg sérstaklega ánægjulegt því eins og við þekkjum öll, er óvenju krefjandi ár að baki, og það hefur reynt verulega á þrautseigju og aðlögunarhæfni fyrirtækja um allan heim. Samkvæmt alþjóðlegri skýrslu sem Deloitte birti í janúar síðastliðnum voru fimm grunnþættir dregnir fram hjá þeim fyrirtækjum sem töldu sem ráða best við krísu á borð á COVID-19. Þessir þættir eru: undirbúningur, aðlögunarhæfni, samvinna, traust og ábyrgð.

Í vaxandi efnahagslegum og samfélagslegum óróleika hættir við að það grafi undan trausti á fyrirtækjum, stofnunum og eftirlitsaðilum. Til að byggja upp traust hagaðila, bæði innanhús á milli stjórnenda og starfsfólks, sem og á milli fyrirtækis og viðskiptavina, skipta opin og gagnsæ samskipti höfuðmáli. Þá vegur trúnaður og skilningur þyngra í hugum fólks þegar reynir á rekstrarinnviði og afkomugetu í óvenjulegum aðstæðum. Að auki skapa gæði þjónustu og metnaður starfsfólks virði vörumerkisins, enn meira en við þekkjum í venjulegu árferði.

Við getum eflaust aldrei fyllilega verið undirbúin fyrir krísur eins og heimsfaraldur en aðlögunarhæfni starfsfólks, samvinna og samræmdar lykiláherslur og verkefni einfalda róðurinn. Það er ekki síður mikilvægt þegar við réttum okkur af og förum að undirbúa okkur fyrir hið nýja „norm“, eins og svo oft er talað um. En hvernig tengist COVID-19 og gamla og nýja „normið“ vörumerkinu okkar?

Deloitte er með 175 ára sögu, einstaka menningu og há gæðaviðmið, bæði hvað varðar okkar faglegu vinnubrögð gagnvart viðskiptavinum og hagaðilum en ekki síður gagnvart hvort öðru. Heimskrísur eins og sú sem því miður enn geisar sýna okkur þó að allt er breytingum háð. Við hjá Deloitte, frekar en önnur fyrirtæki, getum því ekki gengið að því sem gefnu, þrátt fyrir þennan góða grunn, að vera áfram leiðandi og sterkt vörumerki.

Eina leiðin til að viðhalda því er sú að fólkið okkar sé öflugt og leiðandi á sínu sviði. Í því og markvissu samstarfi þvert á svið felst, að mínu mati, virði okkar vörumerkis. Þótt gaman sé að lenda ofarlega á alþjóðlegum listum þá er þetta grunnurinn sem þarf að hlúa að.

 

1Brand Finance, 2021.

Til að byggja upp traust hagaðila, bæði innanhús á milli stjórnenda og starfsfólks, sem og á milli fyrirtækis og viðskiptavina, skipta opin og gagnsæ samskipti höfuðmáli.

Höfundur

Þorsteinn Pétur Guðjónsson

Þorsteinn Pétur Guðjónsson

Forstjóri Deloitte á Íslandi

Þorsteinn Pétur er forstjóri Deloitte á Íslandi og einn af eigendum félagsins. Hann er löggiltur endurskoðandi og hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2000. Þorsteinn Pétur hefur víðtæka reynslu og þekkingu af endurskoðun, reikningsskilum og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS).