Frá árinu 2014 hefur Deloitte framkvæmt könnun á meðal fjármálastjóra en könnunin er framkvæmd tvisvar á ári, að vori og hausti, en núna tóku 17 lönd þátt. Með könnun Deloitte er hægt að bera saman ólík viðhorf fjármálastjóra innan Evrópu við það sem er að gerast á Íslandi hverju sinni.
Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, meðeigandi Deloitte og sviðsstjóri Fjármálaráðgjafar, var tekin tali um niðurstöður könnunarinnar sem framkvæmd var á haustmánuðum, en það niðurstöður komu út nú í desember síðastliðnum.
Ljóst að íslenskir fjármálastjórar telja tækifæri handan heimsfaraldursins
„Stærsta niðurstaðan núna er að það er rosalega mikil bjartsýni á meðal fjármálastjóra, sú mesta frá því að við byrjuðum þessa könnun árið 2014,“ segir Lovísa. „Við mælum alltaf bjartsýni út frá fjórum mælikvörðum (væntingar til tekna, EBITDA, fjárfestinga og ráðninga) og þrír af þessum fjórum mælikvörðum eru í hæstu gildum sem við höfum mælt hér á Íslandi. Síðustu þrjár kannanir hafa verið litaðar af COVID-19 en núna erum við að sjá niðurstöður sem benda til þess að íslenskir fjármálastjórar séu farnir að einblýna á hvað tekur við að loknum heimfaraldri. Það eru margar spurningar sem sýna þær niðurstöður að íslenskir fjármálastjórar séu töluvert bjartsýnni en kollegar þeirra í Evrópu,“ segir Lovísa.
Vísbendingar um að yfirtökum og samrunum muni fjölga
Lovísa telur að þetta endurspegli efnahagsástandið á Íslandi og að það sé betra hér en að meðaltali í Evrópu. „Við erum fljótari að koma okkur út úr þessu virðist vera. Við erum með kvikt hagkerfi sem dregst fljótt saman en styrkist svo hratt aftur og það er nokkuð ljóst að þessar aðstæður fela í sér umtalsverð tækifæri. Það eru til dæmis áberandi margir fjármálastjórar sem sjá fyrir sér ytri vöxt. Við sjáum þetta líka hjá okkar viðskiptavinum þar sem nóg af boltum eru á lofti. Við gerum ráð fyrir að sjá mikið af yfirtökum fyrirtækja og samrunum á næstu misserum.“
Hagræðing alltaf sett í fyrsta sætið á Íslandi en stafrænar lausnir í Evrópu
Í könnuninni er spurt um áherslur fyrirtækjanna næstu 12 mánuði, en sú spurning hefur skilað sömu niðurstöðu frá árinu 2014 þar sem flestir fjármálastjórar hafa svarað að það eigi að leggja áherslu á hagræðingu rekstrarkostnaðar. Stafrænar lausnir eru aftarlega í forgangsröðinni núna, en þær hafa yfirleitt verið númer tvö á lista undanfarin ár en en eru neðar núna. „Þarna eru tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Það eru bara tvö lönd í Evrópu sem setja hagræðingu í fyrsta sætið, það eru Ísland og Tyrkland. Flest önnur lönd eru með stafrænar lausnir í fyrsta sæti enda er megin markmiðið að styrkja þjónustu við viðskiptavini, nokkuð sem við teljum að þurfi að huga betur að hér á Íslandi.“
Lovísa segir að það sé ákveðin mótsögn í því að forgangsraða hagræðingu ofarlega en ekki stafrænum lausnum þegar haft er í huga að stafrænar lausnir eru í raun og veru hluti af hagræðingu og vexti fyrirtækja. „Það virðist vera innbyggt í íslenska fjármálastjóra að spara fremur en að eyða fé í réttu verkefnin innan fyrirtækisins. Efnahagsumhverfið á Íslandi er hinsvegar farið að líkjast meira umhverfinu á meginlandinu og það þarf því að fara að breyta þessum þankagangi þannig að fjármálastjórinn sé virkari í ráðstöfun fjármuna og átti sig á því að það er hlutverk skipulagsheildarinnar að nota fjármagnið rétt, fremur en að vera eingöngu með fókusinn á hagræðingu. Það er því spurning hvort þessi forgangsröðun íslenskra fjármálastjóra, sem eru mjög bjartsýnir og reyndar bjartsýnastir, sé í takt við það sem framundan er. Það eru mikil tækifæri til að nýta jákvætt efnahagsástand til að fjárfesta til framtíðar, sem skilar sér í vexti og arðsemi, en til þess þarf bæði vilja og einbeitingu.“
Íslensk fyrirtæki eftirbátar annarra Norðurlanda í loftslagsmálum
Það eru ennfremur vonbrigði að sjá að íslenskir fjármálastjórar forgangsraði loftslagsmálum ekki ofar. „Það er athyglisvert að sjá hvað Ísland lendir neðarlega á þessum lista, ekki nema 45% svarenda sem segjast hafa plön um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Í efstu sætunum eru nágrannaþjóðirnar Svíþjóð, Noregur og Finnland, þar sem 70% svarenda segjast hafa áform um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við sjáum að skýrara regluverk, reikningsskilastaðlar og auknar kröfur hagaðila munu fyrr eða síðar knýja fram ákveðin viðbrögð fyrirtækja í þessum málaflokki og liggja því gríðarleg tækifæri til umbreytinga hér. Við þekkjum það frá viðskiptavinum að verkefni þessu tengdu hafa verið að aukast gríðarlega enda er aðkoma okkar og ráðgjöf yfirgripsmikil með okkar sterka alþjóðlega baklandi,“ segir Lovísa.
Lovísa er einn af meðeigendum Deloitte ehf. og sviðsstjóri Fjármálaráðgjafar. Þá er hún forstöðumaður atvinnugreinahóps Deloitte er snýr að sveitarfélögum og opinberum aðilum. Lovísa hefur víðtæka reynslu á sviði fjármálaráðgjafar þar sem hún hefur veitt ráðgjöf til stærstu félaga á íslenskum markaði. Lovísa er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði, M.Sc. gráðu í fjármálahagfræði og M.Acc. gráðu í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskóla Íslands.