Posted: 12 May 2022 3 min. read

Lög eða kóði - Markaðir fyrir sýndareignir

Regluvæðing viðskipta með rafmyntir og aðrar stafrænar eignir

The Times 03/Jan/2009 Chancellor on brink of second bailout for banks. Með þessum orðum merkti Satoshi Nakamoto upphafsbálka Bitcoin bálkakeðjunnar og markaði með því upphaf nýrra tíma. Í fyrsta skipti var hægt að eiga fullkomlega stafræna eign sem eitt og sér umbyltir þeim möguleikum sem vefurinn býður upp á. Þar sem tæknin byggir á opnum hugbúnaði hafa fjölmargar útgáfur rafmynta nú sprottið upp og ekki sér fyrir endann á þeirri bylgju. Því hefur verið haldið fram að þessi þróun feli í sér upphafið af vef 3.0 sem byggi á dreifstýringu og greiði fyrir tilfærslu stafrænna verðmæta.

Ein tegund slíkra verðmæta eru rafmyntir en óljóst er hversu víðfemt eignamengi hugtakinu er ætlað að spanna. Aftur á móti er ljóst að sýndareignir (e. Crypto-Assets) sem hafa öll einkenni fjármálagernings hafa í vissum tilfellum verið gefnar út undir formerkjum rafmyntaútboðs (e. Initial Coin Offering). Útgáfa stafrænna eigna af þessu tagi kann því að leiða af sér kröfur um gerð og efni lýsingar þegar sýndareignir með einkenni verðbréfa eru boðnar til sölu með hætti sem felur í sér almennt útboð í skilningi laga nr. 14/2020 um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði. Jafnframt kann flokkun sýndareignar sem fjármálagernings að leiða af sér auknar kröfur um starfsemi milligönguaðila samkvæmt ákvæðum MiFID II. Gildir í þessu sambandi einu hvort útgefandi einingarinnar kallar eignina rafmynt eða hvort lýsing er kölluð hvítbók (e. White Paper).

Öðru gegnir að ekki er í öllum tilfellum eiginlegum útgefanda sýndareigna til að dreifa og lengst af hafa engin skýr lagaákvæði tekið til markaða með aðrar sýndareignir en þær sem talist geta fjármálagerningar. Áformuð MiCA reglugerð kann að grípa viss tilvik en almennt má ætla að erfitt verði að regluvæða dreifstýrða markaði líkt og dreifðar kauphallir (e. DEX). Auk álitamála varðandi regluvæðingu slíkra markaða þá eru ýmis áhöld uppi um skattalega meðhöndlun þeirra verðmæta sem viðskipti með sýndareignir skila. Það er því brýnt að löggjöfin og eftirlitsaðilar, hér heima sem erlendis, taki höndum saman um samræmdan lagaramma til að greiða en ekki girða fyrir þá umbreytingu sem er að eiga sér stað.

Ég fór nánar yfir þessa þætti í erindi um stafrænar eignir, snjallsamninga og gjánna milli miðstýrðra laga og dreifstýrðs kóða á UTmessunni 2022 sem haldin var miðvikudaginn 25. maí síðastliðinn. Glærur mínar frá ráðstefnunni eru aðgengilegar HÉR.

Nánari upplýsingar veitir: