Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 29. september 2023.
--
Ljóst er að auknar sveiflur í veðurfari, sem rekja má til loftslagsbreytinga auk annarra loftslags- og sjálfbærnitengdra þátta, hafa í dag áhrif á afkomu og rekstrarumhverfi fyrirtækja.
Þessi þróun er líkleg til að færast í aukana á næstu árum. Sameinuðu þjóðirnar hafa t.a.m. upplýst að nýliðinn júlí var sá heitasti frá upphafi mælinga og er gert ráð fyrir sambærilegri þróun á næstu árum með tilheyrandi hitabylgjum, skógareldum, þurrkum og flóðum víðsvegar um heiminn.
Til að takast á við þessar áskoranir og ná árangri í loftslagsmálum er nauðsynlegt að umbreyta hagkerfum heimsins og gera þau sjálfbærari þannig að þau styðji við markmið Parísarsáttmálans um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Lykilþáttur í slíkri umbreytingu er að virkja atvinnulífið í að taka upp sjálfbærari viðskiptahætti og er nýju alþjóðlegu regluverki tengt loftslags- og sjálfbærnimálum ætlað að styðja við þá vegferð.
Umfangsmikið regluverk
Unnið hefur verið að slíku regluverki á vettvangi ESB, Alþjóða reikningsskilaráðsins (IASB), í Bandaríkjunum og víðar. Regluverkið er umfangsmikið og tekur á ýmsum þáttum tengdum sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (sjá frekar hér Nýjar sjálfbærnireglugerðir | Deloitte Ísland, Flokkunarreglugerð ESB áskorun íslensks atvinnulífs (vb.is)) og hafa sumar reglugerðir nú þegar tekið gildi hér á landi á meðan búist er við að fleiri taki gildi á næstu árum. Einnig eru í farvatninu ýmis önnur regluverk er tengjast sjálfbærni og eru þeim gerð ágæt skil í Vegvísi Festu um lög og reglur ESB um sjálfbærni.
Ljóst er að innleiðing á nýju sjálfbærniregluverki og umbreytingin í kolefnishlutlaust (e. net-zero) framtíðarhagkerfi verður krefjandi fyrir íslenskt atvinnulíf en líkt og kom fram í sjálfbærnikönnun Deloitte og Festu frá því fyrr á árinu, þá gera flestir íslenskir stjórnendur sér grein fyrir mikilvægi þessa málaflokks.
Í könnuninni töldu t.a.m. 61% íslenskra stjórnenda að loftslagsbreytingar muni hafa mjög mikil áhrif á stefnu og rekstur síns fyrirtækis á næstu þremur árum og 73% sögðu að fyrirtækið þeirra hefði nú þegar orðið fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum. Einnig var áhugavert í könnuninni að íslenskir stjórnendur höfðu minni áhyggjur af regluverki tengt sjálfbærni og loftslagsmálum en norrænir og alþjóðlegir kollegar þeirra.
Með ofangreint í huga er einmitt gagnlegt að horfa til annarra áhrifaþátta en regluverk sem munu hafa áhrif á viðskiptaumhverfið, bæði útfrá áskorunum og tækifærum, og má þar nefna:
Færa má rök fyrir því að íslensk fyrirtæki, sem hafa tekið ófjárhagslega upplýsingagjöf og loftslags- og sjálfbærnimál föstum tökum, eigi talsverða möguleika á að nýta sér breytt landslag í þessum málum til að styrkja rekstrargrundvöll og afkomu sína. Að sama skapi er líklegt að fyrirtæki sem hafa ekki sinnt þessum málaflokki muni verða eftirbátur hinna.
Nýta meðbyrinn
Íslenskt atvinnulíf hefur einstakt tækifæri á að nýta sé meðbyrinn sem fylgir ofangreindum áherslum í loftslags- og sjálfbærnimálum og því er mikilvægt að láta ekki mögulegar áskoranir sem fylgja innleiðingu á nýjum reglugerðum draga úr sér þróttinn. Við búum á einstakri eyju með gnótt af náttúrlegum auðlindum á láði og legi, höfum byggt upp velferðarsamfélag og erum leiðandi í jafnréttismálum á heimsvísu.
Núna er tíminn fyrir Ísland til að stökkva á sjálfbærnivagninn og nýta ofangreint til að byggja upp sjálfbærara samfélag og atvinnulíf og um leið leggja okkar lóð á vogaskálarnir í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Gunnar er meðeigandi og yfirmaður sjálfbærni og loftslagsmála hjá Deloitte á Íslandi, auk þess að vera hluti af norrænu stjórnendateymi félagsins. Hann býr að fjölbreyttri alþjóðlegri reynslu og hefur unnið með leiðandi fyrirtækjum og stofnunum á sjálfbærnivegferð þeirra. Gunnar er með M.Sc. gráðu frá London School of Economics og BA gráðu frá Gonzaga University og er með löggilt verðbréfaréttindi.