Faglegt efni
COVID-19
Nýtum tæknina og sýnum fyrirhyggju
Ágætu viðskiptavinir,
Heilbrigðisyfirvöld hafa tekið þá ákvörðun að sýnataka í tengslum við skimun fyrir COVID19 veirunni fari fram í húsnæði ÍE í Turninum í Kópavogi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Deloitte hefur fengið frá yfirvöldum og fulltrúum ÍE er talið að sýnatakan muni ekki hafa í för með sér aukna smitáhættu gagnvart öðrum sem starfa í húsinu eða þeim sem sækja fyrirtæki í húsinu heim. Helgast það af því að sýnataka í húsinu fer fram á einkennalausum einstaklingum og aðgangi innan hússins verður að auki stýrt.
Deloitte fagnar þessu framtaki ÍE og yfirvalda, enda ótvírætt mikilvægi fyrir samfélagið í heild. Við gætum fyllstu varúðar og fylgjum leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda í einu og öllu. En, í takt við ný tilmæli um bann við samkomum 100 eða fleiri, óskum við góðfúslega eftir því að viðskiptavinir takmarki komur sínar í hús og að fundir séu frekar teknir með rafrænum hætti. Á það sérstaklega við um þá sem hafa verið á hættusvæðum eða í návígi við slíka einstaklinga. Sömu tilmæli eiga við um fundi starfsmanna hjá viðskiptavinum.
Ef fundir kalla á viðveru hér í húsi er óskað eftir því að viðskiptavinir og aðrir gestir gangi aðeins inn á 2. hæð hússins (Smáralind) eða kjallara, ekki á 1. hæð (Smáratorg) og noti ekki þar til greinda lyftu í húsnæðinu sem frátekin er vegna sýnatöku yfirvalda. Ítrekum við mikilvægi þess að handþvotti sé sinnt vel og almennu hreinlæti, í takt við tilmæli yfirvalda.
Að standa vörð um heilsu starfsmanna, viðskiptavina og annarra gesta er í algjörum forgangi hjá Deloitte. Þessi ráðstöfun er liður í því en félagið hefur gripið til margvíslegra annarra ráðstafana, líkt og önnur fyrirtæki, í tengslum við COVID19. Má þar nefna að sérstakt neyðarteymi er að störfum sem fundar daglega, innra samskiptastreymi hefur verið stóraukið með marvíslegum leiðbeiningum, ferðatakmarkanir hafa verið teknar upp, sóttkví er beitt í takt við tilmæli yfirvalda, fundahöld hafa verið minnkuð, teknar hafa verið upp viðameiri hreinlætisaðgerðir á vinnustöðvum og starfsmönnum stendur til boða að vinna heiman frá sér.
Ekki er gert ráð fyrir að þessar ráðstafanir raski þjónustustigi félagsins, en við þökkum sýndan skilning. Þá bendum við á að Deloitte á heimsvísu hefur tekið saman fjölbreytt efni á vef sínum sem getur nýst viðskiptavinum í því umróti sem stendur nú yfir. Þá hefur Deloitte tekið saman einfaldan einblöðung á íslensku með 5 lykilaðgerðum sem Deloitte telur að fyrirtæki ættu að huga að.
Kær kveðja,
Þorsteinn Pétur Guðjónsson,
Forstjóri Deloitte