Faglegt efni

Framhald í næsta þætti

Ársreikningar fyrirtækja og Jack Bauer

Ársreikningum fyrirtækja er jafnframt ætlað að segja sögu, þó að ekki sé hún í öllum tilvikum jafn spennandi og sögurnar af Jack Bauer.

Fyrir þá sem ekki þekkja sjónvarpsþættina 24  þá er þáttaröðin þannig að hver þáttur segir sína sögu sem endar í óvissu, þannig að milli þátta er spennan í hámarki og næsta þætti ætlað að halda áfram með söguna. Þegar síðasti þátturinn endar er venjulega sögunni af ákveðnum hetjutilburðum Jack Bauer lokið í bili, þangað til næsta sería byrjar.

Sjónvarpsþættir segja sögu, stundum segir einn þáttur eina sögu frá upphafi til enda en svo eru líka til þættir eins og 24 sem segja söguna í nokkrum þáttum. Ársreikningum fyrirtækja er jafnframt ætlað að segja sögu, þó ekki sé hún í öllum tilvikum jafn spennandi og sögurnar af Jack Bauer. Langflest íslensk fyrirtæki og stofnanir segja sína sögu fyrir hvert ár frá janúar til desember þar sem reikningsár þeirra er hið sama og almanaksárið. starfsemi þeirra getur oft verið árstíðabundin eins og  hjá útgerðum þar sem viðmiðið getur verið kvótaárið frá 1. sept. -  31. ágúst og verslun þar sem viðmiðið er jólavertíðin og útsölur í kjölfar hennar. Fyrir smásöluverslun sem birtir sín reikningsskil miðað við 31. desember er oft spennan í „hámarki“ þar sem staðan er tekin rétt fyrir útsölur og vöruskil sem jafnan eru í janúar og því hafa nokkur fyrirtæki í þeirri starfsemi reikningsárið frá byrjun mars til loka febrúar.  

Ársreikningagerð er upplýsingaleikur og með henni er verið er að segja sögu. Stundum eru fyrirtæki í miðri á í sinni starfsemi þegar flugeldum er skotið á loft við áramót. Gott dæmi um slíkt er t.d. íþróttafélög, skólar og aðrir sem starfa að vetri til. Áætlanir eru gerðar miðað við tímabilið/skólaárið og því eðlilegt að gera upp reikningsárið miðað við sama tíma, en ekki við lok almanaksársins vegna þess að þá er verið að segja sömu söguna í tveimur ársreikningum sem veldur því að samhengið glatast þar sem það er mun meira en ein vika milli þátta.  Það þætti ekki góð þáttagerð að segja seinni helming einnar sögu og fyrri helming næstu sögu í sama þættinum og láta svo líða ár á milli.

 

"Ársreikningagerð er upplýsingaleikur og með henni er verið er að segja sögu"

Framhald í næsta þætti....

Engar skorður eru settar fyrir því að fyrirtæki velji sér reikningsár við hæfi en hins vegar þurfa þau að sækja um heimild til að miða skattskil sín við annað tímabil en almanaksárið. Eins og gefur að skilja er óhagkvæmt að hafa annað skattalegt ár heldur en reikningsárið sem ársreikningagerðin er miðuð við.

Ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra nr. 3/2004 setur skorður við því að reikningsári sé breytt enda verulegir hagsmunir skattyfirvalda og annarra af því að samræmi sé á því hvaða tekjutímabil uppgjör skatta og skattaðila miðist við. Flest þau kerfi sem notuð eru við skattvinnslu eru miðuð við almanaksárið og öll frávik frá því leiða til aukins umstangs og kostnaðar. Vinna við skattlagningu byggir mikið á upplýsingamiðlun og samanburði upplýsinga frá ýmsum aðilum og er því mikilvægt að upplýsingarnar miðist sem mest við sama tímabil. Innheimta opinberra gjalda er miðuð við almanaksárið. Af þessum ástæðum er rétt að ekki sé vikið frá þeirri meginreglu að álagning skatta sé miðuð við almanaksárið nema til þess standi skýr rök og verulegir hagsmunir skattaðilans.

Rökstuðningur fyrir því að hafa annað reikningsár en almanaksárið liggur fyrst og fremst í hagræði fyrir fyrirtækin, að það veiti betri upplýsingar og sé í takt við starfsemi þeirra. Þess vegna tel ég mikilvægt að reikningsár séu í samræmi við starfsemi fyrirtækja og frekar sé hvatt til að fyrirtæki hafi reikningsár við hæfi, heldur en hitt. Skilvirkni skattkerfisins og hagsmunir þess af því að hafa sama skattárið hjá öllum skattaðilum eru hins vegar ótvírætt til staðar. Það er hins vegar spurning, hvort á okkar tímum tækninnar sé ekki orðið einfalt mál við álagningu skatta og framtalsgerð að taka tillit til þess að fyrirtæki geti haft mismunandi reikningsár og hagsmunir skattkerfisins af því að hafa sama reikningsár fari minnkandi. Með því að hafa mismunandi reikningsár aukast jafnframt möguleikar skattkerfisins á að stytta fresti við framtalsskil enda dreifist þá vinna þeirra sem annast framtalsgerð meira yfir árið, en erfiðlega hefur gengið fyrir endurskoðendur og aðra fagaðila að standa tímanlega við skil. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að taka þetta mál aftur á dagskrá með samráði viðeigandi aðila þannig að fyrirtækjum sé gert auðveldara að velja sér reikningsár við hæfi þannig að ársreikningar segi eina heila sögu í stað tveggja hálfra.

Did you find this useful?