Faglegt efni
Fjármálastjórakönnun Deloitte
300 stærstu fyrirtæki landsins
Fjármálaráðgjöf Deloitte sendi nýverið út könnun til fjármálastjóra hjá 300 stærstu fyrirtækjum landsins. Tilgangur könnunarinnar var að endurspegla skoðun fjármálastjóra á mikilvægum málefnum sem snerta stærri fyrirtæki og hafa þar með áhrif á efnahagslífið í heild.
Fjármálastjórakönnun í desember 2017
Dregið hefur úr bjartsýni fjármálastjóra hjá stærstu fyrirtækjum landsins gagnvart frekari vaxtartækifærum, samkvæmt könnun Deloitte. Á komandi ári mun meirihluti fyrirtækja leggja áherslu á að lækka kostnað.
Á heildina litið hefur dregið úr bjartsýni fjármálastjóra varðandi rekstrarniðustöðu en um 35% telja að EBITDA muni aukast á næstu 12 mánuðum, samanborið við 65% síðastliðið haust. Almennt telja fjármálastjórar að fjárhagsleg áhætta þeirra fyrirtækis hafi staðið í stað eða nokkuð dregið úr henni. Þá dregur áfram úr bjartsýni fjármálastjóra gagnvart frekari vaxtartækifærum.
Mikill meirihluti fjármálastjóra hefur markmið um að halda skuldsetningu óbreyttri eða draga nokkuð úr henni á næstu 12 mánuðum og almennt stefna fyrirtæki ekki á fjárfestingar, utan fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum.
Um fimmtungur svarenda töldu að hagvöxtur muni aukast á næstu tveimur árum og að gengisþróun krónunnar haldi áfram að vera stærsti ytri áhættuþáttur fyrirtækja. Telur meirihluti fjármálastjóra að gengi íslensku krónunnar muni haldast óbreytt eða veikjast nokkuð á næstu sex mánuðum. Þá telja flestir að hlutabréfaverð á markaði (OMXI8) muni haldast óbreytt eða hækka nokkuð.
Meirihluti fjármálastjóra telur að niðurstöður nýafstaðinna Alþingiskosninga muni hafa óljós eða engin áhrif á rekstur þeirra fyrirtækis.
Fleiri fjármálastjórar eru ósáttir með núverandi skattkerfi en þeir sem voru sáttir.
Að lokum telja fjármálastjórar að helstu áherslur nýrra stjórnvalda í garð skattkerfisins ættu að vera einföldun á kerfinu og frekari lækkun á tryggingargjaldi og er sú niðurstaða sambærileg við niðurstöðu síðasta hausts.