Faglegt efni

Fjármálastjórakönnun Deloitte

300 stærstu fyrirtæki landsins

Fjármálaráðgjöf Deloitte sendi nýverið út könnun til fjármálastjóra hjá 300 stærstu fyrirtækjum landsins. Tilgangur könnunarinnar var að endurspegla skoðun fjármálastjóra á mikilvægum málefnum sem snerta stærri fyrirtæki og hafa þar með áhrif á efnahagslífið í heild.

Fjármálastjórakönnun í nóvember 2016

Fjármálastjórar stærstu íslensku fyrirtækjanna eru ekki jafn bjartsýnir á tekjuaukningu og þeir voru fyrir hálfu ári, samkvæmt könnun Deloitte. Yfirgnæfandi fjöldi telur stýrivexti Seðlabankans enn of háa.

Á heildina litið eru fjármálastjórar almennt bjartsýnir á aukningu í EBITDA og tekjum á næstu 12 mánuðum, en þó ekki jafnmikið og fyrir sex mánuðum síðan. Fjármálastjórar segja almennt að fjárhagsleg áhætta síns fyrirtækis hafi staðið í stað á síðastliðnum 12 mánuðum, en einn af hverjum þremur segir að nú sé góður tími til að auka áhættu í efnahagsreikningi og stefna jafnmargir á að auka fjárfestingar á næsta árinu. Líkt og síðastliðið vor heldur gengisþróun krónunnar áfram að vera stærsti ytri áhættuþáttur fyrirtækja, en meirihluti fjármálastjóra (72%) telur að krónan muni halda áfram að styrkjast nokkuð á næstu sex mánuðum.

Fjármálastjórar eru ekki jafn bjartsýnir í garð verðþróunar hlutabréfamarkaðar (OMXI8) telja fleiri líklegra að vísitalan muni haldast óbreytt miðað við fyrir ári síðan. 44% telja að vísitalan muni hækka nokkuð, samanborið við 73% haustið 2015. Jafnframt gætir minni bjartsýni til hagvaxtar, en nú telja 62% fjármálastjóra að hagvöxtur á Íslandi muni aukast á næstu tveimur árum, samanborið við 83% fyrir ári síðan.

Þrátt fyrir áætlanir ríkisstjórnar um afnám fjármagnshafta þá er meirihluti fyrirtækja (79%) ekki með neinar áætlanir um erlendar fjárfestingar eða lántökur á næstu 12 mánuðum. Þeir fjármálastjórar sem eru að horfa út fyrir landsteina eru einna helst að horfa til lántöku frá erlendum banka (10%). Á svipuðum nótum telur þriðjungur að aðgangur að fyrirgreiðslu erlendis hafi batnað á sl. 12 mánuðum.

Að lokum telja fjármálastjórar að helstu áherslur nýrra stjórnvalda í garð skattkerfisins ættu að vera einföldun á kerfinu (81%) og frekari lækkun á tryggingargjaldi (72%).

Hér er hægt að nálgast niðurstöður úr könnuninni.
Did you find this useful?