Faglegt efni

Fótboltaskýrsla Deloitte 2006

Deloitte Football Money League

Níunda árið í röð gefur Deloitte út skýrslu um ríkustu knattspyrnulið heims. Það ber helst til tíðinda að Real Madrid hefur skotist upp fyrir Manchester United og trónir nú á toppi peningadeildarinnar. Allt frá því Deloitte hóf rannsóknir á ríkustu knattspyrnuliðum heims hefur Manchester United setið í toppsætinu. Heildartekjur 20 ríkustu liðanna halda áfram að hækka og námu um 236 milljörðum króna á tímabilinu 2004/2005.

Real Madrid skýst upp fyrir Manchester United

Það þykir með ólíkindum hve hratt tekjur Real Madrid hafa vaxið undanfarin ár, en þær námu 21 milljarði króna í fyrra og hafa tvöfaldast á síðustu fimm árum.  Meginástæðu aukningarinnar má rekja til gríðarlega öflugs markaðsstarfs sem felst einkum í sölu á varningi tengdum félaginu, auglýsingum og vörumerkinu Real Madrid sem slíku.   Það má segja að hugmyndafræði forseta félagsins, Florentino Perez, að fjárfesta í einum af frægustu knattspyrnumönnum heims á hverju ári sé að skila sér í þessum miklu tekjum.  Kaup á leikmönnum á borð við Beckham, Zidane, Ronaldo og Figo eru hluti af þessari hugmyndafræði og sýnir að um þaulskipulagða markaðsstefnu er að ræða.   Þrátt fyrir að falla út úr Meistaradeildinni í 16 liða úrslitum er Real Madrid að vinna Deloitte peningadeildina með yfirburðum.  Gera má ráð fyrir að tekjur Real Madrid haldi áfram að hækka næstu ár þar sem félagið hefur gert stóran samning við nýjan styrktaraðila. 

Það má segja Manchester United til huggunar að félagið er enn talið vinsælasta félagslið í heimi, því talið er að um 75 milljónir manna fylgi þeim rauðklæddu að málum.   Tekjur Manchester United námu tæpum nítján milljörðum króna og hafa þær lækkað um einn milljarð króna milli ára og skýrist það aðallega af minnkandi sjónvarpstekjum í Englandi.   Framtíðin er þó björt hjá félaginu þar sem Old Trafford mun stækka um 8000 sæti á næstu árum með tilheyrandi tekjuaukningu. 

Eftir að vera hástökkvari listans tímabilið á undan aukast tekjur Chelsea aðeins lítillega milli ára eða um 2% og eru tekjur félagsins um 17 milljarðar króna.  Þrátt fyrir þessa aukningu fellur félagið um eitt sæti í það fimmta.   

Af tuttugu tekjuhæstu liðunum eru átta ensk, fimm ítölsk, þrjú frá Spáni, tvö þýsk og eitt frá Frakklandi og Skotlandi.   Árangur á knattspyrnuvellinum er lykill að árangri í Deloitte peningadeildinni sem sjá má á því að fjórtán af tuttugu tekjuhæstu liðunum komust upp úr riðlum Meistaradeildarinnar á tímabilinu 2004/2005.   

Deloitte telur að á næstu árum munu Chelsea, Arsenal, AC Milan, Juventus og Barcelona gera harða atlögu að þremur efstu sætunum.   Væntanlega munu lið frá Frakklandi og Þýskalandi klifra upp Deloitte peningalistann á næstu árum þar sem búið er að gera nýja sjónvarpssamninga við þarlend félög sem mun auka tekjur þeirra verulega.  Til viðbótar hefur verið fjárfest fyrir 75 milljarða króna í nýjum og endurbættum knattspyrnuvöllum í Þýskalandi í tengslum við heimsmeistarakeppnina næsta sumar.  Það er álit Deloitte að þessar miklu fjárfestingar þýskra félaga muni gefa þeim aukna möguleika til tekjuöflunar líkt og félög í Englandi hafa gert undanfarin ár. 

Hér er hægt að nálgast fótboltaskýrsluna fyrir árið 2006 í heild sinni
Did you find this useful?