Faglegt efni

Fótboltaskýrsla Deloitte 2007

Deloitte Football Money League

Deloitte hefur gefið út skýrslu sína um ríkustu lið heims tíunda árið í röð. Real Madrid heldur sæti sínu sem ríkasta lið í heimi og veltir nú rúmum 26 milljörðum króna.

Real Madrid ríkasta lið í heimi

Real Madrid heldur sæti sínu sem ríkasta lið í heimi og veltir nú rúmum 26 milljörðum króna. Breytingar hafa hins vegar orðið á næstu sætum þar sem Manchester United fellur niður í fjórða sæti listans eftir að hafa verið í efsta sæti í næstum áratug. Hástökkvarar listans eru Barcelona sem verma nú annað sætið með veltu upp á 23 milljarða króna, en vöxtur félagsins hefur verið ævintýri líkastur síðustu ár. Það eru því spænsk lið sem tróna á toppi peningadeildarinnar og að vísu einu spænsku liðin á topp tuttugu listanum, meðan þar eru 8 ensk lið og 4 ítölsk. 

Það er athyglivert að Real Madrid vann enga titla á síðasta ári en er samt sem áður með mun meiri veltu en Barcelona sem vann bæði spænska meistaratitilinn og meistaradeildina. Það sem skilur á milli liðanna eru tekjur af auglýsingum og markaðsstarfi, en þar kemst ekkert lið nálægt Real Madrid, sem á undanförnum hefur sópað að sér stórum nöfnum á borð við David Beckham, Figo og Zidane. 

Knattspyrnuheimurinn veltir gríðarlegum fjárhæðum ár hvert. Þannig er velta 20 stærstu félaganna um 300 milljarðar króna og spáir Deloitte að þessi tala muni enn hækka á næstu árum. Stærstan hluta aukningarinnar má rekja til nýrra sjónvarpssamninga sem taka gildi frá og með næsta tímabili. 

Þrátt fyrir að hafa fallið niður listann þá er Manchester United það lið sem skilar mestum hagnaði. Ástæður samdráttar í tekjum má rekja til lélegrar frammistöðu á knattspyrnuvellinum á síðasta tímabili. Liðið féll snemma út úr meistaradeildinni og náði ekki að landa enska titlinum, þriðja árið í röð. Framtíðin er þó björt hjá Manchester þar sem nýir auglýsingasamningar, stækkun Old Trafford og nýi sjónvarpssamningurinn mun skila liðinu gríðarlegum tekjum næstu ár. 

Þegar sjónvarpssamningar liðanna eru bornir saman sést að Juventus er að bera lang mest úr bítum, en liðið hafði um 15 milljarða króna fyrir sjónvarpsréttinn á síðasta tímabili á meðan Manchester United hafði um 6 milljarða. Þetta hefur skilað Juventus í 3. sæti listans. Munurinn felst aðallega í því að bæði á Ítalíu og Spáni semja liðin hvert um sig um sölu sjónvarpsréttar, en á Englandi semur deildin um réttinn og dreifir fénu með mun jafnari hætti til félaganna. 

Íslendingaliðið West Ham er í 19. sæti yfir ríkustu liðin.   Velta liðsins var um 8 milljarðar króna á síðasta tímabili.   Árangur liðsins er eftirtektarverður þar sem félagið var að koma upp í Úrvalsdeildina á síðasta tímabili.   Tæpur helmingur tekna félagsins er vegna sölu sjónvarpsréttar og um fjórðungur vegna tekna á leikdegi, en sætanýting á vellinum var um 98%. Þess má geta að West Ham og Schalke eru einu liðin á topp 20 listanum sem aldrei hafa unnið deildina í sínu landi. 

Útlendingar hafa fjárfest mikið í enskum knattspyrnuliðum síðustu árin.   Deloitte hefur reiknað hlutfall kaupverðs og veltu í þessum viðskiptum, en hlutfallið gefur einhverja vísbendingu um hvort kaupverðið sé hátt eða lágt, en margir aðrir hlutir spila einnig þar inn í. Þegar Mohammed Al-Fayed keypti Fulham árið 1997 greiddi hann 15-falda veltu félagsins. Malcom Glazer greiddi tæplega fimmfalda veltu fyrir Manchester United. Eggert Magnússon greiddi tæplega tvöfalda veltu fyrir West Ham og Roman Abramovich greiddi u.þ.b. eins árs veltu fyrir Chelsea. 

 Topp 20 

 Sæti

 Lið

 Milljarðar króna

1

Real Madrid

26,3

2

Barcelona

23,3

3

Juventus

22,6

4

Manchester United

21,8

5

AC Milan

21,5

6

Chelsea

19,9

7

Inter Milan

18,6

8

Bayern Munchen

18,4

9

Arsenal

17,3

10

Liverpool

15,8

11

Lyon

11,5

12

Roma

11,4

13

Newcastle

11,2

14

Schalke

11,1

15

Tottenham

9,6

16

Hamburg

9,2

17

Manchester City

8,0

18

Rangers

8,0

19

West Ham

7,8

20

Benfica

7,7

 

 

 

 

Samtals topp 20

301,1

Hér er hægt að nálgast fótboltaskýrsluna fyrir árið 2007 í heild sinni.
Did you find this useful?