Faglegt efni

Fótboltaskýrsla Deloitte 2008

Deloitte Football Money League

Deloitte hefur gefið út skýrslu sína um ríkustu lið heims ellefta árið í röð, en um er að ræða fjárhagsupplýsingar vegna keppnistímabilsins sem lauk 2007.

Real Madrid áfram á toppnum

Deloitte hefur gefið út skýrslu sína um ríkustu lið heims ellefta árið í röð, en um er að ræða fjárhagsupplýsingar vegna keppnistímabilsins sem lauk 2007.   Real Madrid heldur sæti sínu sem ríkasta lið í heimi þriðja árið í röð og veltir nú rúmum 35 milljörðum króna. Breytingar hafa hins vegar orðið á næstu sætum þar sem Manchester United hefur fært sig upp um tvö sæti og er nú í öðru sæti með tæpa 32 milljarða í veltu.   Hástökkvarar listans eru Arsenal sem verma nú fimmta sætið með veltu upp á 26 milljarða króna, en það má að miklu leyti þakka hinum nýja Emirates leikvangi.   Chelsea hækkar um tvö sæti milli ára og situr í fjórða sæti listans.     Þannig eru í fyrsta skipti þrjú ensk lið á topp 5.

Real Madrid og Manchester United eru fyrstu félögin til að rjúfa 30 milljarða króna múrinn en vöxtur þeirra hefur verið gríðarlegur undanfarið.   Þar sem nýir sjónvarpssamningar í Englandi tóku gildi á tímabilinu 2007/2008 á Manchester United góða möguleika á að minnka bilið í Real Madrid eða jafnvel ná fyrsta sætinu aftur.   

Vöxtur knattspyrnunnar er mikill og hafa tekjur 20 ríkustu félaganna vaxið um 11% milli tímabila og eru samanlagðar tekjur félaganna 20 um 370 milljarðar króna eða um það bil jafnmiklar og heildartekjur Kaupþings árið 2007.   Tekjur hinna 20 ríkustu hafa þrefaldast frá því Deloitte gaf fyrst út listann fyrir um 11 árum síðan. 

Sex ensk lið eru nú á listanum, 4 þýsk, 4 ítölsk, 3 spænsk, 2 frönsk og 1 skoskt.   Vegur þýsku liðanna hefur vaxið mjög síðan heimsmeistarakeppnin var haldin þar í landi og má rekja tekjuaukninguna til þeirra endurbóta sem gerðar voru á leikvöngum í tengslum við heimsmeistarakeppnina árið 2006.   

Sömu sögu er ekki að segja af ítölsku liðunum, en flest þeirra lækkuðu í tekjum og þá sér í lagi hið fornfræga lið Juventus, en tekjur liðsins lækkuðu um 11 milljarðar króna eða um rúm 40%. Þess má þó geta að Juventus er eina liðið sem spilað hefur í næst efstu deild en samt verið meðal 20 ríkustu félaga heims.   Til að minnka bilið þurfa ítölsku liðin að bæta aðstöðu og öryggi stuðningsmanna og reyna þannig að ná inn auknum tekjum á leikdegi en þær eru minna en fjórðungur leiktekna stóru ensku liðanna. 

Þrátt fyrir að enskum liðum á listanum hafi fækkuð um 2 frá fyrra ári, þá telur Deloitte að ensk lið eigi mikið inni vegna nýja sjónvarpssamninga og ekki er ólíklegt að lið eins og Aston Villa, West Ham, Everton og Manchester City sjáist inni á topp 20 á næsta ári.

Hér er hægt að ná í fótboltaskýrsluna fyrir árið 2008 í heild sinni.
Did you find this useful?