Faglegt efni

Fótboltaskýrsla Deloitte 2009

Deloitte Football Money League

Deloitte hefur gefið út skýrslu sína um tekjuhæstu lið heims tólfta árið í röð, en um er að ræða fjárhagsupplýsingar vegna keppnistímabilsins sem lauk 2008.

Real Madrid áfram á toppnum - þökk sé pundinu !

Deloitte hefur gefið út skýrslu sína um tekjuhæstu lið heims tólfta árið í röð, en um er að ræða fjárhagsupplýsingar vegna keppnistímabilsins sem lauk 2008. Real Madrid heldur sæti sínu sem tekjuhæsta lið í heimi fjórða árið í röð og veltir nú rúmum 53 milljörðum króna. Engar breytingar hafa orðið á tveimur næstu sætum þar sem Manchester United og Barcelona sitja sem fastast en tekjur þriggja stærstu liðanna eru yfir 45 milljörðum króna.

Bayern Munchen er hástökkvari deildarinnar og kemst inn á topp 5 í fyrsta skipti í 5 ár og ryðja í ár Chelsea úr fjórða sætinu. Greinilegt er að hægt hefur á þeim gríðarlega vexti sem hefur verið síðustu ár hjá Real Madrid en tekjur félagsins hafa tvöfaldast síðan 2002. Áætlanir félagsins fyrir yfirstandandi tímabil gera ráð fyrir að tekjur félagsins verði 58 milljarðar króna og því ljóst að það verður erfitt verk fyrir keppinautana að skáka þeim.

Sigrar Manchester United í ensku úrvalsdeildinni og meistaradeildinni skiluðu sér í gríðarlegum viðbótartekjum og hefðu fleytt félaginu á topp Peningadeildar Deloitte ef ekki hefði komið til veikingar pundsins gagnvart evrunni. Aðeins tvö af tuttugu tekjuhæstu liðunum náðu ekki að auka tekjur sínar milli ára en öll liðin hafa náð 15 milljarða króna múrnum.

Áhrif veikingar pundsins gerir það að verkum að sjö ensk lið eru á listanum þetta árið en hefðu verið níu ef pundið hefði haldið í við evruna.   Ekkert lið utan Evrópu kemst á lista Deloitte þetta árið. Auk hinna sjö ensku liða eru fjögur þýsk og ítölsk, tvö frá Spáni og Frakklandi auk þess sem Fenerbache kemst inn á listann, fyrst tyrkneskra liða. Fenerbache og Stuttgart komast nú á listann vegna þátttöku þeirra í meistaradeild Evrópu. Manchester City krækti sér í 20. sætið þetta árið vegna aukinna sjónvarpstekna.

Fótboltinn er ennþá vaxandi iðnaður, sérstaklega hjá stærstu liðunum. Þannig jukust tekjur 20 stærstu liðanna um 6% milli ára og voru um 570 milljarðar króna á síðasta tímabili og hafa þær þrefaldast frá því Deloitte gaf út sína fyrstu skýrslu árið 1997. Sérfræðingar Deloitte gera ráð fyrir að skýrsla næsta árs muni bera þess einhver merki að efnahagskerfi heimsins er í lægð, en áhrifin munu ekki koma að fullu í ljós fyrr en á tímabilinu 2009/2010. Tekjur vegna sjónvarpsréttar hafa verið tryggðar nokkur ár fram í tímann en verkefni félaganna verður að halda í auglýsingatekjur og tekjur á leikdegi.

Hér er hægt að nálgast fótboltaskýrsluna fyrir árið 2009 í heild sinni.
Did you find this useful?