Faglegt efni

Fótboltaskýrsla Deloitte 2011

Deloitte Football Money League

Heildartekjur 20 stærstu knattspyrnuliða heims eru í nýjum hæðum og nema tekjur þeirra samtals 4,3 milljörðum evra, sem er 8% aukning frá fyrra ári.

Tekjur fótboltans aukast enn

Heildartekjur 20 stærstu knattspyrnuliða heims eru í nýjum hæðum og nema tekjur þeirra samtals 4,3 milljörðum evra, sem er 8% aukning frá fyrra ári.  Real Madrid er áfram tekjuhæsta lið heims sjötta árið í röð, samkvæmt skýrslu Deloitte sem er nú gefin út í fjórtánda sinn. Um er að ræða fjárhagsupplýsingar vegna keppnistímabilsins 2009 til 2010. Barcelona heldur öðru sætinu og nálgast 400 milljónir evra múrinn en Real Madrid trónir á toppnum með um 440 milljónir evra í veltu.

Þrátt fyrir niðursveiflu í efnahagslífi heimsins náðu öll nema 3 af 20 liðum í peningadeild Deloitte að auka tekjur sínar milli ára sem verður að teljast góður árangur í ljósi þeirra þrenginga sem eru nú um stundir.  Með þessu hafa félögin sýnt fram á getu sína til að afla sífellt hærri sjónvarpstekna ásamt því að laða að öfluga styrktaraðila og ekki skemmir traustur og stór stuðningsmannahópur.

Sigurganga Barcelona innanvallar skilar sér í auknum tekjum en þó ekki nóg til að slá við erkifjendum þeirra í Real Madrid.  Þó er ljóst að bilið mun minnka þar sem Barcelona hefur nýverið samið í fyrsta skipti við stuðningsaðila um auglýsingu á búningi sínum.

Flest lið í peningadeild Deloitte koma frá Englandi eða 7 lið af 20.  Manchester City er hástökkvari deildarinnar og færist úr 20. sæti í það 11., en tekjur félagsins jukust gífurlega í framhaldi af miklum leikmannakaupum sem skilaði sér svo í besta árangri þeirra frá upphafi Úrvalsdeildar.  Tottenham mun gera harða atlögu að Liverpool sem fjórða tekjuhæsta lið Englands með veru sinni í Meistaradeild Evrópu, en þrjú tekjuhæstu lið Englands eru Manchester United, Arsenal og Chelsea.  Nýir á lista 20 stærstu er Aston Villa en þeir koma inn á listann eftir 5 ára fjarveru.

Árangur og þátttaka í Meistaradeildinni og hinni nýju Evrópudeild virðist vera grunnurinn að því að komast á topp 20 yfir tekjuhæstu lið heims.  Þannig voru 14 lið þátttakendur í Meistaradeildinni og 6 í Evrópudeildinni.

Sérfræðingar Deloitte telja að tekjur muni halda áfram að vaxa vegna enn stærri sjónvarpssamninga auk þess sem félögin á Englandi hafa verið að krækja sér í nýja auglýsingasamninga.  Nýir auglýsingasamningar Manchester United við Aon og Liverpool við Standard Chartered gefa hvoru félagi um 24 milljónir evra árlega.  Stærsti auglýsingasamningur knattspyrnusögunnar er nýr samningur Barcelona og Qatar Foundation og er virði hans 30 milljónir evra árlega.

Nýjar reglur UEFA (UEFA Financial Fair Play) taka gildi á næsta keppnistímabili og gera kröfur um að knattspyrnufélög sem taka þátt í keppnum á vegum UEFA nái jafnvægi milli tekna og gjalda.  Það er mat sérfræðinga Deloitte að ensku liðin verði áfram vel samkeppnishæf vegna góðs árangurs á leikvellinum og hæfis þeirra til að afla tekna.  Gera má ráð fyrir því að ensku liðin geti haldið áfram að laða að sér eftirsótta knattspyrnumenn þar sem þau geta boðið þeim hærri laun en önnur lið í Evrópu.

Hér er hægt að nálgast fótboltaskýrsluna fyrir árið 2011 í heild sinni.
Did you find this useful?