Faglegt efni

Fótboltaskýrsla Deloitte 2012

Deloitte Football Money League

Heildartekjur 20 stærstu knattspyrnuliða heims halda áfram að aukast þrátt fyrir þær ógöngur sem efnahagslíf Evrópu hefur ratað í.

Engin kreppa í boltanum

Heildartekjur 20 stærstu knattspyrnuliða heims halda áfram að aukast þrátt fyrir þær ógöngur sem efnahagslíf Evrópu hefur ratað í. Þannig námu tekjur þessara 20 liða um 4,4 milljörðum evra (712 milljarðar króna) á síðasta keppnistímabili (2010/2011) sem er 3% aukning frá fyrra tímabili og eru tekjur þessara 20 stærstu meira en fjórðungur af heildartekjum allra knattspyrnuliða í Evrópu.

Þessi áframhaldandi vöxtur sannar styrk þessara stærstu liða, sérstaklega á erfiðum tímum. Þó að dregið hafi úr vextinum milli ára þá hefur sá eiginleiki að geta laðað að öfluga stuðningsaðila og mikinn fjölda áhorfenda gert þau nær ónæm fyrir kreppunni.

Staða sex efstu liðanna er óbreytt fjórða árið í röð, en hún er Real Madrid, Barcelona, Manchester United, Bayern Munchen, Arsenal og Chelsea. Tekjur Real Madrid námu um 480 milljónum evra (78 milljarðar króna) og er liðið aðeins einu ári frá að jafna met Manchester United sem sat á toppi Peningadeildar Deloitte samfellt í 8 ár. Fast á hæla þeirra kemur Barcelona með rúmar 450 milljónir evra. Þar sem Manchester United komst ekki áfram í Meistaradeild Evrópu þetta árið þá er líklegt að bilið milli þeirra og spænsku risanna aukist í nær 100 milljónir evra þegar þessu tímabili lýkur en Manchester United er í þriðja sæti með um 367 milljónir evra.

Auglýsingasamningur Barcelona við Qatar Foundation um að auglýsa á treyjum félagsins mun auka tekjur Barcelona til muna á yfirstandandi tímabili. Þrátt fyrir það er lið Real Madrid sannfært um að halda toppsætinu en bæði lið hafa staðið sig með afbrigðum vel á vellinum og sérstaklega í Meistaradeild Evrópu og mun það skila sér þegar talið verður upp úr peningakössunum í lok leiktíðar.

Sem fyrr koma flest lið í peningadeild Deloitte frá Englandi eða 6 lið af 20 og öll koma þau frá stóru deildunum 5. Eftir sitt fyrsta ár í fjarveru frá Meistaradeildinni síðan 2004 féll Liverpool niður um eitt sæti í það níunda. Þrátt fyrir nýjan stóran auglýsingasamning við Warrior Sports sem tekur gildi á næsta tímabili þá verður Liverpool að komast aftur í Meistaradeildina til að halda sínu sæti á topp 10, en Tottenham og Manchester City sækja fast að Liverpool. Tottenham hefur nýverið fengið samþykki fyrir að byggja nýjan heimavöll og með því og áframhaldandi góðu gengi innan vallar þá gæti Tottenham tryggt sér sæti á topp 10.

Schalke er hástökkvari deildarinnar og færist úr 16. sæti í það 10., en tekjur félagsins jukust gífurlega í framhaldi af því að liði komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Schalke mun væntanlega stoppa stutt við í Peningadeild Deloitte þar sem liðið náði aðeins 14. sæti í þýsku deildinni í vor. Þrjú ný lið bætast í deildina en það eru Dortmund, Valencia og Napoli og er það á kostnað Atletico Madrid, Stuttgart og Aston Villa.

Mikilvægi þess að ná jafnvægi milli tekna og gjalda í evrópska boltanum hefur aldrei verið meira en nú. Nýjar reglur UEFA um að þessum jöfnuði verði að ná ganga í gildi árið 2013 og munu þær án efa hjálpa að keyra í gegn þessa nauðsynlegu breytingu til batnaðar. Þær hvetja eigendur liðanna til að hugsa til lengri tíma, hvernig liðin geti aflað aukinna tekna, fjárfest í mannvirkjum og unglingastarfi og haft stjórn á útgjöldum.

Hér er hægt að nálgast fótboltaskýrsluna fyrir árið 2012 í heild sinni.
Did you find this useful?