Faglegt efni

Fótboltaskýrsla Deloitte 2017

Deloitte Football Money League

Tekjur 20 ríkustu knattspyrnuliða heims námu meira en 7,4 milljörðum evra (890 milljarðar króna) á síðasta keppnistímabili (2015/16) samkvæmt úttekt Deloitte og jukust um 12% milli ára.

Manchester United komnir á toppinn !

Manchester United, Barcelona og Real Madrid skipa þrjú efstu sætin á listanum. Þetta eru sömu lið og skipuðu þrjú efstu sætin í fyrstu úttekt Deloitte um tekjur stærstu fótboltaliðanna á 1996/97 keppnistímabilinu. Knattspyrnurisunum þremur tókst öllum að brjóta 600 milljóna evru (72 milljarðar króna) múrinn á 2015/16 keppnistímabilinu og eru þetta fyrstu liðin til að ná þeim árangri. Í þeim 20 úttektum sem Deloitte hefur gert á tekjum stærstu knattspyrnuliða þá hafa verið 42 lið um allan heim á topp 20 listanum en aðeins 10 lið hafa haldið sér á listanum í öllum 20 úttektum. En þrátt fyrir fjölda liða á listanum í gegnum árin að þá hafa eingöngu Real Madrid og Manchester United vermt fyrsta sætið.

Endurkoma Manchester United

Manchester United tekur fyrsta sætið af Real Madrid sem hefur trjónað á toppnum síðastliðin 11 ár. Tekjur Manchester United sem námu 689 milljónum evra (83 milljarðar króna) eru mettekjur hvað varðar knattspyrnulið. Miðasölu- og sjónvarpstekjur jukust mikið eftir að félagið komst aftur í Meistaradeild Evrópu. En það sem vóg mest var 100 milljón evru (12 milljarða króna) aukning á auglýsingatekjum sem gerði félaginu kleift að ná efsta sætinu.

Það verður erfitt fyrir Manchester United að halda efsta sætinu á næsta ári þar sem félagið náði ekki að vinna sér keppnisrétt á síðasta tímbili í Meistaradeild Evrópu, veiking breska pundsins gagnvart evrunni hjálpar ekki til og auk þess sem sérfræðingar Deloitte áætla að önnur félagslið muni leitast við að ná sambærilegum styrktarsamningum og Manchester United hefur náð á síðustu árum. 

Styrkur ensku úrvalsdeildarinnar

Enska úrvalsdeildin er með 8 lið á listanum þetta árið, sem er jöfnun á gömlu meti. Leicester City kemur nýtt inná listann sem 20. tekjuhæsta knattspyrnulið í heiminum eftir ótrúlegt keppnistímabil. Meistaratitillinn reyndist félaginu vel en tekjurnar á keppnistímabilinu námu 172 milljónir evra (21 milljarði króna) sem er næstum því fimmfalt hærra en liðið var með í tekjur á 2013/14 keppnistímabilinu. Þar sem Leicester City hefur nú þegar náð að koma sér í 16 liða úrslit í Meistaradeild Evrópu að þá má búast við því að liðið haldi sætinu sínu eða komist jafnvel ofar á listann á næsta ári.

Árangur Manchester City í Meistaradeild Evrópu skilar félaginu í 5. sætið en það þarf að horfa aftur til keppnistímabilsins 2011/12 til að finna tvö ensk lið á topp 5 lista Peningadeildar Deloitte. Af öðrum enskum liðum að þá vermir Arsenal 7. sætið, Chelsea 8. sætið, Liverpool 9. sætið, Tottenham 12. sætið og West Ham United í 18. sæti.

Yfirburðir Evrópu

Þýska félagsliðið Bayern Munich situr í 4. sæti og Paris Saint-Germain, sem er eina franska félagsliðið á listanum fellur niður í 6. sæti. Rússar eiga einn fulltrúa á listanum en það er FC Zenit St Petersburg í 17. sæti. Ítalía á fjóra fulltrúa á listanum þetta árið með Juventus efst í 10. sæti, AS Roma í 15. sæti og AC Milan í 16. sæti en þetta er í fyrsta sinn sem AC Milan er neðar en AS Roma á listanum. Internazionale er svo í 19. sæti listans. 

Sérfræðingar Deloitte búast við því að öll félögin í ensku úrvalsdeildinni verði á lista yfir 30 tekjuhæstu knattspyrnulið heims á yfirstandandi tímabili þökk sé nýjum sjónvarpssamningi.  

Peningadeild Deloitte – 2015/2016 tekjur 

Sæti - (fyrra ár) - Félagslið - Velta í milljónum evra (fyrra ár)

1 (3) Manchester United 689 (519.5)

2 (2) FC Barcelona 620.2 (560.8)

3 (1) Real Madrid 620.1 (577)

4 (5) Bayern Munich 592 (474)

5 (6) Manchester City 524.9 (463.5)

6 (4) Paris Saint-Germain 520.9 (480.8)

7 (7) Arsenal 468.5 (435.5)

8 (8) Chelsea 447.4 (420)

9 (9) Liverpool 403.8 (391.8)

10 (10) Juventus 341.1 (323.9)

11 (11) Borussia Dortmund 283.9 (280.6)

12 (12) Tottenham Hotspur 279.7 (257.5)

13 (16) Atlético de Madrid 228.6 (176.6)

14 (13) Schalke 04 224.5 (219.7)

15 (15) AS Roma 218.2 (179.1)

16 (14) AC Milan 214.7 (199.1)

17 (18) FC Zenit St Petersburg 196.5 (167.8)

18 (na) West Ham United 192.3 (160.9)

19 (20) Internazionale 179.2 (164.8)

20 (na) Leicester City 172.1 (137.2)

Hér er hægt að nálgast fótboltaskýrsluna fyrir árið 2017 í heild sinni.
Did you find this useful?