Adaptation

Faglegt efni

Aðlögunarhæfni

Lykilatriði í fyrirtækjum framtíðarinnar

Nýverið var haldið alþjóðlegt málþing forstöðumanna innri endurskoðunardeilda hjá Deloitte, þar sem innri endurskoðendur erlendra stórfyrirtækja báru saman bækur sínar. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að hafa náð árangri í sinni starfsemi á undanförnum árum og vilja tryggja árangur sinn og samkeppnishæfni til framtíðar og hæfni til að halda í og laða að viðskiptavini framtíðarinnar.

Hvernig getur innri endurskoðun aðstoðað fyrirtæki við að ná árangri á nýju ári?

Gerð var könnun meðal innri endurskoðendanna um hvaða áherslur þeir vildu leggja í vinnu sinni næstu árin fyrir fyrirtækin sem þeir starfa hjá. Niðurstöður þeirra endurspegla mikilvægi stefnumótunar og leggja meðal annars áherslu á að innri endurskoðun gefi aukinn gaum að stefnumótunaráhættu. Á málþinginu voru settir upp vinnuhópar og var afurð málþingsins níu áhersluatriði sem innri endurskoðendurnir hyggjast leggja áherslu á í störfum sínum.

„Á sama tíma að ári verður Airbnb líklega útnefnt sem stærsta hótelkeðja í heimi.“

Þessu spáði Salim Ismail, stofnandi og framkvæmdastjóri Singularity University, en hann var aðalfyrirlesari málþingsins.

Góður árangur Airbnb vekti líklega ekki mikla athygli utan hótelgeirans nema fyrir þá staðreynd að Airbnb á ekki eitt einasta hótelherbergi.  Þess í stað hefur Airbnb gjörbylt hótelgeiranum með því að notfæra sér internetið til að umbreyta viðskiptalíkani hótelgeirans. Hótelgeirinn er ekki lengur vörumiðaður, heldur þjónustumiðaður. Þegar hefðbundinn hótelrekandi vill fjölga hjá sér herbergjum þarf hann að reisa nýtt hótel. Airbnb getur hins vegar fært út kvíarnar nánast sér að kostnaðarlausu í gegnum gestgjafanet sitt.  Með Airbnb er ekki lengur sama þörfin fyrir hótel og áður. Í öðrum atvinnugreinum hafa einnig orðið breytingar í mismiklum mæli sem breyta markaðnum og starfsemi fyrirtækja.   

9 áhersluatriði ársins 2016

Hvað þýða allar þessar tæknibreytingar og tilvist internetsins fyrir fyrirtæki í dag? Þau þurfa að sýna aðlögunarhæfni og fylgjast vel með tækniþróuninni. Fram kom á málþinginu að innri endurskoðun getur aðstoðað við það. Eftirfarandi níu áhersluatriði við innri endurskoðun eru afurð málþingsins:

1.  Væntingar hagsmunaaðila. Innri endurskoðun ætti að leitast við að móta og hafa áhrif á væntingar hagsmunaaðila sinna til innri endurskoðunar og uppfylla þessar væntingar. Endurskoðunarnefnd og stjórnendur fyrirtækisins eru mikilvægir hagsmunaaðilar sem þurfa að hafa nægilegan skilning á þróun innri endurskoðunar í takt við þarfir fyrirtækisins. Gagnsæi, fræðsla og opin samskipti innri endurskoðunar og hagsmunaaðila hennar eru lykilatriði í þessum efnum.

2.  Mannauðurinn, viðeigandi þekking, hæfni og reynsla. Tryggja þarf að rétt hæfni, menntun og reynsla sé til staðar í innri endurskoðunardeildum meðal annars þekking á stefnumótun, notkun sviðsmynda og sérfræðiþekking á sviði hinnar ýmsu tækni sem starfsemi fyrirtækisins byggir á og snýst um.  Innri endurskoðun getur meðal annars þurft á þekkingu á sviði stærðfræði og verkfræði að halda, auk fleiri fræðigreina.  

3.  Sveigjanleiki og notkun ráðgjafa.  Innri endurskoðunardeildir þurfa að sýna rétt viðbrögð meðal annars ef upp koma aðstæður sem bregðast þarf hratt við eða krefjast sérþekkingar sem ekki er til staðar innan fyrirtækisins. Innri endurskoðun þarf að geta aðstoðað fyrirtækið við að ná markmiðum sínum. Til þess að það sé mögulegt þarf innri endurskoðun að vera opin fyrir því að í sumum tilfellum þarf að kalla til utanaðkomandi sérfræðinga, að útvista verkefnum að hluta til eða öllu leyti.

4.  Ráðgefandi hlutverk innri endurskoðunar.  Til að fyrirtæki fái sem mest virði út úr innri endurskoðun er mikilvægt að gott jafnvægi sé á milli eftirlitshlutverks innri endurskoðunar og ráðgefandi hlutverks hennar. Innri endurskoðun getur verið ráðgefandi, um innra eftirlit, stjórnarhætti og áhættustýringu, án þess að óhæði innri endurskoðunar sé skert. Alþjóðlegir staðlar um innri endurskoðun leiðbeina um slíkt.

5.  Stefnumótun fyrirtækisins. Ekki má vanmeta áhættuna að það mistakist að móta stefnu sem tryggir velgengni fyrirtækisins inn í framtíðina, með því að svara eftirspurn framtíðarviðskiptavina fyrirtækisins. Innri endurskoðun þarf að hafa í huga stefnumótunaráhættu fyrirtækisins,  sem er ein af þeim áhættum sem verða sífellt mikilvægari í síbreytilegu viðskiptaumhverfi og með breyttum þörfum viðskiptavina fyrirtækja. Innri endurskoðun þarf að fara yfir að fylgt sé traustu vinnuferli við stefnumörkun og áhættustýringu.

6.  Að leggja mat á aðra varnarlínuna. Innri endurskoðun ætti að leggja aukna áherslu á að skoða áhættustýringu fyrirtækisins og regluvörslu þar sem um slíkt er að ræða. Ákjósanleg uppbygging innra eftirlits er með þeim hætti að yfirmenn deilda/sviða skipa fyrstu varnarlínuna, áhættustýringin og regluvarsla myndar aðra varnarlínuna og innri endurskoðun er hluti af þriðju varnarlínunni. Rétt eins og önnur varnarlínan leggur mat á þá fyrstu, þarf sú þriðja, sem er innri endurskoðun, að leggja mat á aðra varnarlínuna, sem er áhættustýring og regluvarsla. Einkum þarf að meta verklag áhættustýringarinnar við greiningu og mat á áhættu.

7.  Verið meðvituð um tækninýjungar. Tækninýjungar breyta starfsemi fyrirtækja og þegar ný tækni kemur fram á sjónarsviðið þurfa fyrirtæki að spyrja sig þeirrar spurningar hvernig þessi nýja tækni hefur áhrif á starfsemi fyrirtækisins.  Mun hin nýja tækni ógna rekstrargrundvelli fyrirtækisins? Hvernig er hægt að bregðast við því? Það sama þarf innri endurskoðandi fyrirtækisins að hugsa. Hann þarf að nýta sér tækninýjungar til að breyta starfsemi innri endurskoðunar til úrvinnslu upplýsinga og öflunar þeirra á betri, ódýrari og fljótvirkari hátt en áður var mögulegt, meðal annars með greiningarhugbúnaði.

8.  Rödd innri endurskoðunar þarf að heyrast. Innri endurskoðandi fyrirtækisins á að leggja áherslu á það hlutverk innri endurskoðunar að aðstoða fyrirtækið við ná markmiðum sínum og nýtir við það reynslu sína og þekkingu á starfsemi fyrirtækisins, fagþekkingu sína og færni á sviði nýjustu tækni við vinnu sína. Stjórnendur fyrirtækisins eiga að geta nýtt slíkan aðila sem traustan ráðgjafa sem getur hjálpað fyrirtækinu inn í framtíðina.

9.  Áhrifarík samskipti. Tími stjórnenda er mikilvægur og því þarf skýrslugjöf innri endurskoðunar að taka mið af því að koma upplýsingum á hnitmiðað, auðskiljanlegt og aðgengilegt form til að auðvelda viðbrögð og ákvarðanatöku. Oft getur myndræn framsetning sagt meira en þúsund orð. 

Grundvallarbreytingar

Það er auðvelt að festast í sama farinu en framtíðin kallar. Hversu stórvægilegar eru breytingarnar framundan?

Fátt verður líkt með framtíðinni og fortíðinni og einungis  fyrirtæki sem eru aðlögunarhæf munu lifa breytingarnar af með leiðsögn og stuðningi innri endurskoðunar. Er innra endurskoðun þíns fyrirtækis í stakk búin að takast á við þær áskoranir sem framundan eru?

Did you find this useful?