Faglegt efni

Dómur um kauprétt vinnuveitanda

á hlutabréfum í sjálfum sér

Þann 9. mars s.l. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur (E-986/2015) um skattlagningu S, starfsmanns félagsins BG hf., vegna niðurfellingar kaupréttar félagsins á hendur S.

Dómur um kauprétt vinnuveitanda á hlutabréfum í sjálfum sér

Samkvæmt dóminum hafði S keypt hlutabréf í BG hf. á árunum 2003, 2004  og 2006 að nafnverði samtals 10.655.493, á gangverði að fjárhæð samtals 410.713.386 krónur, eða á genginu 16, 21, og 51. Í samningum S við BG hf. var kveðið á um kauprétt BG hf. í því tilviki að S léti af störfum hjá félaginu án þess að um vanefndir væri að ræða af hans hálfu.

Við starfslok S í júní 2007 urðu aðilar ásáttir um að BG hf. keypti af S öll bréf hans í félaginu, fyrir 774.121.566 krónur, þ.e. á genginu 72,65. Í skattframtali sínu gjaldárið 2008 gerði S grein fyrir hagnaði sínum af þessum hlutabréfaviðskiptum með 363.408.180 krónum sem skattlagðar voru sem fjármagnstekjur. Ríkisskattstjóri endurskoðaði þá skattákvörðun með endurálagningu 19. desember 2012 þar sem hann ákvarðaði skattskyldar hlunnindatekjur S krónur 363.408.180 krónur, en felldi niður stofn  til fjármagnstekjuskatt um sömu fjárhæð. Það mat kom fram í úrskurði  ríkisskattstjóra að S hefði gert sambærilega samninga á grundvelli starfssambands síns við BG hf. um kaup á hlutabréfum í félaginu og um væri fjallað í dómum Hæstaréttar í málum nr. 626/2010 og 241/2010. Taldi ríkisskattstjóri að S hefði „losnað úr viðjum“ kaupréttar BG hf. við starfslok hans í júní 2007. S mótmælti þessum hækkunum ríkisskattstjóra sem hann taldi að Hæstiréttur hefði hafnað í tilvitnuðum málum. Ríkisskattstjóri vísaði í úrskurði sínum til reglna um skattlagningu hlunninda, sbr. m.a. ákvæði 1. mgr. 1. tölul. A-liðar laga nr. 90/3003 um tekjuskatt og ákvæði 9. gr. s.l. um kaup á hlutabréfum starfsmanna af vinnuveitanda sínum og tilvitnuð hæstaréttarmál, einkum þá hugleiðingu dóms í máli nr. 241/2010 um að starfsmaður hefði til viðbótar almennum launatekjum notið ávinnings af störfum sínum sem svaraði til hækkunar á verði hlutabréfa frá upphaflegu kaupverði þeirra, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri vakti einnig athygli á því að Hæstiréttur teldi að undir þessum kringumstæðum gætu tekjur myndast hjá starfsmanni í fyrsta lagi með nýtingu hans á sölurétti sínum gagnvart vinnuveitanda, en skattstofn hefði þá numið mismuninum á innlausnarverði bréfanna og markaðsverði þeirra á innlausnartíma. Hins vegar gæti starfsmaður losnað undan kauprétti vinnuveitanda síns með því að starfa um tiltekinn tíma hjá vinnuveitanda sínum eftir kaup bréfanna og hlotið fyrir það tekjur sem svöruðu til hækkunar á verði hlutabréfanna frá upphaflegu kaupverði þeirra, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003, sbr. hæstaréttarmál nr. 241/2010.

S kærði úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar sem lækkaði gjaldstofn þann sem ríkisskattstjóri hafi ákvarðað, en féllst að mestu leyti á sjónarmið ríkisskattstjóra.  Nefndin vísaði einnig í margnefnda tvo dóma Hæstaréttar og bætti við að þar hefði ennfremur komið fram sá möguleiki, að skatta starfsmanninn við veitingu söluréttarins vegna verðmætis þeirrar tryggingar sem starfsmanni er þá veitt gegn lækkun á gangverði hlutabréfanna. Athyglisvert er að yfirskattanefnd vitnaði ekki til 9. gr. laga nr. 90/2003, heldur einungis 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. greinar s.l. og máls nr. 241/2010. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að samningsákvæðin milli S og BG hf. hefðu í grundvallaratriðum verið með hliðstæðum hætti í máli S og í marggreindum dómum Hæstaréttar. Það væri einnig í samræmi við úrskurð nefndarinnar í máli nr. 372/2013 og fleiri úrskurðum í framhaldi af því máli.

Í framhaldi af úrskurði ríkisskattanefndar höfðaði S mál gegn íslenska ríkinu með stefnu sem þingfest var í héraðsdómi þann 17. mars 2015 þar sem hann krafðist ógildingar á úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Stefndi byggði á sömu rökum og ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd, en vísaði ennfremur til 9. gr. laga nr. 90/2003. Stefndi hélt því fram að starfslokasamningur S við BG hf. hefði fært stefnanda ávinning sem fólst í því að geta selt bréfin á raunvirði. Sá ávinningur væri tilkominn vegna starfssambands S og BG hf. S hélt því fram að við starfslokasamning hans við BG hf. hafi hann „tekist á hendur fulla ábyrgð á öllum hlutum sínum í B“.

Í niðurstöðu dómsins er lögð áhersla á að almennt verði að leggja nokkuð rúma túlkun í tekjuhugtak 7. gr. laga nr. 90/2003. Hins vegar er það tekið fram að ekki sé „sjálfgefið að ávinningur sem skattaðili hefur af eign hlutabréfa í því félagi sem hann starfar hjá, jafnvel þótt hún falli utan 10. gr. laga nr. 90/2003, leiði til þess að líta beri á ávinning hans sem launatekjur samkvæmt 1. tl. A-liðar (7.gr.)“ Dómurinn heldur áfram: „Til dæmis er almennt ekki hægt að líta á tekjur sem starfsmaður hefur af hlutabréfaeign í félagi sem hann starfar hjá sem launatekjur starfsmanns samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu, þegar starfsmaðurinn hefur fest kaup á bréfum í félaginu á kjörum sem eru sambærileg þeim sem almennt gerast í hlutabréfaviðskiptum og starfsmaðurinn nýtur engra sérstakra kjara umfram aðra. Gildir þá einu þótt starfssambandið sem slíkt kunni að vera forsenda viðskiptanna af hálfu starfsmannsins.“  Þá segir dómurinn að öðru máli gegni um sérstök kjör eins og t.d. rétt starfsmanns til að kaupa hlutabréf undir markaðsvirði eða skuldbindingu félags um að kaupa slík bréf af starfsmanni á verði sem er hærra en markaðsvirði, svo og hvers konar skuldbindingar félags um að takmarka fjárhagslega áhættu starfsmanns af eignarhaldi hlutabréfa og sérstök lánakjör til handa starfsmanni, en slíkt falli almennt undir endurgjald fyrir vinnu  í skilningi 1. tl. A-liðar 7. gr. Við slíkar aðstæður telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að sá fjárhagslegi ávinningur og hlunnindi sem starfsmanninum falla í skaut á slíkum forsendum komi réttilega til skattlagningar sem launatekjur, enda séu þau veitt í efnislegum tengslum við starf starfsmannsins hjá félaginu.

Dómurinn kemst síðan að þeirri niðurstöðu að í samningum S við BG hf. hafi verið kveðið á um um tiltekin fríðindi S í sambandi við hlutabréfaviðskipti sem voru í verulegum atriðum frábrugðin viðskiptum óskyldra aðila og töluvert umfram þau kjör sem almennt bjóðast í hlutabréfaviðskiptum á markaði. Þannig hafi S ekki aðeins verið tryggður fyrir tapi af fjárfestingunni, heldur hafi hann ennfremur notið ríflegrar lánafyrirgreiðslu af hálfu vinnuveitanda síns. Ekki væri annað séð en þessi viðskipti stæðu í nánum efnislegum tengslum við starf hans sem forstjóra hjá BG hf. og teldust þau kjör sem honum voru sérstaklega veitt til starfstengdra hlunninda hans í skilningi 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Ennfremur vísaði dómurinn til þeirra sjónarmiða sem fram komu í rökstuðningi úrskurðar yfirskattanefndar, án þess að reifa þau nánar. Þá tók dómurinn sérstaklega fram að áhætta hans af fjárfestingunni hafi verið takmörkuð og lánafyrirgreiðsla vinnuveitanda rífleg. Dómurinn sýknaði síðan stefnda, íslenska ríkið, af öllum kröfum S.

 

Það vekur athygli að í dómi héraðsdóms er ekki vísað beint til dóma Hæstaréttar í málum nr. 626/2010 og 241/2010 sem ítrekað er vísað til í úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar eins og lýst er hér að framan. Þá er heldur ekki vísað til 9. gr. laga nr. 90/2003 eins og Hæstiréttur og ríkisskattstjóri gerðu.

Varðandi fyrra atriðið er vert að hafa í huga að í báðum nefndum dómum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að starfsmennirnir sem þar um ræðir hefðu orðið eigendur að hlutabréfum sínum við undirritun kaupsamninga um  hlutabréfin og greiðslu kaupverðs, en á þetta reyndi ekki í máli S. Þá lá það fyrir í máli nr. 241/2010 að starfsmaðurinn hafði ekki tekið lán til hlutafélagakaupanna hjá vinnuveitanda sínum, heldur hjá banka, með venjulegum kjörum. Málavextir voru því ekki sambærilegir eins og yfirskattanefnd hafði haldið fram.

Varðandi síðara atriðið er það athugandi að 9. greinin fjallar einungis um skattlagningu í tengslum við kauprétt starfsmanna á hlutabréfum, en hvorki um skattlagningu söluréttar né lausn undan viðjum kaupréttar vinnuveitanda. Aðstæður til lögjöfnunar eru því ekki fyrir hendi, auk þess sem almennt er talið að lögjöfnun um skattaheimild sé ekki tiltæk vegna lögmætiskröfu stjórnarskrár, sbr. 40. og 77. grein hennar.

Í títtnefndum dómum Hæstaréttar var svokallaðri kaupréttarútfærslu ríkiskattstjóra, sem fólst í því að telja starfsmenn sem áttu sölurétt ekki verða eigendur að bréfum í vinnuveitanda sínum fyrr en sölurétturinn féll niður, hafnað. Þessi kaupréttarútfærsla fól það í sér að til hlunnindatekna hjá starfsmanninum var talin verðhækkun hlutabréfanna frá því að kaup voru gerð fram til þess að sölurétturinn féll niður. Sú röksemdarfærsla að telja niðurfellingu á viðjum kaupréttar vinnuveitenda kveikja á skattskyldu hjá starfsmanni fól í sér að umfang hlunninda var metið með sama hætti og í kaupréttarútfærslu ríkisskattstjóra, þ.e. sem nam verðhækkun þeirra frá því er kaup voru gerð til þess sem kaupréttur vinnuveitanda féll niður. Hæstiréttur hafnaði kaupréttarútfærslunni þegar hann ómerkti úrskurði yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra í málum nr. 626/2010 og 241/2010 með þeirri röksemd að starfsmennirnir hefðu strax orðið eigendur við fullnustu kaupanna á hlutabréfunum. Sama hlýtur að gilda um sömu skattlagningaraðferð ríkisskattstjóra undir öðru nafni, þ.e. losun undan viðjum kaupréttar vinnuveitanda.

Athyglisvert er að dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að S hafi notið sérkjara, enda þótt kaup og sala bréfanna í BG hf. hafi farið fram á markaðsverði. Þá notar hann það sem röksemd fyrir skattlagningunni að S hafi verið tryggður fyrir tapi af fjárfestingunni með sölurétti gagnvart BG hf. Ekki verður séð að það hafi skipt máli þar sem söluréttur var ekki notaður í málinu.

Að lokum er rétt að ítreka að ágreiningur málsins laut að því hvort starfslokasamningur S við BG hf. hefði fært S ávinning eins og stefndi, ríkið hélt fram, eða hvort hann stafaði af því að S eignaðist hlutabréfin í BG hf. strax við undirritun samninga um kaupin. Í því sambandi er minnt á að aðalreglan um hækkun á verði hlutabréfa sem endurspeglast í sölu á markaðsverði tilheyrir eiganda þess sem söluhagnaður. Sú hækkun á þannig rætur sínar að rekja til eignarhaldsins á hlutabréfunum en ekki til vinnu hlutabréfaeigandans hjá félaginu. Hins vegar virðist ekki hafa verið byggt á þessari málástæðu af hálfu S.

Did you find this useful?