Faglegt efni

Hvar liggur skattskylda

launa starfsmanna?

Undanfarin misseri hefur það færst í vöxt að íslensk fyrirtæki sæki sér verkefni út fyrir landsteinana og hafi með höndum starfsemi í öðrum löndum. Sú starfsemi getur verið á vegum dótturfélaga, útibúa íslenskra félaga eða einungis á grundvelli hefðbundinna verktakasamninga við erlenda aðila þar sem vinna á grundvelli þeirra fer fram erlendis. Einnig eru ákveðin teikn á lofti um að umsvif hér á landi fari vaxandi á næstunni, m.a. í tengslum við byggingu og rekstur verksmiðja með aðkomu erlendra aðila.

Hvað þarf að hafa í huga?

Ýmis atriði þarf að hafa í huga þegar um starfsemi í fleiri en einu landi er að ræða. Eitt af þeim atriðum sem mikilvægt er að líta til eru skattamál starfsmanna þessara fyrirtækja, en margvísleg álitamál geta skapast er varða skattlagningu þeirra. Á meðal þeirra atriða er varða skattskyldu starfsmanna og líta þarf til er hvort launagreiðandi er íslenskur eða erlendur, hvar viðkomandi starfsmaður telst skattskyldur, hvort tvísköttunarsamningur sé í gildi við það land sem starfað er í, undir hvaða almannatryggingakerfi viðkomandi starfsmaður fellur og hvort hið íslenska fyrirtæki myndar fasta starfsstöð í því landi sem starfað er í. 

Það er stjórnenda fyrirtækja að kanna hvort skattskylda þeirra starfsmanna sem starfa erlendis breytist frá því sem væri ef þeir störfuðu einungis í heimilisfestarríkinu og þá hvort á félaginu hvíli skylda til að halda eftir staðgreiðslu af launum og skila til skattyfirvalda í starfslandinu. Við mat á skattskyldu launa skal litið til löggjafar hvors ríkis fyrir sig. Ef tvísköttunarsamningur er í gildi á milli heimilisfestarríkis og þess ríkis sem starfað er í skal litið til hans um hvernig skattskyldan er ákvörðuð og hverjar aðferðir samningsins eru til að takmarka tvísköttun, en tvísköttunarsamningar ganga framar innanlandslöggjöf til ívilnunar fyrir skattaðila. 

 

Meginregla tvísköttunarsamninga

Ef starfið er leyst af hendi í öðru samningsríki, þá má skattleggja launin þar. Yfirleitt eru þrjár undantekningar frá þeirri meginreglu sé starfið leyst af hendi í öðru ríki og þurfa þær allar að vera uppfylltar svo skattlagningin skuli einungis vera í heimilisfestarríkinu. Þær eru að launþeginn dvelji í starfslandi ekki lengur en 183 daga á tólf mánaða tímabili, að launin séu greidd af eða fyrir hönd vinnuveitanda sem ekki er heimilisfastur í starfslandinu og að launin séu ekki gjaldfærð hjá fastri stöð sem vinnuveitandinn hefur í hinu ríkinu. Fjórða undantekningin, sem fram kemur í samningum nokkurra ríkja við Ísland, er að ekki sé um að ræða útleigu á vinnuafli. Ef starfsmaður uppfyllir ekki eitthvert eitt þessara skilyrða, þá má skattleggja endurgjaldið í starfslandinu og er þá aðferðum tvísköttunarsamninga beitt til að komast hjá tvísköttun.

Sú spurning kann að vakna hvað gildi ef ekki er til staðar tvísköttunarsamningur við það ríki sem starfað er eða búið í. Í þeim tilfellum gilda íslensku tekjuskattslögin og er þá t.a.m. mikilvægt að gera sér grein fyrir ákvæðum þeirra laga um ótakmarkaða skattskyldu og takmarkaða skattskyldu. Sé einstaklingur sem er að fullu skattskyldur hér á landi starfandi í ríki sem Ísland hefur ekki gert tvísköttunarsamning við og skattar eru greiddir þar í landi af tekjum sem einnig eru skattskyldar hér, þá er ríkisskattstjóra heimilt samkvæmt umsókn skattaðila að lækka tekjuskatt hans hér á landi með hliðsjón af þessum skattgreiðslum hans.

Meginreglan um launað starf, sem fram kemur í öllum tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert, er sú að laun og svipað endurgjald sem aðili heimilisfastur í samningsríki fær fyrir starf sitt skulu einungis skattlögð í því ríki, nema starfið sé leyst af hendi í öðru samningsríki.

Did you find this useful?