Faglegt efni

Hver er virðisaukaskattskvöðin

á þinni fasteign?

"Það liggur því fyrir að þær auknu skyldur sem leiða af áðurnefndum breytingum kalla á að farið sé markvisst yfir þær virðisaukaskattsskuldbingar sem myndast hafa í rekstri, sem og þær sem fyrirhugað er að yfirtaka."

Blaðagrein í Morgunblaðinu 25.2.2016

Það er óhætt að segja að hugtökin „fasteign“ og „virðisaukaskattur“ séu eitthvað sem fæstum dettur í hug að spyrða saman, enda eru fasteignir almennt ekki hluti af virðisaukaskattskerfinu. Raunin er hins vegar sú að bæði fasteignir og virðisaukaskattur koma við sögu í flestum atvinnugreinum.

Aðilum í virðisaukaskattsskyldum rekstri er almennt heimilt að telja virðisaukaskatt vegna aðfanga tengdra fasteignum til innskatts. Hið sérstaka við innskattsnýtingu vegna fasteigna sem notaðar eru í virðisaukaskattsskyldum rekstri er að nýtingin myndar í vissum tilfellum svokallaða „virðisaukaskattskvöð“ sem hvílir á rekstraraðilanum. Kvöðin myndast þegar virðisaukaskattur af efni, vinnu, tækjanotkun o.fl. vegna nýbyggingar, endurbóta, breytinga, viðgerða og viðhalds er talinn til innskatts.

Ef allt gengur sinn vanagang og engar breytingar verða á rekstrinum eða nýtingu fasteignarinnar mun kvöðin fyrnast með jöfnum hætti á tuttugu árum frá því að innskatturinn var nýttur. Breyting á notkun á fyrningartímanum, t.d. rekstri er hætt, eign er seld eða leigð, leiðir til forsendubreytinga sem skyldar rekstraraðilann til að uppreikna eftirstöðvar kvaðarinnar. Viðkomandi rekstraraðila ber þá annaðhvort að endurgreiða eftirstöðvarnar eða (ef eign er seld) tilkynna um bæran aðila sem hyggst yfirtaka kvöðina.

Óháð því hvað veldur forsendubresti til leiðréttingar, þá er það mikilvægt að tryggilega sé haldið utan um fjárhæðir og stöðu undirliggjandi virðisaukaskattskvaða, t.d. með tilgreiningu í ársreikningum og öðrum uppgjörum, líkt og gert er við aðrar skattskuldbindingar. Oftar en ekki er um að ræða verulegar fjárhæðir sem fengust endurgreiddar úr ríkissjóði á grundvelli sérstakra reglna um virðisaukaskatt af fasteignum.

Frá upptöku virðisaukaskattskerfisins hefur talsvert skort á utanumhald um virðisaukaskattskvaðir. Skortur á yfirsýn og blöndun eignanna við almennan rekstur á þar sinn hlut að máli. Á undanförnum árum hefur þó nokkur vakning orðið um tilvist og meðferð þessara skattskuldbindinga, sérstaklega eftir að fyrningartími þeirra var tvöfaldaður úr tíu árum í tuttugu um mitt ár 2006.

Um síðastliðin áramót voru gerðar margvíslegar breytingar á reglugerð um innskatt, er varða heimildir og skyldur aðila við uppgjör á virðisaukaskatti. Meðal annars voru lagðar auknar skyldur á aðila sem selja og kaupa fasteignir með undirliggjandi virðisaukaskattskvöð til þess að tilkynna sameiginlega til ríkisskattstjóra um eftirstöðvar yfirtekinnar kvaðar, sundurliðun hennar á uppgjörstímabil, í hvaða hlutfalli kvöðin er yfirtekin af kaupanda og í hvaða hlutfalli hún kemur til leiðréttingar hjá seljanda.

Fyrir breytinguna gat kaupandi yfirtekið undirliggjandi virðisaukaskattskvöð að því leyti sem hann hafði sama innskattsrétt og seljandi. Seljandi þurfti hvorki að tilkynna ríkisskattstjóra og kaupanda um fjárhæð kvaðarinnar, né hvernig hún hefði myndast. Í slíkum tilvikum voru kaupendur fasteigna oft ómeðvitaðir um eftirstöðvar hinna yfirteknu skuldbindinga og hugsanleg áhrif þeirra á reksturinn. Það liggur því fyrir að þær auknu skyldur sem leiða af áðurnefndum breytingum kalla á að farið sé markvisst yfir þær virðisaukaskattsskuldbindingar sem myndast hafa í rekstri, sem og þær sem fyrirhugað er að yfirtaka.

Grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 25.2.2016
Did you find this useful?