Faglegt efni

Hver ræður

Ríkisskattstjóri, Samkeppniseftirlitið eða Seðlabankinn?

Undir lok síðasta árs voru leiðbeiningar OECD um milliverðlagningu í viðskiptum tengdra aðila innleiddar hér á landi með breytingum á lögum um tekjuskatt. Líkt og kom fram í grein undirritaðra, Nýjar milliverðlagsreglur og íslenskt atvinnulíf, í Viðskiptablaðinu í mars síðastliðnum þá hafa yfir 60 ríki innleitt leiðbeiningar OECD.

Milliverðlagning og skjölunarskylda

Af nýju lögunum leiðir að öllum tengdum aðilum sem eiga í innbyrðis viðskiptum ber að fylgja umræddum leiðbeiningum við ákvörðun verðlagningar þeirra viðskipta til að tryggja að viðskiptin séu á armslengdargrunni. Þá leggst svokölluð skjölunarskylda á þessa aðila ef rekstrartekjur þeirra á einu ári ná yfir einum milljarði eða heildareignir þeirra í upphafi eða lok rekstrarárs eru yfir því marki. 

Með skjölunarskyldu er í grófum dráttum átt við að aðilarnir verða að skrá upplýsingar um eðli og umfang viðskipta, eðli tengsla og grundvöll ákvörðunar um milliverð. Skjölunin þarf að sýna fram á að verðlagningin fari eftir leiðbeiningum OECD og að hún sé í samræmi við verðlagningu í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila.

Nýjar reglur verða að virka í framkvæmd

Með tilliti til þess að almenn armslengdarregla tekjuskattslaganna hefur þótt heldur matskennd, bæði í orði og á borði, er innleiðing leiðbeininganna hérlendis heilt yfir af hinu góða. Í þeim felst bæði skýrari rammi og ákveðið verkfæri fyrir aðila við ákvörðun verða sín á milli og ættu leiðbeiningarnar þannig að skapa aukna vissu. Það hvort svo verður fer aftur mikið eftir því hvernig framkvæmdinni verður háttað.

Sú framkvæmd lýtur ekki aðeins að því hvernig skattyfirvöld muni koma til með að hafa eftirlit með beitingu leiðbeininganna og beita þeim sjálf þegar þau telja fyrirtækin ekki hafa gert svo réttilega. Það skiptir ekki síður máli hvernig samspilinu verður háttað við aðra lagabálka og eftirlitsstofnanir sem geta með einum eða öðrum hætti haft skoðun á verðlagningu í viðskiptum milli tengdra aðila. 

Skýrari rammi af hinu góða

Árekstrar við aðra lagabálka mögulegir

Til einföldunar er hægt að taka ímyndað en raunhæft dæmi um fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi og á innlendum markaði sem talinn er einkennast af fákeppni. Gerum ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi byrjað svokallaða markaðsrannsókn til að meta hvort aðstæður eða háttsemi á markaði fyrirtækisins hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Þá skulum við gera ráð fyrir að umrætt fyrirtæki eigi dótturfélög erlendis og að talsverð viðskipti séu á milli þeirra í erlendum gjaldeyri, sem Seðlabankanum er ætlað að hafa eftirlit með samkvæmt reglum um fjármagnshöft.

Fyrirtækið og dótturfélög þess hér heima og erlendis eru að auki öll yfir þeim mörkum til að teljast skjölunarskyld vegna milliverðlagningar og þeirri skjölun hefur verið haldið kyrfilega til haga. Ríkisskattstjóri hefur jafnframt kallað eftir skjöluninni og engar athugsemdir hafa verið gerðar af hálfu skattyfirvalda hvað verðlagningu í viðskiptum þessara aðila varðar. 

Að því búnu kemur út skýrsla um markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins sem kveður á um að verðum í viðskiptum á þessum markaði til erlendra tengdra aðila sé viljandi haldið of lágum samanborið við verð til innlendra aðila sem dregur verulega úr framboði hérlendis og hefur þannig áhrif til hækkunar verðlags neytendum til tjóns. Á sama tíma hefur gjaldeyriseftirlit Seðlabankans sent fyrirtækinu bréf þar sem tilkynnt er um upphaf rannsóknar á viðskiptum þess við erlenda dótturfélög og að allt bendi til að verðin séu of há. Fyrirtækið sé þannig að færa erlendan gjaldeyri undan höftunum með því að hliðra til verðum.

Hvað er til ráða?

Nú stendur fyrirtækið frammi fyrir því að þremur eftirlitsstofnunum greinir á um réttmæti verða í umræddum viðskiptum. Ríkisskattstjóri telur verðin á armslengdargrunni, Samkeppniseftirlitið telur verðin óeðlilega lág sem skaðar hagsmuni íslenskra neytenda en Seðlabankinn telur verðin of há og að útflæði gjaldeyris á þeim grunni eigi ekki rétt á sér. Fyrirtækið hefur þannig þrjá fremur slaka valkosti, þ.e. að halda verðum óbreyttum, að hækka verðin eða lækka þau, en allir valkostir ganga gegn áliti einhverrar af þessum eftirlitsstofnunum.

Í öllu tilvikum er alls óvíst er hvort þessar stofnanir muni sammælast um að miða við leiðbeiningar OECD, enda binda ákvæði tekjuskattslaga hvorki hendur Samkeppniseftirlitsins né gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, ekkert frekar en þeir lagabálkar sem þessar stofnanir starfa samkvæmt binda hendur Ríkisskattstjóra. Því er hætt við, að hvað sem stjórnendur fyrirtækisins gera, muni ein eða fleiri þessara þriggja stofnana telja fyrirtækið hafa gerst brotlegt við þá lagabálka sem þeim er ætlað framfylgja, en allar þessar stofnanir hafa tök á að beita viðurlögum vegna slíkra brota.

Þótt hér sé um ímyndað dæmi að ræða þá má hæglega finna fordæmi fyrir því að eftirlitsstofnanir gangi ekki í takt gagnvart einstökum fyrirtækjum, sem stafar t.d. af því að verklag stofnana er takmarkað af lagabókstafnum. Í tilvikum sem þessum bera fyrirtækin hins vegar þungann af ósamræmdu verklagi stofnana. Þau þurfa að ráða til sín lögfræðinga og aðra sérfræðinga í því augnamiði að ná fram ásættanlegum niðurstöðum þar sem öllum lögskýringarsjónarmiðum og mögulegum vörnum er haldið til haga, með tilheyrandi kostnaði, tíma og óvissu. 

Úr þessu er hins vegar unnt að leysa, sé viljinn fyrir hendi. Lausnin í þessu tilviki gæti falið í sér að löggjafinn myndi breyta lögum stofnana, sem hafa með einum eða öðrum hætti eftirlit með verðlagningu í viðskiptum, í þá veru að við framkvæmd þess eftirlits skuli taka mið af leiðbeiningum OECD í tilvikum tengdra aðila. Með því yrði dregið úr óvissu og byrði fyrirtækja og stofnana undir málarekstri af þessu tagi til hagsbóta fyrir þá aðila og ekki síður skattgreiðendur. 

 

"Úr þessu er hins vegar unnt að leysa, sé viljinn fyrir hendi"

Did you find this useful?