Faglegt efni

Öfugir samrunar

Nýr úrskurður yfirskattanefndar

Síðastliðin ár hefur fjöldi fyrirtækja fengið bakreikning frá skattyfirvöldum vegna hækkunar á opinberum gjöldum í tengslum við svonefnda öfuga samruna. Málin snúast um gjaldfærslu vaxta af lánum sem færst höfðu til fyrirtækjanna í kjölfar þessara samruna. Fyrir margar sakir eru mál þessi einkennileg og þá ekki síst þar sem skattyfirvöld settu ekki út á framkvæmdina fyrr en seint og um síðir. Niðurstaða dómstóla var engu að síður sú að umrædd vaxtagjöld hefðu ekki tengingu við rekstur fyrirtækjanna og voru því áður gjaldfærðir vextir fjarlægðir úr skattstofnum umræddra fyrirtækja.

50 milljarða vandi öfugra samruna

Vegna þessara breytinga skattyfirvalda hafa mörg fyrirtæki greitt háar fjárhæðir til ríkissjóðs. Er umfang málanna talsvert líkt og kom fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi á síðasta ári. Á þeim tíma höfðu fyrirtæki greitt hátt í 4 milljarða króna til ríkissjóðs og um 30 milljarðar króna höfðu verið bakfærðir af yfirfæranlegu tapi fyrirtækja vegna áranna 2008 til 2013, sem nýtast þá ekki til frádráttar á móti hugsanlegum hagnaði þeirra til framtíðar. Mátti því lesa af svari ráðherra að breytingar ríkisskattstjóra vegna öfugra samruna hafi í heild numið um 50 milljarða króna skattstofni.

Töfralausn ekki komin fram

Mörg þessara fyrirtækja eru eflaust enn með umrædd lán í bókum sínum og þurfa því að þola það að vera með ófrádráttarbær vaxtagjöld í skattskilum sínum. Þetta þýðir að fyrirtæki, sem skilar skattskyldum hagnaði, þarf að greiða 20% tekjuskatt af höfuðstóli umræddra vaxta til ríkissjóðs, sem það myndi ella ekki gera ef umræddir vextir væru frádráttarbærir. Nokkuð hefur verið ritað um mögulegar framtíðarlausnir vegna þessara mála og hafa menn velt fyrir sér ýmsum leiðum til að vinda ofan af ófrádráttarbærni vaxtanna. Engin töfralausn virðist hins vegar vera í sjónmáli.

Nýr úrskurður mildar höggið

Fyrir um tveimur árum óskaði Deloitte fyrir hönd tiltekins umbjóðanda eftir áliti ríkisskattstjóra á tiltekinni nálgun á þeirri stöðu að vaxtagjöld vegna umræddra lána væru ekki frádráttarbær. Nálgunin fólst í því að endurfjármagna umrædd lán innan samstæðu, með ákveðnum hætti, þannig að vaxtagjöld yrðu frádráttarbær í skattskilum til framtíðar. Þessari tillögu hafnaði ríkisskattstjóri. Deloitte kærði niðurstöðu ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar sem hefur nú staðfest umrædda tillögu Deloitte, þvert á túlkun ríkisskattstjóra.

Þótt ekki sé tekið á uppsöfnuðum fortíðarvanda þá gerir þessi úrskurður það að verkum að vextir, vegna þeirra lána sem tengjast öfugum samruna, verða með endurfjármögnun frádráttarbærir hjá viðkomandi samstæðu til framtíðar. Ætla má að mörg fyrirtæki séu í sömu aðstöðu og umræddur umbjóðandi Deloitte og geti því fengið sömu úrlausn. Verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir fyrirtæki í þessum sporum að kanna hvort umrædd nálgun gangi upp hvað þau varðar.

Did you find this useful?