Faglegt efni

Punkturinn 1. tbl. 2017

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er m.a. fjallað um fjárlög fyrir árið 2017, lög um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum, lög um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, o.fl.

Skattadagur Deloitte 19. janúar 2017 kl. 8.30-10.00

1. Fjárlög fyrir árið 2017

Þann 22. desember síðastliðin voru fjárlög fyrir árið 2017 samþykkt á Alþingi. Þar sem ekki hafði tekist að mynda ríkisstjórn á þeim tíma voru lögin byggð í samræmi við fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára, sem samþykktar voru í ágúst sl. Samhliða voru lög nr. 126/2016 um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017 samþykkt en þar er m.a. að finna ýmsar breytingar er varða tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs og þ.a.l. á skattalögum.Eftirfarandi eru helstu þættir þessara breytinga í stuttu máli.

Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta og gjalda

Kveðið er á um 2,2% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur frumvarpsins, auk sérstakrar 2,5% hækkunar gjaldanna, þ.e. alls 4,7%.

Hér er um að ræða almennt og sérstakt bensíngjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald, gjald af áfengi og tóbaki og kolefnisgjald af eldsneyti.

Hækkun á mörkum virðisaukaskattsskyldrar veltu við sölu á rafrænt afhentri þjónustu.

Gerð er sú breyting á 1. mgr. 35. gr. laga um virðisaukaskatt að mörk virðisaukaskattskyldrar veltu við sölu á rafrænt afhentri þjónustu, á hverju tólf mánaða tímabili, hækkar í 2.000.000 kr. (áður 1.000.000 kr.). Þetta er í samræmi við þá breytingu sem gerð var síðastliðið vor á fjárhæðarmörkum virðisaukaskattskyldrar veltu samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt. Þannig er breytingunni ætlað að tryggja að sama viðmið gildi um undanþágu skattskyldrar veltu þegar kemur að sölu rafrænt afhentrar þjónustu.

Hækkun á útvarpsgjaldi, gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og fyrir vegabréf

Kveðið er á um hækkun á útvarpsgjaldi, gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og gjaldi fyrir vegabréf.

Áætlað er að þessar hækkanir muni skila samtals um 200 milljónum kr. í ríkissjóð og þannig vega á móti hækkunum sem gerðar eru á barna- og vaxtabótum. 

Sérstakt útvarpsgjald til Ríkisútvarpsins er hækkað úr 16.400 kr. í 16.800 kr.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra er hækkað úr 10.464 kr. í 10.956 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2017.

Gjöld fyrir útgáfu vegabréfa eru almennt hækkuð um 20%.

Framlenging tímabundinnar heimildar til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða

Gildistími ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt þar sem kveðið er á um heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, framlengist um eitt ár.

Tilgangur ákvæðisins er einkum að styrkja samkeppnishæfni umræddra ökutækja gagnvart hefðbundnum bensín- og dísilknúnum ökutækjum með hliðsjón af þeirri stefnu að efla og flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum. Ljóst er að sú ívilnun sem felst í ákvæðinu hefur fram til þessa haft mjög jákvæð áhrif í því tilliti.

Hækkun gistináttaskatts

Fjárhæð gistináttaskatts hækkar úr 100 kr. í 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu frá 1. september 2017.

Lögin má sjá í heild sinni hér.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

2. Auknar aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

Þann 13. október sl. voru samþykkt á Alþingi lög um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. en  markmið þeirra er einkum að styrkja regluverk og sporna gegn skattaundanskotum sem til koma vegna eignarhalds í lágskattaríkjum. Með lögunum eru þannig gerðar ýmsar breytingar á skattalögum, s.s. lögum um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, virðisaukaskatts og tollalögum. Þá er lagasetningin í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar og samstarf sem Ísland hefur tekið virkan þátt í á undanförnum árum sem ætlað er að stuðla gegn skattsvikum og eru m.a. þrjár af aðgerðum BEPS (e. Base Erosion and Profit Shifting) aðgerðaráætlunar OECD og G20 ríkjanna, innleiddar sem breytingar við tekjuskattslögin. Eftirfarandi er stutt úttekt á helstu þáttum löggjafarinnar.

Eftirfarandi breytingar á lögum um tekjuskatt munu taka gildi í ársbyrjun 2017 og því gilda um rekstrarárið 2017.

Föst starfsstöð, sbr. 3. gr. a tekjuskattslaga

Skilgreining á því hvað telst vera „föst starfsstöð“ í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga er í fyrsta skipti færð í lögin og felur að meginreglu í sér fasta atvinnustöð (e. permanent establishment) þar sem starfsemi fyrirtækis fer fram að nokkru eða öllu leyti. Jafnframt er að finna nánari skýringar á hugtakinu, sem og ákveðnar undantekningar frá framangreindri meginreglu.

Við lögin bætist ný grein, 3. gr. a, þar sem finna má skilgreiningu á því hvað telst vera „föst starfsstöð“ skattaðila sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Hér er því markmiðið að skerpa á því hvernig þetta hugtak skuli almennt túlkað í framkvæmd en nokkuð hefur verið deilt um það efni fram til þessa.  

Samkvæmt 1. mgr. hins nýja ákvæðis merkir hugtakið „föst starfsstöð“ fasta atvinnustöð þar sem starfsemi fyrirtækis fer fram að nokkru eða öllu leyti. Þannig er skilgreiningin í samræmi við 5. gr. samningsfyrirmyndar OECD, sem og tvísköttunarsamninga sem Ísland hefur samþykkt, sbr. einnig 7. lið aðgerðaráætlunar OECD og G20. Í síðari málsgreinum ákvæðisins er síðan að finna nánari skýringar á hugtakinu og jafnframt tilteknar undantekningar á framangreindri meginreglu um hvað skuli teljast til fastrar starfsstöðvar skattaðila.

·        Byggingar- eða uppsetningarframkvæmd telst aðeins föst starfsstöð að hún standi lengur en sex mánuði. Hér er um að ræða frávik frá samningsfyrirmynd OECD, sem og þeim tvísköttunarsamningum sem Ísland á aðild að, þar sem almennt er miðað við tólf mánuði í þessu sambandi.

·        Fyrirtæki telst ekki hafa fasta starfsstöð hérlendis vegna starfsemi sem er aðeins ætlað að undirbúa, styðja við eða reka aðra starfsemi fyrirtækisins, þ.m.t. að nýta aðstöðu til geymslu gagna, sýningar eða birgðahalds á vörum eða öflunar upplýsinga fyrir fyrirtækið. Umráð erlends fyrirtækis á netþjónum og tengdum tölvubúnaði til að annast fyrrgreinda starfsemi myndi því ein og sér ekki fela í sér fasta starfsstöð þess hérlendis.

·        Ef fyrirtæki eða aðili sem það hefur náin tengsl við rekur fleiri en eina atvinnustöð hérlendis þar sem fram fer samþætt starfsemi skal meta hana sem eina heild við mat á því hvort um undirbúnings- eða stoðstarfsemi sé að ræða. Aðili telst hafa náin tengsl við fyrirtæki í skilningi þessarar málsgreinar ef annar hefur yfirráð yfir hinum eða báðir lúta yfirráðum sömu aðila.

·        Fyrirtæki telst ekki hafa fasta starfsstöð hér á landi þótt það reki hér viðskipti fyrir milligöngu miðlara, umboðsmanns eða annars óháðs umboðsaðila, ef þessir milligönguaðilar koma fram innan marka venjulegs atvinnureksturs þeirra. Ef milligönguaðili sem ekki er óháður hefur á hendi starfsemi fyrir fyrirtæki og hefur heimild til að gera samninga fyrir þess hönd hér á landi eða gegnir að jafnaði lykilhlutverki sem leiðir til samningagerðar án efnislegrar breytingar af hálfu viðkomandi fyrirtækis, telst fyrirtækið hafa hér fasta starfsstöð. Þetta á þó ekki við ef starfsemi þessa aðila er takmörkuð við þá starfsemi sem um ræðir í 3. mgr. og sem mundi ekki gera þessa föstu atvinnustöð að fastri starfsstöð samkvæmt ákvæðum þeirrar málsgreinar þótt innt væri af hendi frá fastri atvinnustöð.

·        Þótt félag sem er heimilisfast utan Íslands stjórni eða sé stjórnað af félagi sem er heimilisfast á Íslandi eða hefur með höndum starfsemi hér á landi, annaðhvort frá fastri atvinnustöð eða á annan hátt, leiðir það í sjálfu sér ekki til þess að annaðhvort þessara félaga sé föst atvinnustöð hins.

Í reglugerð nr. 1165/2016 er kveðið nánar á um afmörkun fastrar starfsstöðvar í framkvæmd.

Takmörkun á frádrætti vaxtagjalda (þunn eiginfjármögnun), sbr. 57. gr. b tekjuskattslaga

Skattalegur vaxtafrádráttur aðila í atvinnurekstri þegar lánveitandi er tengdur aðili, t.d. móðurfyrirtæki, verður að meginreglu takmarkaður við 30% af EBITDA-hagnaði viðkomandi skattaðila.

Við lögin bætist ný grein, 57. gr. b, þar sem finna má í fyrsta skipti sérstakar reglur um takmörkun á skattalegum vaxtafrádrætti aðila í atvinnurekstri þegar lánveitandi er tengdur aðili, t.d. móðurfyrirtæki. Fram til þessa hefur ekki farið fyrir slíkum ákvæðum í íslenskum skattalögum en þó hefur nokkuð verið kallað eftir því á undanförnum árum. Í reglunum felst einkum að frádráttur vaxtagjalda og affalla vegna slíkra lánsviðskipta er takmarkaður við 30% af EBITDA-hagnaði skattaðilans. Þau vaxtagjöld og afföll sem umfram eru koma þannig ekki til frádráttar.

Eftirfarandi undantekningar eru gerðar á framangreindri meginreglu en einungis ein þeirra þarf að vera uppfyllt gagnvart viðkomandi skattaðila:

a)    vaxtagjöld eða afföll skattaðila eru lægri en 100 millj. kr;

b)    lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis;

c)    skattaðili sýnir fram á að eiginfjárhlutfall hans sé lægra en tveimur prósentustigum undir eiginfjárhlutfall þeirrar samstæðu sem hann tilheyrir; eða

d)    skattaðili er fjármálafyrirtæki, vátryggingarfélag eða félag í eigu þessara aðila sem starfa í sambærilegum rekstri.

Ríki-fyrir-ríki skýrsla um skattskil, sbr. 91. gr. a tekjuskattslaga

Móðurfélag sem skráð er hérlendis og á dótturfélag/félög erlendis er gert að skila ríkisskattstjóra sérstakri skýrslu (ríki-fyrir-ríki skýrslu) um starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæða ef tekjur heildarsamstæðunnar eru yfir 100 milljarðar kr. á síðasta reikningsári.

Á eftir 91. gr. tekjuskattslaga kemur ný grein, 91. gr. a, þar sem fjallað er um svonefndar „ríki-fyrir-ríki skýrslur“ (e. Country by Country reporting) um starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæða. Þessum reglum er ætlað að auðvelda skattyfirvöldum að ákvarða skatta fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna sem hafa tekjur yfir 100 milljarða kr., m.a. með því að gera þeim kleift að kanna milliverðlagningu innan samstæðna. Þannig er móðurfélagi sem skráð er hérlendis og á dótturfélag/félög erlendis skylt að skila upplýsingum til ríkisskattstjóra um tekjur og skatta í þeim ríkjum þar sem félög innan samstæðunnar hafa heimilisfesti, sem og nánari upplýsingum um starfsemi heildarsamstæðunnar og einstakra félaga innan hennar. Reglurnar byggja á samkomulagi sem Ísland undirritaði þann 12. maí sl. á vegum OECD og er einnig hluti af 13. lið aðgerðaráætlunar OECD og G20 í tengslum við endurskoðun á milliverðlagningarreglum.

Móðurfélag sem skráð er hérlendis og á dótturfélag/félög erlendis skal fyrir lok hvers almanaksárs að loknu reikningsári skila ríkisskattstjóra skýrslu með upplýsingum um tekjur og skatta í þeim ríkjum þar sem félög innan heildarsamstæðunnar eiga heimilisfesti. Skýrslan skal einnig innihalda lýsingu á atvinnustarfsemi heildarsamstæðunnar í hverju ríki, auk upplýsinga um hvert samstæðufélaga og þá efnahagslegu starfsemi sem félögin hafa með höndum.

Skyldan til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil gildir ekki ef tekjur heildarsamstæðunnar á síðasta reikningsári voru lægri en 100 milljarðar kr.

Skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil hvílir einnig á öðrum félögum á Íslandi þrátt fyrir að þau teljist ekki vera móðurfélag heildarsamstæðu ef móðurfélag heildarsamstæðu er erlent og:

a)    hinu erlenda móðurfélagi er ekki skylt að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil í heimilisfestarríkinu,

b)    heimilisfestarríki hins erlenda móðurfélags hefur ekki gert upplýsingaskiptasamning við Ísland sem kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil sem er í gildi við lok reikningsársins skv. 1. mgr., eða

c)    ríkisskattstjóri hefur tilkynnt íslenska félaginu að heimilisfestarríki móðurfélagsins hafi ekki gert upplýsingaskiptasamning við Ísland sem um getur í b-lið eða sendir ekki íslenskum skattyfirvöldum af öðrum ástæðum ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil.

Eigi 1. mgr. við fleiri en einn skattaðila skulu þeir ákveða hver þeirra sé ábyrgur fyrir skilum á ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil og tilkynna ríkisskattstjóra um þá ákvörðun.

Félag, sem á lögheimili á Íslandi og er hluti af heildarsamstæðu þar sem einu eða fleiri félögum er skylt að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil skv. 1. og 2. mgr., skal eftir lok reikningsárs tilkynna ríkisskattstjóra hvaða félag í samstæðunni skili ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil og um heimilisfestarríki þess.

Í reglugerð nr. 1166/2016 er kveðið nánar á um framkvæmd lagaákvæðisins, þar á meðal um efni og form ríki-fyrir-ríki skýrslunnar.

Fyrningartími og heimild til endurákvörðunar skattyfirvalda lengist vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum, sbr. 1 . mgr. 97. gr. og 8. mgr. 110. gr. tekjuskattslaga

Heimild skattyfirvalda til endurákvörðunar skatts lengist úr sex árum í tíu ár vegna tekna og eigna skattaðila í lágskattaríkjum, talið frá því ári sem endurákvörðun fer fram. Samhliða lengist fyrningartími sakar í samskonar málum úr sex árum í tíu ár.

Það hefur sýnt sig að liðið geta áratugir þar til uppgötvast um eignir sem komið var undan skattlagningu, svo sem í gegnum lágskattaríki. Að baki slíku undanskoti liggja aðstæður sem ekki eru sambærilegar þeim aðstæðum sem almennir skattaðilar standa frammi fyrir, svo sem vegna skatteftirlits.

Lögin má sjá í heild sinni hér.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

3. Lög um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

Þann 2. júní sl. voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti. Markmiðið að baki lagasetningunni er einkum að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum markaði, auk þess að efla stuðning við nýsköpun og þróun þeirra sem kostur er, m.a. með aðkomu og þátttöku einstaklinga. Í lögunum er þannig að finna margskonar breytingar sem stefna með einum eða öðrum hætti að framangreindum markmiðum, s.s. varðandi skattlagningu kaupréttar, skattalega ívilnun til erlendra sérfræðinga, frádrátt vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja og skattafslátt vegna hlutabréfakaupa í litlum félögum í vexti. Eftirfarandi er stutt samantekt á helstu þáttum laganna.

Skattlagning kauprétta, sbr. 9. gr. tekjuskattslaga

Skattlagningu hagnaðar vegna kaupa manns á hlutabréfum, samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast í starfi fyrir annan mann, verður frestað þar til bréfin eru seld í stað þess að vera skattlagður við nýtingu kaupréttar.

Í frumvarpi var lagt til að mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði yrði skattlagt sem launatekjur. Í umsögnum og á fundum efnahags- og viðskiptanefndar voru gerðar athugasemdir við breytinguna og lagt til að meginreglan yrði áfram sú að mismunur á gangverði og kaupverði teldist til launatekna en hagnaður vegna mismunar á gangverði við innlausn og söluverði síðar yrði skattlagður sem fjármagnstekjur. Breytingin var samþykkt.

Skattlagning hagnaðar vegna breytanlegra skuldabréfa, sbr. 1. mgr. 18. gr. tekjuskattslaga

Skattlagningu hagnaðar vegna breytanlegra skuldabréfa verður frestað þar til bréfin eru seld í stað þess að vera skattlagður við nýtingu breytiréttarins.

Þau sjónarmið liggja hér að baki að hlutafé er áhættufé og sá möguleiki því ætíð fyrir hendi að fjárfestingin muni tapast að fullu. Fari svo hefur eigandi því í raun greitt skatt af tapi. Með því að fresta skattlagningu hagnaðarins er þannig leitast við að gera fjármögnunarkostinn sem felst í breytanlegum skuldabréfum meira aðlaðandi fyrir fjárfesta, ásamt því að gera skattlagninguna almennt sanngjarnari.

Frádráttarheimild til handa erlendum sérfræðingum (sértæk ívilnun), sbr. A-lið 1. mgr. 30. gr. tekjuskattslaga

Skattaleg meðferð tekna erlendra sérfræðinga, sem skattskyldir eru skv. 1. eða 3. gr. tekjuskattslaga, breytist á þann veg að fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf verða slíkir aðilar aðeins skattskyldir af 75% þessara tekna, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Hér undir falla hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru.

Markmiðið hér að baki er einkum að greiða fyrir og laða að landinu erlenda sérfræðinga til starfa hér á landi, ekki síst í íslenskum tækni- og rannsóknarfyrirtækjum og háskólasamfélaginu. Það skal athugað að ákvæðinu er ekki ætlað að taka til íþróttamanna eða þjálfara sem eru ekki beinir þátttakendur í atvinnulífinu.

Bent hefur verið á möguleg vandkvæði kunni að vera í framkvæmd þegar kemur að því að skilgreina hverjir teljist til „erlendra sérfræðinga“ þar sem sérfræðiþekking verði ekki alltaf bundin við menntun. Aðeins er gert skilyrði um að viðkomandi búi yfir þekkingu sem ekki er fyrir hendi nema í litlum mæli hér á landi.

Á grundvelli heimildar í umræddu ákvæði, hefur fjármála- og efnahagsráðherra sett reglugerð nr. 1202/2016 þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd heimildarinnar, m.a. um form og skilyrði umsókna, og þær kröfur sem erlendir sérfræðingar þurfa að uppfylla, svo sem varðandi menntun, reynslu og fyrri störf, auk ráðningarsamninga. Þá er einnig fjallað um skipun og starfshætti nefndar sem meta skal hvort viðkomandi starfsmaður teljist erlendur sérfræðingur í skilningi laganna.

Þrátt fyrir breytinguna verður tryggingagjald og lífeyrisiðgjöld eftir sem áður greidd af heildarlaunum án tillits til 25% frádráttarins. Sama gildir um greiðslur barna- og vaxtabóta.

Ákvæðið öðlast gildi 1. janúar 2017 og kemur til framkvæmda við álagningu 2018 og staðgreiðslu opinberra gjalda 2017.

 

Skattafsláttur til einstaklinga vegna hlutabréfakaupa í litlum félögum í vexti, sbr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. tekjuskattslaga

Einstaklingar, sem skattskyldir eru á grundvelli 1. eða 3. gr. tekjuskattslaga, sem fjárfesta í félögum í vexti geta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, dregið frá tekjuskattsstofni sínum, að viðbættum fjármagnstekjum, allt að 50% af fjárfestingunni á hverju ári.

Í meðferð þingsins var hlutfallið hækkað úr 30% í 50% eftir ábendingar þess efnis að hlutfallið væri 50% í Svíþjóð og 41% á Írlandi.

Til þess að geta nýtt sér heimild til frádráttar þarf einstaklingur að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

§  Fjárfesting skal nema að lágmarki 300.000 kr. á almanaksári.

§  Einstaklingur þarf að geta sýnt fram á að fjárfestingin hafi verið að fullu greidd.

§  Fjárfestingin skal vera til komin vegna hlutafjáraukningar í félaginu.

§  Einstaklingur skal hvorki tengdur félaginu né félagasamstæðum þess, tveimur árum fyrir og þremur árum eftir skráða hlutafjáraukningu á eftirfarandi hátt:

o   Á grundvelli fjárhagslegra hagsmuna þar sem einstaklingurinn á með beinum eða óbeinum hætti meira en 30% hlut í félaginu eða atkvæðarétti þess.

o   Sem beinn eða óbeinn stjórnarmeðlimur eða starfsmaður félagsins eða annars félags sem á beint eða óbeint eignarhlutdeild í félaginu. 

Ákvæðið setur fram skilyrði sem þau félög sem fjárfest er í þurfa að uppfylla, skilyrðin eru eftirfarandi:

§  Félagið sé stofnsett á Íslandi eða innan annars EES-ríkis, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, eða í Færeyjum, og með fasta starfsstöð á Íslandi.

§  Ekki fleiri en 25 starfsmenn starfi hjá félaginu og árleg velta þess sé undir 650 milljónum kr. og/eða efnahagsreikningur sé undir 650 milljónum kr. Ef félag er hluti af félagasamstæðu skal miða við samstæðuna í heild á grundvelli samstæðureiknings.

§  Greiðslu alls hlutafjár vegna stofnunar viðkomandi félags þarf að vera lokið.

§  Félagið hafi ekki verið skráð á skipulegan verðbréfamarkað.

§  Félagið hafi ekki, þegar hlutafjáraukning á sér stað, verið starfandi á markaði lengur en sjö ár frá fyrstu sölu þess í viðskiptalegum tilgangi.

§  Félagið sé rekið í hagnaðarskyni.

§  Félagið eigi ekki í fjárhagsvanda. Félag telst eiga í fjárhagsvanda ef a.m.k. eitt af skilyrðum sem fram koma í reglugerð nr. 785/2016, um skattafslátt manna vegna hlutabréfakaupa, er uppfyllt.

§  Íslenska ríkið eigi ekki útistandandi endurgreiðslukröfu á félagið vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar.

§  Félagið hafi sent ríkisskattstjóra ársreikning sinn, sem gerður hefur verið í samræmi við lög um ársreikninga, fyrir næstliðið reikningsár.

§  Félagið sýni fram á að andvirði hlutafjáraukningar sem um ræðir verði ráðstafað í þágu viðskiptastarfsemi þess. Ef félagið hefur ekki hafið viðskiptastarfsemi ber að nota að lágmarki 30% af andvirðinu til rannsókna eða þróunar á viðskiptastarfsemi sem hefjast skal innan tveggja ára frá skráningardegi hlutafjáraukningarinnar.

§  Hlutafjáraukning í félagi getur að hámarki numið 2.000 milljónum kr. í heild. Ef félag er hluti af félagasamstæðu nær hámarkið til samstæðunnar.

§  Áður en hlutafjáraukning fer fram og árlega eftir það skal félag fá staðfestingu ríkisskattstjóra á því að öll skilyrði séu uppfyllt. Synjun á staðfestingu til félags má skjóta til yfirskattanefndar.

§  Félagið skal skila lista til ríkisskattstjóra yfir þátttakendur í hlutafjáraukningunni og sjá til þess að aukningin sé skráð í hlutafélagaskrá.

Samkvæmt ákvæðinu falla félög sem stunda ákveðna starfsemi utan þess. Í greinargerð segir að ekki sé farin sú leið að einskorða skattafsláttinn við fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum enda erfitt að afmarka með skýrum hætti hvaða félög teljast nýsköpunarfyrirtæki og því talin upp sú starfsemi sem fellur utan ákvæðisins. Starfsemi sem fellur utan ákvæðisins er starfsemi:

§  sem felst í viðskiptum með fasteignir,

§  sem felst í útleigu fasteigna eða lausafjár,

§  eignarhaldsfélaga,

§  fjárfestingafélaga,

§  eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 99/1999,

§  sem felst í útseldri þjónustu og ráðgjöf sérfræðinga,

§  sem felst í kvikmyndaframleiðslu,

§  sem felst í mannvirkjagerð og hvers kyns viðhaldi og endurbótum á mannvirkjum,

§  tengd fjárfestingu og /eða rekstri hótela, gistiheimila og veitingastaða,

§  sem felst í útflutningi og innflutningi vara sem framleiddar eru og þróaðar af öðrum,

§  sem felst í kvers kyns námuvinnslu. 

Ef einstaklingur sem notið hefur frádráttar selur bréfin innan þriggja ára frá því að fjárfesting fór fram skal bakfæra upphaflegan frádrátt. Þá skal einnig bakfæra frádrátt ef einstaklingur tekur upp tengsl við félagið eða félag uppfyllir ekki lengur skilyrði ákvæðisins. Bakfærður frádráttur skal bera 15% álag.

Breytingarnar taka mið af nýjum reglum EES sem fela í sér rýmkun á svigrúmi til þess að veita ríkisaðstoð á þessu sviði (reglugerð um aðstoð vegna áhættufjárfestinga nr. 651/2014).

Í greinargerðinni segir að markmið breytinganna séu meðal annars að hvetja fjárfesta til þess að leggja fyrirtækjum í vexti til nýtt hlutafé en óskráð fyrirtæki sem eru komin af sprotastiginu hafi oft takmarkaðan aðgang að viðbótarfjármögnun. Breytingin tekur til álagningar opinberra gjalda á árunum 2017, 2018 og 2019.

Lögin má sjá í heild sinni hér.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

4. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður YSKN nr. 245/2016

Í máli þessu taldi yfirskattanefnd að lögfest undanþága frá gjaldskyldu vegna eignayfirfærslna í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar félaga taki samkvæmt orðalagi sínu ekki til sambærilegra ráðstafna þegar um er að ræða yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður YSKN nr. 257/2016

Í máli þessu taldi yfirskattanefnd verðlagningu við sölu hlutabréfa fela í sér málamyndagerning með það að markmiði að nýta sölutap bréfanna til skattalegs frádráttar. Yrði því ekki byggt á þessum ráðstöfunum í skattalegu tilliti.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður YSKN nr. 260/2016

Í máli þessu taldi yfirskattanefnd að kaup B ehf. á 20% eigin hlut á undirverði fæli í sér óvenjuleg skipti í fjármálum, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Um var að ræða sölu á hlut foreldra kæranda sem jafnframt var eigandi 80% hlutafjárs félagsins. Taldi nefndin að ekki yrði annað séð en að eini tilgangur þessa hefði verið að færa á hendur kæranda fyrrgreinda hlutareign án þess að til skattlagningar kæmi.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

5. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 78/2016

Í máli þessu krafðist B ehf. endurgreiðslu frá íslenska ríkinu á svonefndu eftirlitsgjaldi sem lagt hafði verið á innflutning félagsins á ávöxtum og grænmæti á grundvelli reglugerðar nr. 525/2007 um innheimtu eftirlitsgjalds af innflutningi plantna, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 51/1981.

Í forsendum dómsins kemur m.a. fram að með hliðsjón af forsögu gjaldtökuheimildarinnar, sem og þeim reglum er giltu um álagningu þjónustugjalda, sé ráðherra heimilt að ákveða framangreinda fjárhæð þannig að tekjur af gjaldinu stæðu aðeins undir kostnaði við alla vinnu sem væri í nánum efnislegum tengslum við þær eftirlitsaðgerðir sem kveðið væri á um í reglugerð nr. 189/1990 um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum. Á hinn bóginn yrði greiðendum ekki gert að standa straum af kostnaði við vinnu sem félli utan þess sem síðastgreind reglugerð mælti fyrir um.

Með hliðsjón af tilhögun gjaldtökunnar og að því virtu að umrætt eftirlitsgjald hafði staðið alfarið undir starfsemi plöntueftirlits, sem einnig hafði tekið til annarra þátta en innflutnings á plöntum og plöntuafurðum, taldi dómurinn að gjaldtakan ætti sér ekki lagastoð og féllst því á kröfur B ehf.

Dóminn má sjá í heild sinni hér.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

6. Nýr sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte

Bjarni Þór Bjarnason, lögmaður, hefur tekið við sem sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte og varð jafnframt einn af eigendum Deloitte.

Bjarni lauk laganámi við Háskóla Íslands árið 2008 og framhaldsnámi við University of Southern California árið 2009.

Bjarni hefur starfað hjá LOGOS lögmannsþjónustu undanfarin átta ár og hefur meðal annars sérhæft sig á sviði félagaréttar, skattaréttar, samrunum og yfirtökum og í fjármögnun fyrirtækja. Áður en Bjarni gekk til liðs við LOGOS starfaði hann hjá yfirskattanefnd og Íbúðalánasjóði.

Bjarni er giftur Helgu Elísu Þorkelsdóttur, iðnaðarverkfræðingi, og eiga þau saman þrjú börn.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Undir vörumerki „Deloitte“ sameinast kraftar þúsunda sérfræðinga sem starfa hjá sjálfstæðum félögum um allan heim við að veita viðskiptavinum þjónustu á sviði endurskoðunar, ráðgjafar, fjármála, áhættustjórnunar og skattamála. Þessi félög eru aðilar að Deloitte Touche Tohmatsu Limited (DTTL), sem er breskt einkahlutafélag (private company limited by guarantee). Hvert aðildarfélag veitir þjónustu á tilteknu landssvæði og er bundið þeim lögum og fagreglum sem þar gilda. Félagið DTTL innir ekki af hendi þjónustu til viðskiptavina. DTTL og aðildarfélög þess eru aðskildir og sérgreindir lögaðilar sem ekki geta skuldbundið hvert annað. DTTL og aðildarfélög þess bera eingöngu ábyrgð á eigin gjörðum eða vanrækslu en ekki á aðgerðum hvers annars. Hvert aðildarfélag DTTL er skipulagt í samræmi við innlend lög, reglugerðir, viðskiptavenju og aðra þætti, og getur veitt sérfræðiþjónustu á starfssvæði sínu í gegnum dótturfélög, tengd félög, og/eða önnur félög.

Deloitte veitir bæði opinberum aðilum og einkafyrirtækjum í fjölmörgum atvinnugreinum endurskoðunar-, skatta-, ráðgjafar- og fjármálaþjónustu. Alþjóðlegt sérfræðinet Deloitte tengir saman sérfræðinga í 150 löndum þannig að saman fari ítarleg staðbundin þekking og alþjóðleg hæfni, viðskiptavinum til hagsbóta. Hjá Deloitte starfa um 245.000 sérfræðingar sem stefna saman að því að veita ávallt framúrskarandi þjónustu. 

Þetta rit inniheldur almennar upplýsingar; með útgáfu þess eru aðilar að sérfræðineti Deloitte, þ.e. Deloitte Touche Tohmatsu Limited, aðildarfélög þess eða samstarfsfélög, ekki að veita sérfræðiráðgjöf eða þjónustu. Ráðfærðu þig við fagaðila áður en þú tekur ákvörðun eða grípur til aðgerða sem gætu haft áhrif á fjármál þín eða viðskipti. Enginn aðili í sérfræðineti Deloitte skal gerður ábyrgur fyrir tjóni sem kann að verða hjá þeim sem reiðir sig á þetta rit.

© 2017 Deloitte ehf.

Did you find this useful?