Faglegt efni

Punkturinn 1. tbl. 2018

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er fjallað um nýlega úrskurði yfirskattanefndar ásamt alþjóðlegum fréttum, þar á meðal innleiðingu Bandaríkjanna á reglum um vegabréfstakmarkanir þeirra sem eru í umtalsverðum vanskilum með skattgreiðslur sem og samþykki Öldungadeildar á umfangsmiklu skattafrumvarpi Bandaríkjaforseta. Þá er nýlegum dómi Hæstaréttar gerð skil, þar sem reyndi m.a. á 57. gr. laga nr. 90/2003.

1. Skattadagurinn 2018

Þann 16. janúar síðastliðinn fór hinn árlegi Skattadagur Deloitte fram, í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins. Að venju var fjölmennt á fundinum og hlýddu um 200 manns á áhugaverð erindi fyrirlesara. Ljóst er að Skattadagurinn hefur fest sig í sessi hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni.

Glærur frá Skattadeginum má sjá hér.

2. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður YSKN í máli nr. 9/2018

Kærandi í málinu var ekki talinn hafa sýnt fram á að leigutekjur vegna sölu gistinga til ferðamanna á árinu 2013 tilheyrðu X ehf. en ekki kæranda sjálfum, en um var að ræða greiðslu frá airbnb.com vegna útleigu íbúða. Horft var til þess að ekki hefði verið farið með greiðslurnar sem tekjur í skattskilum og ársreikningi X ehf. Kröfu kæranda um niðurfellingu var hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

 

Úrskurður YSKN í máli nr. 11/2018

Kærandi óskaði eftir endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar í máli er laut að endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Byggt var á því að láðst hefði að taka tillit til lánssamnings milli X ehf. og Y ehf. við úrlausn málsins, og þá hvort vaxtagjöld af umræddu láni gætu talist til framleiðslukostnaðar sjónvarpsþáttaraðar í skilningi laga nr. 43/1999 sem myndaði stofn til endurgreiðslu. Yfirskattanefnd taldi að líta yrði á hið umdeilda rekstrarlán innan samstæðunnar sem fjárframlag eða stofnfé og var kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

 

Úrskurður YSKN í máli nr. 8/2018

Talið var að ekki væri nægilegt að gengið hefði úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins um örorku manns til að komið gæti til niðurfellingar bifreiðagjalds samkvæmt lögum um það gjald, heldur væri áskilnaður um greiðslu örorkustyrks eða annarra tilgreindra greiðslna frá stofnuninni. Ekki var um slíkt að ræða í máli kæranda og var kröfu hans um niðurfellingu bifgreiðagjalds hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

 

Úrskurður YSKN í máli nr. 10/2018

Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að hámark skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar til greiðslu inn á höfuðstól húsnæðislána á tekjuári tæki mið af hjúskaparstöðu skattaðila í lok viðkomandi árs. Var ríkisskattstjóri talinn hafa réttilega miðað hámarksfjárhæð skattfrjálsrar ráðstöfunar kæranda, sem uppfyllti skilyrði fyrir samsköttun, við 375.000 kr.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

 

---------------------------------------------------------------------------------------------------------------

3. Nýlegur dómur Hæstaréttar

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 72/2017

Árið 2005 voru allir hlutir seldir í F, óskráðu einkahlutafélagi og félagið sagt eiga bæði skip, aflaheimildir og veiðarfæri, sem þá voru í eigu I hf. Salan fór fram í lok maí 2005. Í september sama ár var I hf. skipt og skipið, veiðiheimildir og veiðarfæri látin ganga til F, en allir hlutir í því félagi höfðu, sem áður segir, verið seldir fjórum mánuðum áður og þar með framangreind verðmæti. Hluthafar í F sem voru þeir sömu og í I hf., greiddu fjármagnstekjuskatt á gjaldárinu 2006 af söluhagnaðinum sem þeir fengu við viðskiptin 2005.

Skattyfirvöld töldu að í raun hefði verið um að ræða sölu verðmæta frá I hf. til kaupendanna og því ætti I hf. að bera tekjuskatt af söluhagnaði eignanna. Var það staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 217/2015 og var sú niðurstaða einkum reist á svonefndri raunveruleikareglu í 57. gr. laga nr. 90/2003. Hluthafarnir sem áður höfðu greitt fjármagnstekjuskatt af hagnaði þeim sem þau höfðu af sölunni töldu að í ljósi framangreindrar niðurstöðu ætti að endurgreiða þeim greiddan fjármagnstekjuskatt þar sem hann hefði verið ofgreiddur í ljósi þess að I hf. hefði verið gert að greiða tekjuskatt af söluhagnaðinum. Kröfu hluthafanna var hafnað. Var sú niðurstaða einkum reist á því að þeir hefðu fengið fjármunina til frjálsrar ráðstöfunar og yrði að líta á söluhagnað þeirra sem  tekjur af hlutareign þeirra í I hf.

Dóminn má sjá í heild sinni hér

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

4. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Póllandi, Bandaríkjunum og Japan

Pólland

Frá og með 1. janúar 2018 voru miklar breytingar gerðar á skattaumhverfi fyrirtækja landsins, þar sem meðal annars voru kynntar nýjar takmarkanir á frádrætti tiltekinna greiðsla til tengdra aðila.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

Bandaríkin

IRS (Internal Revenue Service) tilkynnti þann 16. janúar síðastliðinnS, að stofnunin væri að vinna að innleiðingu reglu um vegabréfstakmarkanir á skattgreiðendur sem eru með umtalsverðar skuldir vegna ógreiddra skatta.

Fréttina má sjá í heild sinni hér

Þann 20 desember 2017, samþykkti Öldungadeild Bandaríkjaþings skattafrumvarp Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta. Inniheldur frumvarpið mestu breytingar á skattalögum í þrjá áratugi. Meðal þeirra breytinga sem eiga sér stað, er að fyrirtækjaskattur lækkar úr 35% niður í 21% og hæsta skattþrep einstaklinga úr 39,6% niður í 37%.

Nánari upplýsingar um ofangreindar skattabreytingar má sjá hér

Japan

Tilkynntar voru skattabreytingar fyrir árið 2018, þar sem lagðar voru til hvetjandi breytingar fyrir fyrirtækin í landinu.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

Þá var tvísköttunarsamningur milli Íslands og Japans undirritaður í Reykjavík þann 15. janúar 2018. Samningurinn, sem nær til tekjuskatta, var undirritaður af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra fyrir hönd Íslands og Yasuhiko Kitagawa, sendiherra Japans á Íslandi fyrir hönd Japans.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

5. Skiladagsetningar framundan

28. febrúar:
 
  • Síðasti dagur umsóknarfrests vegna umsókna um endurgreiðslu á staðgreiðslu
  • Gjalddagi úrvinnslugjalds fyrir nóvember-desember 2017

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?