Faglegt efni

Punkturinn 1. tbl. 2019

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er fjallað um nýlega úrskurði yfirskattanefndar, dóm Héraðsdóms Reykjavíkur ásamt alþjóðlegum fréttum, þar á meðal um dóm Hæstaréttar Svíþjóðar og hækkun á launaþaki erlendra sérfræðinga í Hollandi. Jafnframt er Skattadagur Deloitte kynntur sem og farið yfir helstu áherslur og skattabreytingar fyrir árið 2019.

1. Skattadagurinn 2019

Þann 15. janúar fer hinn árlegi Skattadagur Deloitte fram, í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins. Að venju er búist við fjölmenni á fundinum, en 2018 hlýddu um 200 manns á áhugaverð erindi fyrirlesara. Ljóst er að Skattadagurinn hefur fest sig í sessi hjá einstaklingum og forráðamönnum fyrirtækja, sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni.

Dagskrá Skattadagsins má nálgast hér.

___________________________________________________________________________________

2. Helstu skattabreytingar fyrir árið 2019

Fjárlög fyrir árið 2019 voru lögð fram þann 11. september 2018, en á sama tíma var lagt fram lagafrumvarp sem endurspegla átti skattabreytingar í samræmi við forsendur fjárlaganna.
Helstu breytingar eru eftirfarandi:

 • Hækkun persónuafsláttar nemur 4,7% og er einu prósentustigi umfram lögbundna 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs. Persónuafsláttur einstaklinga fyrir árið 2019 er kr. 677.358, eða 56.447 kr. á mánuði. Árlegur persónuafsláttur hækkar samkvæmt því um kr. 30.619 milli áranna 2018 og 2019, eða um kr. 2.552 á mánuði.
 • Þrepamörk tekjuskatts á árinu 2019 eru uppreiknuð í réttu hlutfalli við hækkun á vísitölu neysluverðs í staðinn fyrir breytingar á launavísitölu. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við kr. 11.125.045 í árstekjur, eða kr. 927.087 á mánuði fyrir árið 2019.
 • Barnabætur hækka um 1,6 milljarða króna. Það felur í sér 16% hækkun milli áranna 2018 og 2019. Samsvarandi hækkun á vaxtabótum nemur um 13%. Auk hækkunar fjárhæða og viðmiðunarmarka skerðingar barnabóta var nýju þrepi skerðingar komið á sem ætlað er að tryggja að áhrif hækkana í barnabótakerfinu skili sér fyrst og fremst til lágtekju- og lægri millitekjuhópa.
 • Skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækkar um 0,25% og er 6,60% fyrir árið 2019
 • Krónutölugjöld eru hækkuð um 2,5% í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Hækkunin nær til vörugjalda á áfengi, tóbaki og eldsneyti ásamt bifreiða- og kílómetragjaldi. Þá er gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald einnig hækkað um 2,5%.
 • Aukatekjur ríkissjóðs hækka. Til þeirra teljast dómsmálagjöld, gjald vegna þinglýsinga svo dæmi séu tekin. Í flestum tilvikum hafa þessi gjöld ekki hækkað síðan árið 2010 og því talin brýn þörf á verðlagsuppfærslu gjaldanna.

 

____________________________________________________________________   

3. Yfirvofandi breytingar í baráttunni gegn skattundanskotum

Á árinu 2019 hafa skattyfirvöld boðað að haldið verði áfram að efla skatteftirlit með skilvirkari lagareglum sem skapa skattyfirvöldum ný tæki og meira svigrúm í baráttunni gegn skattundanskotum og skattsvikum. Þar er m.a. verið að vísa til markvissari og ítarlegri reglna um milliverðlagningu og þunna eiginfjármögnun, en einnig CFC reglna og virkari upplýsingagjafar milli landa.

Þannig hafa verið boðaðar breytingar á reglum um skattlagningu erlendra lögaðila í lágskattaríkjum (CFC-félög) og takmörkun á frádráttarbærni vaxtagjalda (e. Thin Cap) en frumvarp þess efnis var lagt fram á Alþingi þann 5. desember 2018.

CFC félög

Verði frumvarpið samþykkt mun það leiða til mun víðtækara gildissviðs þar sem fleiri félagaform falla undir skilgreininguna á CFC-félagi, skilgreiningin á tengdum aðilum verður mun víðtækari ásamt því að gert er ráð fyrir að skattlagning muni byggja á heildstæðu mati á aðstæðum hverju sinni. Þá verða ákveðnar tekjutegundir ávallt skattskyldar hjá hinum innlenda aðila nema um sé að ræða félag stofnsett innan EES, EFTA eða Færeyja, en sú undanþága verður þó háð frekari takmörkunum.

Takmörkun á frádráttarbærni vaxtagjalda

Með frumvarpinu er lagðar til tvær breytingar á reglunni um takmörkun á frádráttarbærni vaxtagjalda. Annars vegar er um að ræða orðalagsbreytingu sem er ætlað að skýra ákvæðið að því er varðar útreikning á hagnaði m.t.t. hlutdeildartekna og arðgreiðslna. Hins vegar er um að ræða breytingu á undanþágu vegna innlendra aðila sbr. b-lið 3. mgr. 57. gr. B, laga nr. 90/2003, en þessi regla tók gildi frá og með 1. janúar 2019. Hún felur í sér að undanþágan gildir ekki um innlendar samstæður sem njóta heimildar til samsköttunar eða uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 55. gr. sömu laga.

_________________________________________________________________  

4. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 197/2018 (Aðflutningsgjöld, tollar)

Kærandi flutti til landsins bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter, en um var að ræða fullbúinn húsbíl. Kærandi krafðist þess að við ákvörðun vörugjalds yrði miðað við kaupverð bifreiðarinnar án tillits til innréttingar og búnaðar. Yfirskattanefnd taldi að ákvarða bæri gjaldstofn vörugjalds í samræmi við tollverð hinnar innfluttu vöru, þ.e. það verð sem raunverulega væri greitt eða greiða bæri fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins. Þar sem tollstjóri var talinn hafa ákvarðað gjaldstofn vörugjalds bifreiðarinnar réttilega til samræmis við viðskiptaverð hennar, eins og bifreiðin var útbúin við framvísun til tollmeðferðar, var kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

 

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 196/2018 (Tvísköttunarsamningur, lífeyrisgreiðslur)

Kærandi, sem bar ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, fékk greiðslur frá tryggingafélagi í Svíþjóð sem skattlagðar voru þar í landi sem lífeyristekjur. Kærandi krafðist þess að litið yrði á tekjur þessar sem fjármagnstekjur (vaxtatekjur) og að skattur, sem lagður hefði verið á þær í Svíþjóð, yrði dreginn frá fjármagnstekjuskatti hér á landi. Yfirskattanefnd benti á að miðað við að umræddar tekjur teldust vaxtatekjur, væri skattlagningarréttur þeirra hér á landi. Krafa kæranda um skattlagningu teknanna sem vaxtatekna hefði ekki hlotið framgang fyrir stjórnsýsludómstólum í Svíþjóð. Yrði ekki brugðist við þessum aðstæðum með því að draga sænskan skatt, sem kærandi teldi ranglega álagðan, frá íslenskum skatt, enda fæli það í sér að skattlagningarréttur sem lagður væri til Íslands, miðað við að um vaxtekjur væri að ræða, yrði gefinn eftir. Kröfu kæranda var hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

 

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 193/2018 (Takmörkuð skattskylda, skattlagning hjóna)

Kærandi var búsett í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en bar takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Ríkisskattstjóri hafnaði kröfu kæranda um skattlagningu með sama hætti og einstaklingar búsettir hér á landi sbr. 70. gr. a laga nr. 90/2003, á þeim forsendum að hún hefði ekki lagt fram upplýsingar um tekjur maka síns þannig að gengið yrði úr skugga um að tekjur hjónanna frá Íslandi næmu eigi minna en 90% heildartekna þeirra.
Yfirskattanefnd taldi þann skilning ríkisskattstjóra, að í tilviki hjóna, þar sem annað hjónanna hefði tekjur frá Íslandi og uppfyllti skilyrði fyrir skattlagningu samkvæmt 1. eða 2. mgr. 70. gr. a laga nr. 90/2003, þyrfti jafnframt að liggja fyrir að hjónin gætu nýtt sér heimild 3. mgr. sömu lagagreinar til að telja sameiginlega fram hér á landi, ekki eiga sér stoð í orðalagi ákvæðisins. Úrskurður ríkisskattstjóra var felldur niður og lagt fyrir embættið að taka álagningu opinberra gjalda kæranda til nýrrar meðferðar.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

__________________________________________________________________________ 

5. Nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

Héraðsdómur Reykjavíkur í máli nr. E-4056/2017 (Arðgreiðsla á grundvelli hlutdeildaraðferðar)

Stefnandi var eignarhaldsfélag með starfsstöð í Lúxemborg, en starfssemi þess fólst einkum í eignarhaldi á hlutafé í Iceland Seafood International ehf. („ISI“). Árið 2012 samþykkti stjórn ISI arðsúthlutun til hluthafa, og var í kjölfarið veitt tímabundin undanþága frá skattskyldu á arðgreiðslur á grundvelli 10. gr. tvísköttunarsamnings á milli landanna, sem fól í sér að 5% afdráttarskattur yrði dreginn af arðgreiðslunni. Ríkisskattstjóri hafnaði hins vegar að endurgreiða fjárhæð afdráttarskatts á grundvelli þess að arðsúthlutunin hefði alfarið byggt á hlutdeild ISI í dótturfélaga þess, sbr. 74. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, en ekki væri heimilt að úthluta arði á grundvelli hagnaðar er væri tilkominn vegna beitingar hlutdeildaraðferðar í reikningsskilum.

Stefnandi fór því fram á að felldur yrði úr gildi úrskurður Ríkisskattstjóra og að afdregna staðgreiðsla tekjuskatts yrði endurgreidd, þar sem um löglega arðsúthlutun hafi verið að ræða. Héraðsdómur hafnaði kröfum stefnanda og sýknaði Ríkisskattstjóra, með þeim rökum að ekki teldist tækt að einungis bókhaldsleg færsla á hagnaðarhlutdeild félags, sem sé sjálfstæður lögaðili, geti myndað sjóði hjá öðru slíku félagi, sem sé móðurfélag þess, án þess að slík hagnaðarhlutdeild væri í reynd greidd út á milli félaganna í formi arðs.

Á árinu 2016 var gerð breyting á 41. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga um að hlutdeild í bundnum eiginfjárreikningum hjá dóttur- eða hlutdeildarfélögum skuli færa á samsvarandi bundna eiginfjárreikninga félagsins. Dómurinn er því áhugaverður fyrir þær sakir að hann taldi að líta bæri til skilyrða í ákvæðum hlutafélagalaga varðandi mat á lögmæti arðgreiðslna, en ekki til annarra laga, t.d. í lögum nr. 3/2006, um ársreikninga. Vert er þó að benda á að í hlutafélagalögum er hugtakið „frjálsir sjóðir“ ekki skilgreint. Þessi niðurstaða stangast á við fyrri túlkanir og þá framkvæmd sem tíðkaðist fram til ársins 2016 þar sem hlutdeildartekjur sem færðar voru sem óráðstafað eigið fé voru taldar frjálsir sjóðir og heimilt að úthluta arði á grundvelli þeirra. Fram til þessa hefur verið talið að bindingin og réttaráhrifin hafi ekki tekið gildi fyrr en við lagabreytinguna.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.

___________________________________________________________________________
 

6. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Svíþjóð, Hollandi og Evrópusambandinu

Svíþjóð

Nýlega dæmdi Hæstiréttur Svíþjóðar í máli varðandi skattlagningu kaupréttarsamninga. Dómstóllinn úrskurðaði gegn skattyfirvöldum og staðfesti fyrri ákvarðanir sínar, á þá leið að mismunur í skattalegri meðferð á milli innlendra og erlendra aðila bryti í bága við löggjöf Evrópusambandsins um frjálsa för fólks.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

Holland

Frá og með 1. janúar 2019 hækkar launaþak erlendra sérfræðinga sem starfa þar í landi. Vinnuveitendur í Hollandi geta sótt um flýtimeðferð á atvinnuleyfi að því gefnu að tiltekin skilyrði séu uppfyllt.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

Evrópusambandið

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í nýlegum dómi, að ákvæði er kveður á um undanþágu frá fasteignaskatti í Þýskalandi, þegar ákveðin viðskipti með fasteignir eða hluti í fasteignum eiga sér stað, feli ekki í sér ólögmæta ríkisaðstoð samkvæmt meginreglum Evrópusambandsins.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

 

_______________________________________________________________________________

7. Skiladagsetningar vegna opinberra gjalda framundan

15. janúar

 • Eindagi staðgreiðslu vegna desember 2018
 • Eindagi fjársýsluskatts vegna desember 2018

20. janúar

 • Gjalddagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. október – 31. desember 2018
 • Lokaskiladagur upplýsinga vegna framtalsgerðar 2019

31. janúar

 • Síðasti skiladagur staðgreiðslu samkvæmt 38. gr. vegna rekstrarársins 2018

 

________________________________________________________________________________

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?