Faglegt efni

Punkturinn 1. tbl. 2020

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er farið yfir innlendar fréttir, nýlega úrskurði yfirskattanefndar og þær skiladagsetningar sem framundan eru.

1. Skattadagurinn 2020

Hinn árlegi Skattadagur Deloitte, í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins verður haldinn í Silfurbergi, Hörpu, þriðjudaginn 14. janúar 2020, klukkan 8.30 - 10.00. Léttur morgunverður frá klukkan 8:00.

Í ár verður meðal annars farið yfir helstu skattalagabreytingar og möguleg áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á skatta. Dagskrá Skattadagsins má nálgast hér.

Skráning fer fram í tölvupósti á netfangið skraning@deloitte.is  eða í síma 580-3000.

2. Helstu skattabreytingar fyrir árið 2020

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

 • Umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á tekjuskatti og eru þær breytingar eru afrakstur vinnu um heildarendurskoðun tekjuskattskerfisins til lækkunar á skattbyrði.

  Grunnþrep: frá kr. 0-4.042.995 (á mánuði kr. 336.916) 35,04%

  Miðþrep: frá kr. 4.042.996 (á mánuði kr. 336.917) að kr. 11.350.472 (á mánuði kr. 945.873) 37,19%

  Háþrep: yfir kr. 11.350.472 (á mánuði kr. 945.873) 46,24%

 • Persónuafsláttur fyrir tekjuárið 2020 er nú kr. 54.628 á mánuði eða samtals 655.538 kr.
 • Skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækkar um 0,25% úr 5,15% í 4,9%. Tryggingagjald í heild lækkar úr 6,60% í 6,35%. Þetta er seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019.
 • Hækkun skerðingarmarka tekjustofns barnabóta. Hjá einstæðum foreldrum hækka þau úr 3,6 m.kr. á ársgrundvelli í 3,9 m.kr., eða úr 300 þúsund kr. á mánuði í 325 þúsund kr. Skerðingarmörk tekjustofns barnabóta hjá sambúðaraðilum hækka úr 7,2 m.kr. á ársgrundvelli í 7,8 m.kr., eða úr 600 þúsund kr. á mánuði í 650 þúsund kr.

3. Skráningu raunverulegra eigenda hefur verið flýtt – 1. mars 2020 í stað 1. júní

Ný lög nr. 82/2019 um skráningu raunverulegra eigenda tóku gildi í júlí 2019 og eru hluti af aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Lögin hafa áhrif á þá lögaðila sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá. Lögin hafa því afskaplega víðtæk áhrif og snerta stærstan hluta lögaðila á Íslandi.

Lögaðilum á Íslandi er þannig gert skylt að skrá raunverulegt eignarhald hjá fyrirtækjaskrá RSK. Með lögum nr. 143/2019 voru gerðar breytingar á lögum nr. 82/2019 og er nú skylda til að skrá upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðila hjá ríkisskattstjóra fyrr en upphaflega gert var ráð fyrir. Skrá skal upplýsingar um aðila sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá eigi síðar en 1. mars 2020 í stað 1. júní.

Allir nýskráðir lögaðilar sem falla undir skráningarskyldu skulu skrá raunverulega eigendur, en þegar skráðir lögaðilar hafa frest til 1. mars 2020 til að ganga frá slíkri skráningu. Auk þess skal tilkynna um allar breytingar á eignarhaldi eða skráðum upplýsingum innan tveggja vikna.

Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár skal veita upplýsingar um raunverulega eigendur og skulu upplýsingar m.a. ná til nafns, lögheimilis, kennitölu, ríkisfangs og eignarhluta, auk gagna sem styðja við framangreindar upplýsingar. Til raunverulegra eigenda teljast þeir einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut eða ráða meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð. Sé um dreift eignarhald að ræða og ekki hægt að tilgreina raunverulegan eiganda samkvæmt framangreindu, skal sá sem stjórnar starfsemi lögaðila teljast raunverulegur aðili.

Mörg álitaefni geta komið upp við skráningu raunverulegra eigenda, sérstaklega þegar eignarhald er flókið eða nær yfir landamæri. Þess að auki eru lögð á viðurlög við að sinna ekki skyldu til skráningar. Því er mikilvægt að vandað sé til verksins. Hjá Deloitte er til staðar þekking og reynsla til að aðstoða fyrirtæki við skráningar raunverulegra eigenda. 

Nánari upplýsingar veitir Þórdís Bjarnadóttir (tbjarnadottir@deloitte.is). 

4. Milliverðlagning - drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt

Reglum um milliverðlagningu (e. transfer pricing) er ætlað að tryggja að verðákvörðun í viðskiptum slíkra aðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila, þ.e. að verð sé í samræmi við svokallaða armslengdarreglu. Á grundvelli milliverðlagningarreglna er skattyfirvöldum heimilt að gera leiðréttingar á skattskilum tengdra aðila þegar verðlagning í viðskiptum þeirra eru frábrugðin því sem ætla mætti að hefði verið í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila.

Samkvæmt greinargerð frumvarpsins hafa lögaðilar ekki verið að sinna skjölunarskyldu sinni samkvæmt tekjuskattslögum og hefur skjölunarskyldan þar með ekki virkað sem skyldi. Skjölunarskyldir aðilar skv. 5. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga, eru þeir skattaðilar sem hafa rekstrartekjur á einu reikningsári vegna viðskipta við tengda lögaðila eða heildareignir eru í upphafi eða við lok reikningsárs yfir 1 milljarði kr.  

Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á milliverðlagningarákvæði
tekjuskattslaga í 57. gr. þeirra. Annars vegar er lagt til að skýra orðalag 1. málsl. 5. mgr. 57. gr. svo ljóst sé að skjölunarskylda aðila nái einnig til viðskipta lögaðila við fasta starfsstöð sína. Hins vegar er lögð til sú breyting á 57. gr. að ríkisskattstjóri fái sektarheimild þar sem skort hefur úrræði til að framfylgja því að skattaðili sinni skyldu sinni skv. 5. mgr. 57. gr. um skjölunarskyldu aðila.  Í
frumvarpinu er lagt til að sektir geti numið allt að 4 milljónum króna fyrir
hvert reikningsár sem skattaðili hefur látið hjá líða að fara að 5. mgr. að
öllu leyti eða að hluta, það er ef skjölun er ófullnægjandi eða henni ekki
skilað, og getur sektarálagning af þessu tilefni tekið til lengst sex tekjuára
aftur í tímann.

Sérfræðingar í Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte geta aðstoðað fyrirtæki við að auka yfirsýn yfir viðskipti milli tengdra aðila og að greina milliverðlagsgrundvöll þeirra í formi milliverðlagsskýrslna í samræmi við íslensk lög og leiðbeiningar OECD. Þá veitir Deloitte almenna ráðgjöf í tengslum við viðskipti milli tengdra aðila til að auka skilvirkni og vissu um að fyrirkomulag tengdra viðskipta sé lögum samkvæmt.

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Ingi Birgisson (hib@deloitte.is). 

5. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 194/2019 (duldar
arðgreiðslur)

Kærandi í máli þessu var eigandi alls hlutafjár í X ehf. Í málinu var deilt
um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að fara með greiðslur X ehf. vegna kaupa á
listaverkum á árunum 2013 og 2014 sem tekjur kæranda af hlutareign í félaginu
(duldar arðgreiðslur). Flest málverkin voru keypt af eiginmanni kæranda.
Yfirskattanefnd taldi verða að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að
hin keyptu myndverk hefðu verið áfram til notkunar sem slík á heimili hjónanna
þrátt fyrir eigendaskiptin. Þá þóttu skýringar kæranda um rekstrarlegan tilgang
með kaupum X ehf. á listaverkunum, sem ekki voru studdar neinum gögnum,
ósannfærandi og var bent á í því sambandi að starfsemi X ehf. hefði ekki verið
á sviði listaverkaviðskipta. Var kröfum kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 186/2019
(óvenjuleg skipti í fjármálum, söluhagnaður, málsmeðferð, álag)

Kærendur, sem stóðu að stofnun Y ehf. á árinu 2016 og voru eigendur alls
hlutafjár í félaginu, seldu félaginu hlutabréf í X ehf. á nafnverði á sama ári.
Ríkisskattstjóri leit svo á að sala hlutabréfanna til Y ehf. hefði farið fram á
verulegu undirverði og benti á að bréfin hefðu verið seld ótengdum aðila, Z
ehf., síðar á árinu 2016 á genginu 270 kr. á hlut. Leiðrétti ríkisskattstjóri
skattskil kærenda og hækkaði fjárhæð skattskylds söluhagnaðar til samræmis við mat sitt á eðlilegu gangverði hlutabréfanna á umræddum tíma, en í því sambandi miðaði ríkisskattstjóri við söluverð hlutabréfanna í viðskiptum Y ehf. og Z ehf. Yfirskattanefnd taldi gögn málsins benda eindregið til þess að stofnun Y ehf. á árinu 2016 hefði tengst með beinum hætti fyrirhugaðri sölu hlutabréfanna til Z ehf. á sama ári. Var ekki talið að neitt stæði í vegi fyrir því að byggja ákvörðun matsverðs hinna seldu hlutabréfa á upplýsingum um söluverð við söluna til Z ehf. Var m.a. bent á í því sambandi að um væri að ræða lægra verð en lagt hefði verið til grundvallar í viðskiptum annarra hluthafa X ehf. og Z ehf. í júlí 2016. Var kröfum kærenda hafnað, þar með talið kröfu þeirra um niðurfellingu 25% álags.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 185/2019 (skattskylda,
húsnæðissamvinnufélag, almenningsheill)

Kærandi í máli þessu var húsnæðissamvinnufélag. Var tilgangur kæranda að
kaupa, byggja og eiga íbúðarhúsnæði fyrir félagsmenn sína. Ekki var fallist á
með kæranda að félagið væri undanþegið tekjuskatti á grundvelli 4. tölul. 4.
gr. laga nr. 90/2003 þar sem félagið ráðstafaði hagnaði sínum einungis til
almenningsheilla og hefði það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að þótt markmið með breytingum á lagaumhverfi húsnæðissamvinnufélaga á árinu 2016 hefði m.a. verið að stuðla með almennum hætti að auknu öryggi á húsnæðismarkaði yrði ekki litið framhjá því að tilgangur húsnæðissamvinnufélaga væri eftir sem áður fyrst og fremst sá að eignast og reka íbúðarhúsnæði fyrir félagsmenn og starfa í þeirra þágu. Þá þótti sú staðreynd, að við setningu laga um almennar íbúðir nr. 52/2016 var talin ástæða til að mæla sérstaklega fyrir um undanþágu svonefndra
húsnæðissjálfseignarstofnana frá tekjuskatti, mæla gegn sjónarmiðum kæranda í málinu. Var kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér. 

6. Skiladagsetningar framundan

15. janúar

 • Eindagi staðgreiðslu launamanna, útsvars launamanna,
  tryggingagjalds launagreiðenda, fjársýsluskatts og staðgreiðslu af vaxtatekjum
  til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi og skil á skilagrein
  vegna desember 2019.

20. janúar

 • Lokaskiladagur upplýsinga vegna framtalsgerðar 2019. Frestur
  til að skila eftirfarandi gögnum til RSK vegna ársins 2019 rennur út:
  Launamiðar, hlutafjármiðar, launaframtöl, verktakamiðar,
  bifreiðahlunnindamiðar, stofnsjóðsmiðar, skýrslur um viðskipti með hlutabréf, greiðsluyfirlit yfir greiðslur til aðila með takmarkaða skattskyldu, greiðslumiðar (leiga eða afnot) og upplýsingar um hlutabréfakaup skv. kaupréttarsamningi. Upplýsingum skal skila rafrænt nema upplýsingum um hlutabréfakaup skv. kaupréttarsamningi skal skila á pappír.
 • Gjalddagi afdreginnar staðgreiðslu af fjármagnstekjum á tímabilinu október-desember 2019.

31. janúar

 • Frestur til að skila tilkynningu um hvaða félag, sem er
  hluti af alþjóðlegri félagasamstæðu, annnist skil fyrir hönd samstæðunnar á
  ríki-fyrir-ríki skýrslu. Fresturinn á við félög sem eru með reikningsár sem
  lýkur á árinu 2019.

4. febrúar

 • Eindagi afdreginnar staðgreiðslu af fjármagnstekjum á
  tímabilinu október-desember 2019.

5. febrúar

 • Eindagi vsk. og skiladagur vsk.skýrslu vegna viðskipta í
  nóvember og desember 2019 og hjá ársskilaaðilum vegna viðskipta á árinu 2019. 
 • Eindagi gistináttaskatts og skiladagur skýrslu vegna gistináttaskatts fyrir tímabilið nóvember og desember 2019.

17. febrúar

 • Eindagi staðgreiðslu launamanna, útsvars launamanna,
  tryggingagjalds launagreiðenda, fjársýsluskatts og staðgreiðslu af vaxtatekjum til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi og skil á skilagrein vegna janúar.
 • Eindagi kílómetragjalds fyrir álestrartímabilið 1.
  desember til 15. desember 2019.

28. febrúar

 • Gjalddagi úrvinnslugjalds og skilagjalds fyrir nóvember
  og desember 2019.

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte í Skatta- og lögfræðiráðgjöf eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?