Faglegt efni

Punkturinn 2. tbl. 2019

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er farið yfir innlendar fréttir, þar á meðal Skattadag Deloitte sem haldinn var í byrjun árs. Þá er farið yfir nýlegan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og nýlega úrskurði yfirskattanefndar. Þá eru sagðar skattafréttir frá Hollandi, Þýskalandi og Evrópusambandinu og farið yfir þær skiladagsetningar sem framundan eru.

1. Fréttir innanlands

Skattadagar Deloitte

Hinn árlegi Skattadagur Deloitte, í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins var haldinn að þessu sinni í Hörpu, Silfurbergi, þann 15. janúar 2019. 

Ljóst er að Skattadagurinn hefur fest sig í sessi hjá einstaklingum og forráðamönnum fyrirtækja, sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni.

Nálgast má erindi fundarins hér.

Að auki var skattadagur Deloitte haldinn í Vestmannaeyjum þann 17. janúar og Ólafsvík þann 14. febrúar síðastliðinn.

Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla

Samráð stendur yfir um frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheila til 19. mars 2019 í Samráðsgátt.

Með frumvarpinu er lagt til að félagasamtök til almannaheilla verði aðgreind frá öðrum félagasamtökum og að settar verði reglur um stofnun félagasamtaka til almannaheilla, meginefni samþykkta, félagsaðild, ákvörðunarvald, ákvörðunartöku og stjórnun slíkra félaga. Lagt er til að félagasamtök til almannaheilla verði skráð í almannaheillafélagaskrá sem ríkisskattstjóri haldi og taki við nýskráningum þeirra, breytingum á skráningu og tilkynningum um slit, auk þess að hafa heimild til afskráningar. Þá er lagt til að opinberum aðilum verði heimilt að setja það sem skilyrði fyrir veitingu styrkja, rekstrarsamninga og opinberra leyfa til almannaheillasamtaka að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá.

Í lok árs 2018 voru alls um 14.000 almenn félagasamtök skráð í fyrirtækjaskrá en ekki er ljóst hve stór hluti þeirra flokkist sem félagasamtök til almannaheilla samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins og gætu þar af leiðandi breytt skráningu sinni. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ef frumvarpið verði að lögum megi gera ráð fyrir að hvati til skráninga á breytingum aukist eftir því sem opinberir aðilar kjósa að gera skráningu í almannaheillafélagaskrá að skilyrði fyrir veitingu styrkja, rekstrarsamninga og opinberra leyfa.

Samráð stendur yfir um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum)

Frumvarp um breytingu á skattlagningu tekna af höfundaréttindum

Samráð stendur yfir um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur til 22. mars 2019 í Samráðsgátt. Með frumvarpinu er lagt til að höfundagreiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa innheimta og greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa verði skattlagðar sem eignatekjur/fjármagnstekjur.

 Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram sú stefnuyfirlýsing að hugað verði að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslensku ritmáli og fjölmiðlum og að höfundagreiðslur sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta verði skattlagðar sem eignatekjur. 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér breytingar á núgildandi ákvæði 91. gr. a. tekjuskattslaga um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil sem áætlað er að komi til framkvæmda 1. janúar 2020.

Greint er frá að upphaflega ákvæðið byggi á leiðbeiningum OECD en þann 12. maí 2016 undirritaði Ísland samkomulag á vegum OECD um skipti á svokölluðum ríki-fyrir-ríki skýrslum um starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna. Skýrslunum er ætlað að auðvelda skattyfirvöldum að fá yfirsýn yfir starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna. Í greinargerðinni kemur fram að breytingarnar muni leiða til aukins skýrleika og þannig bættra skattskila.

Áhrifavaldar

Ríkisskattstjóri birti nýverið upplýsingar um skattareglur og stafræna markaðssetningu á samfélagmiðlum og svokallaða áhrifavalda.

Upplýsingarnar má nálgast hér.

Dagpeningar ríkisstarfsmanna

Ferðakostnaðarnefnd hefur birt upplýsingar um dagpeninga til greiðslu gisti- og fæðiskostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands á vegum ríkisins með auglýsingu nr. 1/2019

Nánari umfjöllun í tilkynningu frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu má nálgast hér.

Eftirlit með sjálfseignarstofnunum og sjóðum sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá

Ríkisendurskoðun sinnir ákveðnu eftirliti með sjálfseignarstofnunum og sjóðum sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Um skilaskyldar sjálfseignarstofnanir og sjóði gilda lög nr. 19/1988. Sá sem ábyrgð ber á sjóði eða stofnun skal senda Ríkisendurskoðun ársreikning sjóðsins eða stofnunarinnar ásamt skýrslu um hvernig fé hefur verið ráðstafað eigi síðar en 30. júní ár hvert. Ekki eru viðurlög við slíkri vanrækslu eins og í tilviki sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnu, sbr. 42. gr. laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnu.

Stór hluti skilaskyldra sjálfseignarstofnana og sjóða sinnir ekki þessari skyldu og hefur Ríkisendurskoðun sent dómsmálaráðuneytinu beiðni um að það beiti sér fyrir lögfestingu sambærilegs sektarákvæðis og gildir um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnu.

Umfjöllun Ríkisendurskoðunar má nálgast hér.

2. Nýlegur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (ne bis in idem)

Ragnar Þórisson gegn íslenska ríkinu (no. 52623/14) 12. febrúar 2019

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði gerst brotlegt í máli Ragnars Þórissonar. Málið varðaði tvöfalda refsingu (ne bis in idem) í skattamáli. Með úrskurði ríkisskattstjóra 23. nóvember 2011 var tekjuskattur ákærða endurákvarðaður vegna tekjuársins 2006, auk 25% álags. Fyrir sama brot var hann dæmdur í skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða sekt með dómi Hæstaréttar nr. 416/2013. Í dóminum var vísað til þess að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði ekki verið talið að það færi í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð þótt stjórnvöld hefðu áður gert manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni væri síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sömu málsatvika. 

Mannréttindadómstóllinn taldi íslenska ríkið brotlegt fyrir að dæma Ragnar tvívegis til refsingar fyrir sama brot sem er andstætt 4. gr. 7. gr. viðauka Mannréttindasáttamála Evrópu.

Dóminn má sjá í heild sinni hér.

3. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 20/2019

Kærandi var framkvæmdastjóri X ehf. og eigandi helmings hlutafjár í félaginu á móti eiginkonu sinni. Ríkisskattstjóri færði kæranda til tekna í skattframtali árið 2016 meintar óheimilar lánveitingar frá félaginu, en kærandi hélt því fram að lánin hefðu verið veitt Y sf., sameignarfélagi í eigu kæranda, eiginkonu hans og X ehf. Í úrskurði yfirskattanefndar var talið að virða bæri óheimila lánveitingu einkahlutafélags til sameignarfélags, þar sem einn sameigenda væri hluthafi, stjórnarmaður eða starfsmaður einkahlutafélagsins, sem úthlutun verðmæta í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, enda hefðu breytingar á skattareglum á árinu 2001 falið í sér að fara bæri með lánveitingar af greindum toga á sama hátt í skattalegu tilliti og eiginlegar úthlutanir fjármuna úr einkahlutafélögum. Þar sem talið var að hinar umdeildu greiðslur X ehf. til Y sf. hefðu ekki verið heimilar að lögum sem lánveitingar til Y sf. yrði að virða greiðslurnar sem óheimila úthlutun fjármuna úr X ehf. Slíka úthlutun í formi láns bæri að lögum að telja til skattskyldra tekna hluthafa þegar hún færi fram, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003. Var ekki talið að staðist hefði að færa kæranda hinar umdeildu greiðslur til skattskyldra tekna í skattframtali hans árið 2016 þar sem talið var að greiðslur X ehf. til kæranda eða Y sf. hefðu í raun tilheyrt tekjuárunum 2012 og 2014 og því borið að færa til skattskyldra tekna í skattskilum kæranda árin 2013 og 2015. Var úrskurður ríkisskattstjóra því felldur úr gildi.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 13/2019

Kæra í máli þessu laut að endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kæranda í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum hans. Meðal breytinga ríkisskattstjóra var að færa kæranda til skattskyldra tekna greiðslur sem voru til komnar vegna sölu einkahlutafélags kæranda, X ehf., á öllu hlutafé í Y hf., en ríkisskattstjóri leit svo á að kærandi hefði ráðstafað þessum fjármunum, sem tilheyrðu X ehf., í eigin þágu. Var sú ákvörðun ríkisskattstjóra látin standa óhögguð að öðru leyti en því að tekið var tillit til greiðslna sem fallist var á að ekki hefðu farið fram í þágu kæranda og tekjufærsla lækkuð til samræmis. Þá var ekki hróflað við þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali hans árið 2008 mismun á kaup- og söluverði hlutabréfa í Y hf. sem kærandi keypti af föður sínum fyrir 40.000.000 kr. á árinu 2007 og seldi X ehf. á sama ári fyrir 60.000.000 kr. Þótti ekkert komið fram í málinu sem skýrði slíka hækkun hlutabréfanna í hendi kæranda á þeim stutta tíma sem um var að ræða.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 12/2019

Ríkisskattstjóri færði kæranda til skattskyldra atvinnurekstrartekna í skattframtölum hennar árin 2012 og 2013 greiðslur frá Landsbankanum í Lúxemborg, en ríkisskattstjóri taldi að um væri að ræða fjármuni sem tilheyrt hefðu félagi í eigu kæranda sem skráð var í Panama. Kærandi var ekki talin hafa sýnt fram á að um hefði verið að ræða endurgreiðslu fjármuna sem tilheyrt hefðu henni sjálfri en ekki hinu erlenda félagi. Þá var ekki fallist á með kæranda að tímafrestur til endurákvörðunar vegna tekjuársins 2011 hefði verið liðinn þegar álögð opinber gjöld kæranda voru endurákvörðuð, enda hefði sex ára frestur til endurákvörðunar vegna þess tekjuárs ekki verið liðinn þegar endurákvörðunarfrestur vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum var framlengdur í tíu ár með lögum nr. 112/2016. Á hinn bóginn var fallist á með kæranda að skattleggja bæri úthlutun til hennar vegna slita hins erlenda félags á árinu 2012 sem arðstekjur. Kom fram í því sambandi að við úthlutun eigna við slit erlends félags í lágskattaríki, hvers hagnaður hefði sætt skattlagningu í hendi skattaðila hér á landi eftir CFC-reglum, gæti ekki komið til skattlagningar slíkrar úthlutunar á grundvelli þeirra reglna, enda væri það meginatriði skattlagningar eftir reglunum að eigandi félags væri skattlagður af hagnaði félagsins án tillits til úthlutunar.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

4. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Hollandi, Þýskalandi og Evrópusambandinu

Hollenskur listi yfir lágskattaríki

Hollenska ríkið hefur birt lista yfir 21 lágskattaríki sem verður notaður til að takast á við barátta gegn rýrnun skattstofna og tilfærslu hagnaðar í samræmi við svokallaða BEPS aðgerðaráætlun (e. Base Erosion and Profit Shifting) sem er leitt af Efnahags- og framfarastofnuninni (e. OECD). Markmiðið er að koma böndum á möguleika alþjóðlegra stórfyrirtækja til skattasniðgöngu á grundvelli tilflutnings hagnaðar.

Hollenski listinn verður uppfærður árlega en athyglisvert er að hann er víðtækari heldur en listinn sem Evrópusambandið hefur birt (e. the EU black list of noncooperative jurisdictions).

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

Upplýsingar um BEPS aðgerðaráætlunina hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu er hægt að nálgast hér.

Fyrirhugaðar breytingar á ákvarðanatöku á sviði skattamála ESB
Þann 15. janúar 2019 tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að hafin væri umræða um breytingar á ákvarðanatöku á sviði skattamála ESB. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi verða ákvarðanir á sviði skattamála að vera teknar samhljóða. Þar af leiðandi getur eitt ríki komið í veg fyrir að reglur séu samþykktar. Framkvæmdastjórnin hefur lýst yfir áhuga á að regla um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslur verði tekin upp á afmörkuðum sviðum skattamála og hefur gefið út upplýsingar um skref sem þurfi að taka í þessa átt.

Fréttirnar má sjá í heild sinni hér og hér.

5. Skiladagsetningar framundan

15. mars 

  • Lokaskiladagur framlengds frests fyrir einstaklingsframtöl
  • Eindagi staðgreiðslu vegna febrúar
  • Eindagi fjársýsluskatts vegna febrúar

5. apríl

  • Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir tímabilið janúar-febrúar 2019
  • Gjalddagi gistináttaskatts fyrir tímabilið janúar-febrúar 2019

14. apríl

  • Lokaskiladagur atvinnumanna á einstaklingsframtölum utan rekstrar

15. apríl

  • Eindagi staðgreiðslu vegna mars
  • Eindagi fjársýsluskatts vegna mars

20. apríl

  • Gjalddagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. janúar - 31. mars 2019

23. apríl

  • Lokaskiladagur atvinnumanna á einstaklingsframtölum með rekstur

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?