Faglegt efni

Punkturinn 2. tbl. 2020

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er farið yfir innlendar fréttir, nýlega úrskurði yfirskattanefndar, fréttir frá Evrópusambandinu og þær skiladagsetningar sem framundan eru.

1. Innlendar fréttir

A. Umsóknarfrestur vegna framhaldsumsóknar R&Þ skattafrádráttar er handan við hornið

Frestur fyrir framhaldsumsóknir um skattafrádrátt vegna rannsókna- og þróunarverkefna (R&Þ) rennur út miðvikudaginn 1. apríl n.k., kl. 23:59.

Fyrirtæki sem eru eigendur rannsóknar- eða þróunarverkefna og hafa fengið verkefni staðfest geta sótt um skattafrádráttinn. Háskólar og stofnanir teljast ekki fyrirtæki í þessum skilningi. Skilyrði er að verkefni teljist rannsóknar- eða þróunarverkefni samkvæmt lögum og einnig:

 1. að hugmynd að virðisaukandi vöru/þjónustu og viðskiptaáætlun sé vel skilgreind, og
 2. að sýnt sé fram á með gögnum að varið verði a.m.k. 1 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili, og
 3. starfsmenn hafi þjálfun, menntun eða reynslu á því sviði sem hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu byggist á.

Nánari upplýsingar veitir Ragnhildur Sigurbjartsdóttir (rs@deloitte.is) hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte.

 

B. Frestur til þess að skrá raunverulegt eignarhald hjá fyrirtækjaskrá Skattsins er liðinn

Lögaðilum á Íslandi er gert skylt að skrá raunverulegt eignarhald hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Þegar skráðir lögaðilar höfðu frest til 1. mars 2020 til að ganga frá slíkri skráningu. Þetta m.a. við um félagasamtök, hlutafélög (hf.), einkahlutafélög (ehf.) og sameignafélög (sf.).

Ef ekki hefur verið tilkynnt um raunverulega eigendur þeirra aðila sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá skulu þeir hafa frumkvæði að því að bæta úr því. Ákveðin viðurlög eru við því að láta hjá líða að veita upplýsingar um raunverulega eigendur, upplýsingar eru rangar eða villandi eða ef farið er gegn reglum um varðveislu gagna.

Auk þess skal tilkynna um allar breytingar á eignarhaldi eða skráðum upplýsingum innan tveggja vikna.

Nánari upplýsingar veitir Þórdís Bjarnadóttir (tbjarnadottir@deloitte.is) hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte. 

2. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður YSKN nr. 8/2020 (vantaldar tekjur, áætlun skattstofna, tímamörk endurákvörðunar)

Ríkisskattstjóri hækkaði skattskyldar tekjur kæranda af atvinnurekstri í skattframtölum hans árin 2013-2017 sem nam fjárhæð tilgreindra innborgana á bankareikninga kæranda umrædd ár, en ríkisskattstjóri leit svo á að um væri að ræða vanframtaldar tekjur af ferðaþjónustu. Við mat sitt á vanframtöldum rekstrartekjum kæranda féllst ríkisskattstjóri á þær skýringar kæranda að hluti innborgana í reiðufé á bankareikninga væri til kominn vegna sölu fasteigna í útlöndum árin 2002 og 2004, en hafnaði því þó að taka í því sambandi tillit til innborgana sem áttu sér stað á árunum 2009-2011 þar sem kærandi þótti ekki hafa sýnt fram á að þeim fjármunum hefði ekki verið ráðstafað í eigin þágu á greindum árum. Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að með þessum ályktunum sínum hefði ríkisskattstjóri brotið gegn reglu um sex ára tímafrest til endurákvörðunar, enda hefði verið óhjákvæmilegt við mat á vantöldum tekjum kæranda að taka afstöðu til skýringa hans á uppruna fjármunanna. Var kærandií málinu ekki talinn hafa fært fram viðhlítandi rök fyrir því að mat ríkisskattstjóra á vanframtöldum rekstrartekjum hans umrædd ár væri um skör fram þar sem ekki væri tekið nægjanlegt tillit til fjármuna sem verið hefðu í eigu kæranda erlendis.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður YSKN nr. 16/2020 (söluhagnaður hlutabréfa, stofnverð, breyting á verðgildi íslenskrar krónu, tímamörk endurákvörðunar)

Ríkisskattstjóri hækkaði skattskyldan söluhagnað í skattframtali kæranda vegna sölu hennar á hlutabréfum í X hf. á árinu 2013. Taldi ríkisskattstjóri að við útreikning söluhagnaðarins í skattskilum kæranda hefði láðst að taka tillit til breytingar á verðgildi íslenskrar krónu í upphafi árs 1981. Í úrskurði yfirskattanefndar var talið leiða af ákvæðum laga nr. 35/1979, um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils, að við ákvörðun skattskylds söluhagnaðar eigna, sem seljandi hefði aflað fyrir 1. janúar 1981 en selt eftir þann tíma, væri nauðsynlegt að breyta fjárhæð kaupverðs úr gömlum krónum í nýkrónur. Var bent á að þetta hefði verið rækilega tíundað í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um árabil og kæranda, sem notið hefði aðstoðar sérkunnáttumanna við framtalsgerð sína umrætt ár, því naumast getað dulist þetta. Var kröfum kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

3. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Evrópusambandinu

Evrópusambandið uppfærir lista yfir ósamvinnuþýð lögsagnarumdæmi

Evrópusambandið tilkynnti nýverið ákvörðun sína um að bæta Panama, Seychelles-eyjum, Cayman- eyjum og Palau á lista yfir ósamvinnuþýð lögsagnarumdæmi (e. the EU black list of noncooperative jurisdictions). Ríkin höfðu skuldbundið sig til þess að  mæta kröfum ESB hvað varðar upplýsingagjöf í skattamálum en hafa ekki uppfyllt skilyrðin fyrir umsaminn frest.

Listinn er yfir ósamvinnuþýð ríki sem skora lágt í mælingum ESB á gagnsæi í skattlagningu, sanngjarnri skattlagningu og hvort skattkerfið hvetji alþjóðleg fyrirtæki til þess að færa tekjur sínar til lágskattaríkja. Við mat á hvort að skattkerfi ríkisins alþjóðleg fyrirtæki til að færa tekjur sínar til lágskattaríkja er tekið mið af innleiðingu ríkisins á BEPS aðgerðaráætluninni (e. Base Erosion and Profit Shifting) sem er leitt af Efnahags- og framfarastofnuninni (e. OECD). Markmiðið með aðgerðaráætluninni er að koma böndum á möguleika alþjóðlegra stórfyrirtækja til skattasniðgöngu á grundvelli tilflutnings hagnaðar.

Önnur ríki á listanum eru: Fiji-eyjar, Suðurhafseyjan Guam, Marshall-eyjar, Oman, og Ameríska Samóa, Trínidad og Tóbagó, , Bandarísku Jómfríareyjarnar og Vanuatu.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

4. Skiladagsetningar framundan

13. mars

 • Lokaskiladagur framlengds frests fyrir einstaklingsframtöl

16. mars

 • Eindagi fjársýsluskatts vegna febrúar
 • Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna febrúar
 • Greiðslufrestur í tolli, 2 mánuðir
 • Takmörkuð skattskylda
 • Virðisaukaskattur, skemmri skil

31. mars

 • Eindagi skoðunargjalds vinnueftirlits
 • Fyrirframgreiðsla þinggjalda lögaðila 2/8

1.apríl

 • Lokaskiladagur skilalista vegna framtalsskila lögaðila 2020

6. apríl

 • Gjalddagi gistináttaskatts fyrir tímabilið janúar-febrúar 2020
 • Gjalddagi skatts af heitu vatni fyrir tímabilið janúar-febrúar 2020
 • Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir janúar-febrúar 2020
 • Virðisaukaskattur, eins mánaðar skil

15. apríl

 • Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna mars

20. apríl

 • Gjalddagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. janúar - 31. mars 2020

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte í Skatta- og lögfræðiráðgjöf eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?