Faglegt efni

Punkturinn 3. tbl. 2018

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er fjallað um nýlega úrskurði yfirskattanefndar ásamt alþjóðlegum fréttum, þar á meðal um tvísköttunarsamninga milli annars vegar Lúxemborg og Frakklands og hins vegar Kýpur og Bretlands. Jafnframt verður fjallað stuttlega um nýjar leiðbeiningar í samkeppnisrétti sem kynntar voru nýlega og bera heitið Hollráð um heilbrigða samkeppni.

1. Hollráð um heilbrigða samkeppni

Viðskiptavinum Deloitte er bent á að starfshópur um leiðbeiningar í samkeppnisrétti hefur nýlega gefið út leiðbeiningar til fyrirtækja um samkeppnisrétt. Er um að ræða fyrstu útgáfu af þessari tegund sem kynnt er undir heitinu Hollráð um heilbrigða samkeppni – Leiðbeiningar til fyrirtækja.

Markmiðið með útgáfunni er að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækja að kynna sér þær reglur sem gilda um fyrirtæki og varða samkeppni. Þannig er um að ræða gagnlegt tól í skipulagðri og einfaldri uppsetningu, sem flest fyrirtæki geta nýtt sér til þess að aðstoða við greiningu á því hvort grípa þurfi til einhverra ráðstafana í rekstrinum tengt samkeppnismálum. Útgefendur leiðbeininga í samkeppnisrétti eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Lögmannafélag Íslands.

Ritið má sjá í heild sinni hér.

___________________________________________________________________________________

2. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 63/2018

Deilt var um hvort kæranda, sem var hlutafélag, bæri að greiða virðisaukaskatt vegna kaupa á þjónustu af erlendum aðilum á árinu 2014, þar sem þjónustan hefði verið notuð að hluta eða öllu leyti hér á landi, eins og ríkisskattstjóri taldi. Kærandi hélt því fram að þjónusta erlendra aðila hefði falist í að leita fjárfestingarkosta erlendis og félli því ekki undir eiginlega bankastarfsemi í skilningi 10. tl. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Í úrskurðinum er gerð grein fyrir túlkun yfirskattanefndar á ákvæðinu og talið að ákvæðið tæki ekki til annarrar ráðgjafarþjónustu fjármálastofnana en sem stæði í tengslum við ávöxtun eigna, lánveitingar eða aðra hliðstæða bankaþjónustu. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags á virðisaukaskatti var hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

 

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 60/2018

Deilt var um hvort kærandi gæti fært til innskatts virðisaukaskatt af aðkeyptri lögmannsþjónustu í tengslum við kaup jarðar. Yfirskattanefnd benti á að viðskipti með fasteignir væru ekki virðisaukaskattsskyld svo og væri fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti. Var kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

 

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 50/2018

Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda, sem var einkahlutafélag, um frestun á skattlagningu söluhagnaðar vegna sölu fasteignar um tvenn áramót þar sem ríkisskattstjóri taldi að greind fasteign gæti ekki talist fyrnanleg eign þar sem að ársreikningar báru með sér að fasteignarinnar hefði verið aflað með sölu í huga en ekki til að nota í rekstri. Þótti varhugavert að láta það atriði ráða úrslitum í málinu, m.a. þar sem skattskil kæranda báru ekki með sér að félagið væri í byggingu og sölu fasteigna. Ekki var hægt að vefengja að bygging fasteignarinnar hefði verið gerð með það fyrir augum að nýta fasteignina til öflunar tekna í rekstri kæranda. Var krafa kæranda tekin til greina.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

 

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 46/2018

A, sem hafði með höndum daglega stjórn X ehf. varð gerð sekt fyrir að hafa á saknæman hátt vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti vegna starfsemi X ehf. B, sem skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður, var gerð sama sekt vegna sömu brota. C, sem skráður var sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi hluta af tímabilinu, var ekki gerð sekt í málinu, þar sem talið var ósannað að hann hefði uppfyllt þær auknu gáleysiskröfur sem skattalög gerðu vegna refsiverðra brota gegn lögunum.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

____________________________________________________________________   

3. Nýlegur dómur Hæstaréttar

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 418/2017

X krafðist þess aðallega að felldur yrði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra frá árinu 2016 um skattalega heimilisfesti hans og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi á árunum 2006 til 2010. Lá fyrir í málinu að X hafði tilkynnt Þjóðskrá um flutning lögheimilis til Máritaníu í september 2005. Í héraðsdómi var kröfunni hafnað og ekki talið að hann hefði haft fasta búsetu þar Hvorki vottorð sem hefði verið aflað frá þarlendum yfirvöldum né tímalengd sem X dvaldi utan Íslands breytti neinu um skattalegt heimilisfesti á Íslandi. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

Dóminn má sjá í heild sinni hér.
 

_________________________________________________________________  

4. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Lúxemborg, Frakklandi, Svíþjóð, Kýpur og Bretlandi

Lúxemborg – Frakkland

Þann 20. mars síðastliðinn undirrituðu stjórnvöld Lúxemborgar og Frakklands nýjan tvísköttunarsamning. Nýja samningnum er einkum ætlað að nútímavæða gildandi samning, sem er 60 ára gamall. Nýi samningurinn felur í sér ákvæði sem endurspegla nýjustu alþjóðlegu staðla í 2017 útgáfu af OECD tvísköttunarmódelinu, sem og tilmæli samkvæmt BEPS.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

Svíþjóð

Þann 21. mars síðastliðinn lagði sænska ríkisstjórnin fram endurskoðaða tillögu, sem hefur það hlutverk að takmarka frádráttarbærni vaxtagjalda hjá fyrirtækjum við 30% af EBITDA og lækka tekjuskattsskatthlutfall fyrirtækja í tveimur skrefum, úr 22% í 21,4% árið 2019, og í 20,6% árið 2021.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

Kýpur – Bretland

Þann 22. mars síðastliðinn undirrituðu Kýpur og Bretland nýjan tvísköttunarsamning. Hinn nýi samningur er byggður á 2017 útgáfunni af OECD tvísköttunarmódelinu og inniheldur að auki sum ákvæði BEPS. Gert er ráð fyrir að samningurinn muni auka efnahagslegt samstarf milli ríkjanna.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

__________________________________________________________________________ 

5. Skiladagsetningar framundan

7. maí

  • Eindagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. janúar – 31. mars 2018

15. maí

  • Eindagi staðgreiðslu vegna apríl.
  • Eindagi fjársýsluskatts vegna apríl.

31. maí

  • Álagning einstaklinga.
  • Frestur til að skila skattframtölum stærri lögaðila rennur út.


 

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?