Faglegt efni

Punkturinn 3. tbl. 2019

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er farið yfir innlendar fréttir, þar á meðal breytingar á lögum um bindandi álit í skattamálum og lækkun bankaskatts. Þá er farið yfir nýlegan dóm Landsréttar og nýlega úrskurði yfirskattanefndar. Þá eru sagðar skattafréttir frá Bretlandi og farið yfir þær skiladagsetningar sem framundan eru.

1. Fréttir innanlands

Um skoðunarmenn félaga

Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra vakti nýlega athygli á að félög, sem ekki er skylt að kjósa endurskoðanda samkvæmt lögunum eða samþykktum sínum, skuli samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga kjósa endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmann ársreikninga á aðalfundi eða almennum fundi félagsins.

Samkvæmt 2. mgr. 97. gr. skulu skoðunarmenn vera lögráða og fjár síns ráðandi. Eðli máls samkvæmt getur sú skilgreining eingöngu átt við um einstaklinga. Ef félög vilja tilkynna um lögaðila sem skoðunarmenn, þarf að tilkynna endurskoðunarfyrirtæki en ekki bókhaldsfyrirtæki.

Fyrirtækjaskrá hefur ákveðið að frá 1. júní 2019 verði eingöngu skráðir endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki og skoðunarmenn, en ekki aðrir lögaðilar s.s. bókhaldsstofur, sem endurskoðendur/skoðunarmenn. Jafnframt beinir fyrirtækjaskrá því til félaga að þau lagfæri skráningar þar sem þess er þörf.

Sjá nánar hér.

Breyting á lögum um bindandi álit í skattamálum

Breytingar á lögum nr. 91/1998 um bindandi álit í skattamálum hafa verið samþykktar. Breytingarnar fela í sér tímabundinn gildistíma útgefinna álita og verðlagshækkun á gjaldi sem greiða þarf fyrir gerð slíkra álita. Að auki eru lagðar til nokkrar lagfæringar sem tengjast breytingu á skattkerfinu árið 2009 þegar landið var gert að einu skattumdæmi. 

Gildistími útgefinna bindandi álita er nú fimm ár en fyrir breytingarnar var gengið út frá því að bindandi álit sem ríkisskattstjóri gefur út væru almennt ótímabundin. Í frumvarpinu kemur fram að það sé  óheppilegt ef langur tími líður frá því að óskað er eftir bindandi áliti þar til verður af skattalegum ráðstöfunum sem felast í álitinu. Breytingar á forsendum geta átt sér stað án þess að upp komi þau tilvik sem talin eru upp í lögunum. Kemur þessi takmörkun til viðbótar við þær takmarkanir sem er að finna í lögunum en þar er gert ráð fyrir því að álit sé ekki bindandi fyrir skattyfirvöld hafi málsatvik sem álitið byggist á breyst. Sama gildir ef lögum hefur verið breytt áður en ráðstöfun er gerð. Sú lagabreyting tekur til atriða sem álitið byggist á. Hins vegar geta forsendur breyst að öðru leyti, svo sem með dómaframkvæmd.

Grunngjald fyrir bindandi álit hefur verið hækkað úr 75.000 kr. í 150.000 kr.

Skattalegt umhverfi þriðja geirans styrkt

Starfshópur hefur verið skipaður til að fara yfir skattalegt umhverfi starfsemi sem fellur undir þriðja geirann, þ.e. starfsemi sem fellur hvorki undir einkageirann né opinbera geirann, s.s. starfsemi íþróttafélaga, björgunarsveita, góðgerðarfélaga og mannúðarsamtaka, með það að markmiði að styrkja skattalegt umhverfi hans. Starfshópnum er ætlað að leggja fram tillögur að breytingum og leitast við að auka samræmi í lögum og reglum við sambærilega starfsemi í nágrannaríkjum okkar, þar sem það er til bóta. Að auki aðhorft til þess að enn frekar verði hvatt til þess að einstaklingar og lögaðilar leggi starfsemi þriðja geirans lið.

Sjá nánar hér.

Lækkun bankaskatts

Fjármála- og efnahagsráðherra lagði nýverið fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, með síðari breytingum. 

Með frumvarpinu er lagt til að gjaldhlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki, sem í daglegu tali er kallaður bankaskattur, lækki í fjórum jöfnum áföngum á árunum 2020–2023, þ.e. úr 0,376%, sem er gildandi hlutfall, í 0,145% frá og með árinu 2023. 

Frumvarpið er aðgengilegt hér.

2. Nýlegur dómur Landsréttar

Mál nr. 548/2019 (ákvörðun hluthafafundar, slit og arðgreiðslur)

Í desember árið 2008 tók helmingur hluthafa í F ehf. ákvörðun um slit félagsins og arðgreiðslur á aukahluthafafundi. Í dómi héraðsdóms kom fram að þótt rætt hafi verið um greiðslurnar sem arðgreiðslur til hluthafa væri ljóst að efnislega hafi verið um að ræða  greiðslur  vegna  slita  einkahlutafélags  og  uppgjör  á  þeim  grundvelli.  Taldi dómurinn að skilyrði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og samþykkta F ehf. hafi brostið til að taka ákvörðun um slit félagsins á umræddum fundi. Þá taldi dómurinn að  án  tillits  til  þess  hvort  litið  yrði  á  greiðslu  F  ehf.  til  K  sem  úthlutun  eigna einkahlutafélags við slit eða arðgreiðslu hafi verulega skort á að gætt hafi verið þeirra reglna  sem  um  slíkar  ákvarðanir  gilda.  Var  ráðstöfun  K,  sem  var  þáverandi framkvæmdastjóri F ehf., því talin bersýnilega andstæð þeim reglum sem gilda um slit einkahlutafélaga og úthlutun eigna félags við slit. Með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um að K yrði gert að endurgreiða félaginu upphæð sem nam arðgreiðslu til hans.

Sjá nánar hér.

3. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 69/2019 (Lækkun hlutafjár, arðstekjur, bindandi álit)

A ehf. var eigandi alls hlutafjár í kýpversku félagi, Z Ltd. Af hálfu A ehf. var fyrirhugað að lækka hlutafé félagsins með greiðslu til eina hluthafa félagsins, sem var norskt félag, í formi allra hluta A ehf. í Z Ltd. Ríkisskattstjóri lét í té bindandi álit á skattalegum áhrifum þessara ráðstafana og taldi að líta bæri á afhendingu hlutanna sem sölu þannig að ákvarða bæri A ehf. skattskyldan söluhagnað. Yfirskattanefnd rakti reglur einkahlutafélagalaga um lækkun hlutafjár og tók fram að ekki hefði verið talið skipta máli þótt hluthafar fengju lækkunarfé að nokkru eða öllu leyti greitt í öðrum verðmætum en peningum. Þá var bent á að skattalög mæltu fyrir um skattlagningu hluthafa af greiðslum til þeirra vegna félagsslita og lækkunar hlutafjár, að uppfylltum nánari skilyrðum, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Var bindandi áliti ríkisskattstjóra breytt þannig að fallist var á að ekki bæri að líta á greiðslu A ehf. til hins norska móðurfélags vegna hlutafjárlækkunarinnar sem sölu í skattalegu tilliti sem hefði í för með sér skattlagningu söluhagnaðar í hendi A ehf.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 67/2019 (Skattfrjáls samruni hlutafélaga, bindandi álit)

Í úrskurði yfirskattanefndar í máli þessu vegna bindandi álits ríkisskattstjóra kom fram að það væri fortakslaust skilyrði skattfrjáls samruna hlutafélaga samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 að hluthafar í yfirteknu félagi, sem slitið væri við samruna, fengju eingöngu hlutabréf í yfirtökufélaginu sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í félaginu sem slitið væri. Var fallist á með ríkisskattstjóra að gagngjaldsskilyrði ákvæðisins væri ekki uppfyllt í tilviki fyrirhugaðs samruna fjögurra einkahlutafélaga þar sem ráðgert var að skipta á hlutabréfum fyrir eignarhlut í sameignarfélagi, enda þóttu ekki efni til annars en að túlka lagaákvæðið til samræmis við orðalag þess að þessu leyti.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 61/2019 (Duldar arðgreiðslur, lánveiting ehf. til tengds aðila)

Kærandi var framkvæmdastjóri X ehf., en hlutafé félagsins var í eigu sonar kæranda. Í málinu var deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til skattskyldra launatekna meintar óheimilar lánveitingar frá X ehf. á árunum 2014 og 2015. Ekki var fallist á með kæranda að hann hefði ekki verið starfsmaður X ehf. í skilningi 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Var bent á í því sambandi að framkvæmdastjórar einkahlutafélaga teldust vera ráðnir til þeirra starfa sinna. Þá bæri eftir beinu orðalagi umrædds ákvæðis að skattleggja óheimila lánveitingu einkahlutafélags til starfsmanns félagsins sem launatekjur hans þótt starfsmaðurinn væri ekki hluthafi í hlutaðeigandi félagi. Var kröfum kæranda því hafnað, þar með talið kröfu hans um niðurfellingu 25% álags.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 57/2019 (Duldar arðgreiðslur, lánveiting ehf. til tengds aðila)

Ríkisskattstjóri færði kæranda til skattskyldra tekna meintar óheimilar lánveitingar frá X ehf., en kærandi var dóttir eiganda alls hlutafjár í félaginu. Vísaði ríkisskattstjóri í því efni til 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að samkvæmt ákvæðinu bæri að færa kæranda greiðslurnar til tekna sem skattskyldar gjafir. Yfirskattanefnd taldi að skilja yrði ákvæði 1. og 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna heildstætt og með hliðsjón af 1. mgr. sömu lagagreinar. Var talið ljóst að sú niðurstaða, að skattleggja umræddar greiðslur X ehf. sem óheimila úthlutun verðmæta úr félaginu til kæranda er skattleggja bæri sem gjafir, gæti engan veginn átt við í tilviki kæranda, enda hefði kærandi ekki verið hluthafi í X ehf. Var úrskurður ríkisskattstjóra því felldur úr gildi.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

4. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Bretlandi

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti nýverið niðurstöður ítarlegrar rannsóknar á ríkisaðstoð (e. state aid). Talið er að ákveðnar reglur í Bretlandi feli í sér ólöglega ríkisaðstoð.

Um er að ræða CFC reglur sem varða fjölþjóðleg fyrirtæki (e. the group financing exemption) sem voru í gildi á árunum 2013 – 2018 þar sem fyrirtækjunum var veitt undanþága frá skattlagningu tiltekinna tekna. Framkvæmdastjórnin taldi undanþáguna miða að undanskoti frá skattlagningu (e. tax avoidance) sem er ólöglegt samkvæmt reglum Evrópusambandsins um ríkisaðstoð.

Bretland verður að gera ráðstafanir til að endurheimta greiðslurnar frá fjölþjóðlegu fyrirtækjum sem hafa notið góðs af ólöglegri ríkisaðstoð á þessum tíma.

Sjá nánari umfjöllun hér.

5. Skiladagsetningar framundan

6. maí.

  • Eindagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. janúar - 31. mars 2019

15. maí

  • Eindagi staðgreiðslu vegna apríl
  • Eindagi fjársýsluskatts vegna apríl

31. maí

  • Lokaskiladagur lögaðilaframtala
  • Lokaskiladagur skattframtala stórra lögaðila
  • Lokaskiladagur umsókna um lækkun á fyrirframgreiðslu lögaðila

5. júní

  • Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir mars - apríl 2019
  • Gjalddagi gistináttaskatts fyrir mars - apríl 2019

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?