Faglegt efni

Punkturinn 4. tbl. 2018

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er fjallað um nýlega úrskurði yfirskattanefndar ásamt alþjóðlegum fréttum, þar á meðal nýlega tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um heildarendurskoðun á virðisaukaskattskerfinu. Þá tóku ný persónuverndarlög gildi þann 13. júní síðastliðinn, en með gildistöku laganna eru réttindi einstaklinga aukin til muna, hvað varðar vinnslu og aðgangs að persónuupplýsingum sínum.

1. Ný persónuverndarlög taka gildi

Alþingi samþykkti þann 13. júní frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Með frumvarpinu er lagt til að ný reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga verði innleidd í íslenskan rétt. Reglugerðin felur í sér umfangsmiklar breytingar á sviði persónuverndar. Samþykkt frumvarpsins felur í sér breytt og aukið hlutverk innlendra eftirlitsyfirvalda (Persónuverndar), ásamt nýjum öryggisvottunum og heimild til sektargreiðslna fyrir þau fyrirtæki sem fylgja ekki nýjum persónuverndarlögum. Þá eru réttindi einstaklinga til vinnslu og meðhöndlun þeirra persónuupplýsinga styrkt til muna.


Ítarlegri umfjöllun um ný persónuverndarlög má finna hér.

___________________________________________________________________________________

2. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 84/2018

Ríkisskattstjóri færði kæranda, framkvæmdastjóra X ehf., til tekna meintar óheimilar lánveitingar frá félaginu á árinu 2011-2014, en kærandi hélt því fram að greiðslurnar væru endurgreiðsla á láni kæranda til systurfélags sem hefði framselt kæranda kröfu sem félagið átti á hendur X ehf. Yfirskattanefnd tók fram að um tvo sjálfstæða lögaðila væri að ræða og taldi skýringar kæranda ekki standast.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 77/2018

Kærandi óskaði eftir ívilnun í sköttum vegna ábyrgðar á námsláni fyrrverandi maka sem féll frá á árinu 2016. Ekki var fallist á með ríkisskattstjóra að sú staðreynd, að lánið var tekið á meðan kærandi og fyrrverandi maki voru í hjúskap, gæti haft í för með sér að líta yrði svo á að um sameiginlega skuldbindingu þeirra væri að ræða þannig að girt væri fyrir ívilnun vegna skuldataps af þeim sökum. Var bent á að hjón bæru almennt ekki ábyrgð á fjárskuldbindingum hvors annars og var úrskurður ríkisskattstjóra felldur úr gildi og kæra kæranda vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 75/2018

Deilt var um hvort kærendum, sem seldu bújörð ásamt hlunnindum, væri heimilt að færa hagnað af sölunni til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis. Þar sem talið var að lagaskilyrðum um að seljandi hefði haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum næst á undan söludegi, væri ekki uppfyllt í tilviki kærenda, var kröfu þeirra hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

 

____________________________________________________________________   

3. Nýlegur úrskurður Landsréttar

Úrskurður Landsréttar 15. maí 2018 (227/2018) – Ne bis in idem

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á skattskilum X sem síðar leiddi til endurákvörðunar álagðra gjalda ríkisskattstjóra. Sama ár höfðaði embætti sérstaks saksóknara mál gegn X fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7 samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu skal engin sæta lögsökn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi. Landsréttur féllst á það í ljósi heildarmats að skilyrðum um nauðsynlega samþættingu í tíma hafi ekki verið fullnægt við rekstur mála hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi hins vegar. Samkvæmt því hafi með rekstri málanna verið brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

_________________________________________________________________  

4. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Danmörku, Frakklandi og Evrópusambandinu

Danmörk

Í frumvarpi sem lagt var fyrir danska þingið þann 2. maí 2018 var lögð til breyting á reglum um þunna eiginfjármögnun (thin capitalization) þannig að hún samræmist nýlegri ákvörðun Evrópudómstólsins.

Fréttina má sjá í heild sinni hér

Frakkland

Dómstólar í Frakklandi hafa í tveimur nýlegum málum skýrt þær viðmiðanir sem þurfa að vera til staðar svo um fasta starfsstöð erlendra fyrirtækja sé að ræða.

Fréttina má sjá í heild sinni hér

Evrópusambandið

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út tillögu sem inniheldur ítarlegar tæknilegar breytingar á VSK tilskipun. Endurskoðun á kerfinu er ætlað að koma í veg fyrir undanskot milli landamæra sem og nútímavæða virðisaukaskattskerfið í heild sinni.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

__________________________________________________________________________ 

5. Skiladagsetningar framundan

3. júlí

  • Gjalddagi áfengisgjalds vegna júní 2018

16. júlí 

  • Eindagi staðgreiðslu vegna júní
  • Eindagi fjársýsluskatts vegna júní

20. júlí

  • Gjalddagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. apríl - 30. júní 2018. 


 

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?