Faglegt efni

Punkturinn 4. tbl. 2019

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er farið yfir innlendar fréttir, nýlega dóma Hæstaréttar og nýlega úrskurði yfirskattanefndar. Þá eru sagðar skattafréttir frá Evrópusambandinu og farið yfir þær skiladagsetningar sem framundan eru.

1. Innlendar fréttir

Heimild til að nýta séreignarsparnað framlengd

Almenn heimild til að nýta séreignarsparnað vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða til ráðstöfunar upp í höfuðstól láns sem tekið var vegna kaupanna sem í gildi var til og með 30. júní 2019 hefur með lögum nr. 60/2019 verið framlengd til og með 30. júní 2021.

Áform um frumvarp til laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda

Áform um að leiða í lög heildstæða löggjöf um innheimtu opinberra skatta og gjalda er til samráðs í Samráðsgátt.

Helsta markmiðið með áformum um setningu innheimtulaga verður að tryggja sem best réttaröryggi manna og aðila í skiptum við hið opinbera þegar kemur að innheimtu opinberra gjalda og skatta og leiða meginreglur um innheimtu skatta og gjalda af hálfu innheimtumanna ríkissjóðs í lög.

2. Nýlegir dómar Hæstaréttar

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 4/2019 28. maí 2019 (hlutafélag, hlutabréf, forkaupsréttur, sératkvæði)

Ágreiningur í málinu laut að því hvort S ses. hefði á grundvelli forkaupsréttar í R hf. leyst til sín hluti í félaginu sem M ehf. keypti af SÍS. Með tölvupósti til R hf. var tilkynnt í þágu SÍS um kaup M ehf. á hlutum SÍS í félaginu og þess farið á leit að hluthöfum R hf. yrði kynnt kaupin vegna forkaupsréttar þeirra. Degi síðar sendi R hf. tilkynningu um viðskiptin til S ses. Staðfesti S ses. í tölvupósti til R hf. að hann hefði ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn að hlutunum. Greindi aðila á um hvort frestur til að ganga inn í kaupin hefði verið liðinn þegar S ses. lýsti því yfir. Talið var að samkvæmt fortakslausu ákvæði b. liðar 1. mgr. 22. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög hefði frestur vegna forkaupsréttarins byrjað að líða þegar tölvupóstur SÍS um kaupin barst R hf. Frestur S ses. til að neyta forkaupsréttar hefði því verið liðinn þegar hann sendi tilkynningu sína þess efnis til félagsins en telja bæri dagafjölda miðað við þá stund dags sem talið væri frá þegar hún lægi fyrir. Var því tekin til greina krafa M ehf. um viðurkenningu á því að hann væri réttur eigandi hlutanna.

Dóminn má sjá í heild sinni hér.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 33/2018 21. maí 2019 (einkahlutafélag, hluthafasamkomulag, vanefnd, riftun)

Áfrýjendurnir ÁV,NV og SV eldri og stefndi SV yngri, sem til samans áttu helming hluta í V ehf., gerðu hluthafasamkomulag 1. mars 2010. Í maí 2014 framseldi SV eldri alla hluti sína í V ehf. til N Ltd. og í desember sama ár voru sömu hlutir framseldir til D Ltd. Fyrrnefnda félagið var að mestu í eigu hans en það síðarnefnda að öllu leyti. Í ágúst 2016 lýsti SV yngri yfir riftun á hluthafasamkomulaginu á þeim grundvelli að það hefði verið vanefnt í svo verulegum atriðum að riftun væri heimil, auk þess sem forsendur fyrir því væru brostnar og einstök ákvæði þess ógildanleg. Í málinu kröfðust ÁV,NV, SV eldri og D Ltd. þess að riftunin yrði ógilt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að framangreindar ráðstafanir SV eldri á hlutum hans í V ehf. hafi verið heimilar á grundvelli hlutahafasamkomulags allra hluthafa í félaginu frá árinu 2008, eins og því var síðar breytt, og samþykktum þess frá maí 2014. Á hinn bóginn yrði að gæta að því að í hluthafasamkomulaginu frá 1. mars 2010 hefðu verið settar skorður við frelsi aðila þess til að framselja hluti sína í V ehf. Þannig hafi ekkert þeirra mátt ráðstafa hlutum sínum í félaginu án samþykkis allra hinna auk þess sem nýr hluthafi þyrfti að gangast undir samkomulagið. Hvorki N Ltd. né D Ltd. hefðu gengist undir umrætt hluthafasamkomulag auk þess sem engin efni voru til að telja að SV yngri hefði í verki samþykktframsal hlutanna til D Ltd. Þegar af þessum ástæðum var lagt til grundvallar að gagnvart SV yngri hefði SV eldri vanefnt skyldur sínar samkvæmt hluthafasamkomulaginu. Við mat á vægi þessara vanefnda var litið til þess að umræddir hlutir hefðu svarað til 34,5% allra hluta í V ehf. og hefði því eigandi þeirra farið með 69% atkvæða um ákvarðanir sem samkomulagið hefði náð til. Á grundvelli þessara hluta hefði þannig eigandi þeirra upp á sitt eindæmi getað ráðið á vettvangi V ehf. gerðum allra aðila hluthafasamkomulagsins. Hafi SV yngri haft verulega hagsmuni af því hver færi með þetta forræði yfir hlutum hans í V ehf., en enga tryggingu hafi hann haft fyrir því að D Ltd. kæmist ekki í eigu annars en SV eldri. Þegar af þessum ástæðum var talið að vanefndir SV eldri hefðu verið verulegar og riftun SV yngri þar af leiðandi heimil. Var hann því sýknaður af kröfu ÁV, NV, SV eldri og D Ltd.

Dóminn má sjá í heild sinni hér.

3. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 106/2019 (bindandi álit, samruni hlutafélaga)

Innan félagasamstæðu A ehf., sem var eigandi alls hlutafjár í allnokkrum félögum, þar með talið B ehf., var ráðgert að færa eignarhald að nokkrum dótturfélögum undir B ehf. Var fyrirhugað að hækka hlutafé B ehf. með útgáfu nýrra hluta sem A ehf. myndi greiða fyrir með afhendingu hlutafjárins í dótturfélögunum. Að svo búnu var fyrirhugað að sameina og skipta nokkrum af félögunum og var óskað bindandi álits ríkisskattstjóra á því hvort skilyrði skattfrjáls samruna og skiptingar yrðu uppfyllt í þeim tilvikum. Yfirskattanefnd taldi ekki verða litið framhjá því að um ráðstafanir innan félagasamstæðu væri að ræða sem ekki yrði séð að hefðu í för með sér neinar breytingar á raunverulegu eignarhaldi hlutaðeigandi félaga. Voru aðstæður að því leyti taldar frábrugðnar atvikum í dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefði á skilyrði skattfrelsis við samruna. Með vísan til þess og þegar litið var til þess tilgangs sem byggi að baki gagngjaldsskilyrði skattalaga og að öðru leyti höfð í huga markmið viðeigandi lagaákvæða þótti ekki varhugavert að telja að umrætt skilyrði teldist uppfyllt í tilviki fyrirhugaðra samruna og skiptingar félaga innan félagasamstæðu A ehf. Var bindandi áliti ríkisskattstjóra breytt til samræmis við þá niðurstöðu.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 100/2019 (frádráttur kostnaðar við nýsköpunarverkefni, einkleyfi, samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið)

Deilt var um frádrátt útlagðs kostnaðar við rannsóknar- eða þróunarverkefni í skattskilum einkahlutafélags, sbr. lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Nánar tiltekið var ágreiningur um hvort kostnaður félagsins af öflun einkaleyfis teldist til frádráttarbærs rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Yfirskattanefnd benti á að í tilviki kæranda væri ekki um að ræða kostnað vegna kaupa á einkaleyfi eða rétti til hagnýtingar einkaleyfis annars aðila til nota við þróunarverkefni félagsins heldur kostnað sem fyrst og fremst væri ætlað að tryggja einkarétt kæranda til að hagnýta í rekstri sínum þá uppfinningu sem þróunarverkefni félagsins laut að. Var fallist á með ríkisskattstjóra að útgjöld af slíkum toga, sem frekast þættu varða framtíðartekjuöflun af einkaleyfisverndaðri uppfinningu kæranda, gæti ekki talist til kostnaðar sem stofnað væri til beint vegna þróunarverkefnisins. Þá var samræmisskýring við alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið talin ganga gegn skilningi kæranda í málinu. Var kröfum kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 95/2019 (bindandi álit, blandaðir fjármálagerningar, rekstrarkostnaður, vaxtagjöld)

Kærandi, sem var fjármálafyrirtæki, hugðist gefa út svonefnda blandaða fjármálagerninga (varanleg verðbréf) sem voru án fyrirfram ákveðins gjalddaga eða innlausnardags. Voru bréfin þess eðlis að á kæranda hvíldi hvorki skylda til endurgreiðslu höfuðstóls eða kaupverðs bréfanna né til greiðslu vaxta. Þá gátu ýmis atvik leitt til niðurfærslu höfuðstóls bréfanna og breytingu þeirra í hluti í kæranda. Í máli þessu vegna bindandi álits var fallist á með ríkisskattstjóra að umræddir fjármálagerningar hefðu slík einkenni eiginfjárframlags að þeir yrðu ekki taldir til skuldar í skilningi skattalaga þannig að vaxtagjöld af þeim væru frádráttarbær frá tekjum kæranda.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 79/2019 (teknategund, söluhagnaður, kynslóðaskipti)

Kærandi tók í arf eftir móður sína á árinu 2015 eignarhlut í atvinnuhúsnæði. Í málinu var deilt um hvort telja bæri söluhagnað vegna sölu eignarinnar til tekna af atvinnurekstri, svo sem ríkisskattstjóri taldi, eða til fjármagnstekna einstaklings utan rekstrar, eins og kærandi hélt fram. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að arfleifandi hefði leigt fasteignina út í atvinnuskyni. Við þær aðstæður sem í málinu greindi var talið að kærandi hefði almennt verið í sömu stöðu í skattalegu tilliti við sölu fasteignarinnar og arfleifandi, hefði hann selt fasteignina sjálfur. Var fallist á með ríkisskattstjóra að virða bæri söluhagnað kæranda sem tekjur af atvinnurekstri.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 78/2019 (bindandi álit, breyting á félagaformi)

Í máli þessu vegna bindandi álits ríkisskattstjóra var talið að umbreyting sameignarfélags, sem var sjálfstæður skattaðili, í samlagsfélag með breytingum á félagssamningi gæti ekki átt sér stað án mögulegra skattalegra afleiðinga. Kom fram í því sambandi að almennt yrði að telja að yfirfærsla skattaréttarlegra réttinda og skyldna milli sjálfstæðra skattaðila kæmi ekki til greina nema sérstakri lagaheimild væri fyrir að fara. Til samræmis yrði ekki talið að slík yfirfærsla kæmi til álita án sérstakrar lagaheimildar við breytingu á félagaformi lögaðila er nytu sjálfstæðrar skattaðildar.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

4. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Evrópusambandinu

Evrópusambandið uppfærir lista yfir ósamvinnuþýð lögsagnarumdæmi

Evrópusambandið tilkynnti nýverið ákvörðun sína um að fjarlægja Dóminíska lýðveldið af lista yfir ósamvinnuþýð lögsagnarumdæmi (e. the EU black list of noncooperative jurisdictions). Ríkið hefur mætt kröfum ESB hvað varðar upplýsingagjöf í skattamálum og er nú talið uppfylla skilyrði ESB.

Listinn er yfir ósamvinnuþýð ríki sem skora lágt í mælingum ESB á gagnsæi í skattlagningu, sanngjarnri skattlagningu og hvort skattkerfið hvetji alþjóðleg fyrirtæki til þess að færa tekjur sínar til lágskattaríkja. Við mat á hvort að skattkerfi ríkisins alþjóðleg fyrirtæki til að færa tekjur sínar til lágskattaríkja er tekið mið af innleiðingu ríkisins á BEPS aðgerðaráætluninni (e. Base Erosion and Profit Shifting) sem er leitt af Efnahags- og framfarastofnuninni (e. OECD). Markmiðið með aðgerðaráætluninni er að koma böndum á möguleika alþjóðlegra stórfyrirtækja til skattasniðgöngu á grundvelli tilflutnings hagnaðar.

11 ríki eru eftir á listanum: Belís, Fiji-eyjar, Suðurhafseyjan Guam, Marshall-eyjar, Oman, Samóa og Ameríska Samóa, Trínidad og Tóbagó, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Bandarísku Jómfríareyjarnar og Vanuatu.

Fréttina má sjá í heild sinni hér.

5. Skiladagsetningar framundan

1. júlí:

  • Staðgreiðsla, tryggingagjald einstaklinga af launum og hlunninda undanþegin staðgreiðslu.

15. júlí:

  • Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna júní.
  • Eindagi fjársýsluskatts vegna júní.

20. júlí:

  • Gjalddagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. apríl - 30. júní 2019.

6. ágúst:

  • Eindagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. apríl - 30. júní 2019.
  • Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir maí-júní 2019.

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?