Faglegt efni

Punkturinn 4. tbl. 2020

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er farið yfir innlendar fréttir, nýfallinn dóm Hæstaréttar um arðsúthlutunarheimildir, nýlega úrskurði yfirskattanefndar og þær skiladagsetningar sem framundan eru.

1. Innlendar fréttir

A.    Uppfærð samantekt um aðgerðir stjórnvalda og aðgerðir fjölmargra ríkja vegna COVID-19

Deloitte hefur tekið saman yfirlit yfir aðgerðir stjórnvalda ásamt nánari upplýsingum um skilyrði þeirra sem vonandi gagnast fyrirtækjum í yfirstandandi skipulagningu. Samantektin hefur verið uppfærð samhliða lagabreytingum og er aðgengileg á íslensku og ensku.

Vefsíða Deloitte Global þar sem aðgerðir fjölmargra ríkja eru dregnar saman á aðgengilegan hátt er í stöðugri uppfærslu. Þá geta viðskiptavinir fengið sendan tölvupóst daglega með samandregnum upplýsingum um aðgerðir þessara ríkja. Skráið ykkur hér til að fá þetta fréttabréf sent.

Frekari upplýsingar veitir Bjarni Þór Bjarnason, sviðsstjóri Skatta- og lögfræðiráðgjafar.

B.    Frestir vegna samruna og skiptinga m.v. áramót

Skatta- og lögfræðiráðgjöf vekur athygli á því að frestur til að undirrita gögn í tengslum við samruna eða skiptingar hf. og ehf., sem miðast við áramótin 2019/2020, var til 30. júní sl.

Frestur til að senda inn tilkynningu um samruna eða skiptingar, sem miðast við áramótin 2019/2020, er til 31. júlí n.k.

Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg Þorsteinsdóttir hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf
Deloitte. 

C.    Tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar

Alþingi hefur samþykkt ný lög um tímabundnar heimildir til fjáhagslegrar endurskipulagningar þar sem komið er á fót nýju úrræði er lýtur að fjárhagslegri endurskipulagningu til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum kórónuveirufaraldursins. Lög um einföldun regnla um fjárhagslega endurskipulagningu ná til fyrirtækja sem eiga undir lögsögu dómstóla hér á landi og hafa verið með starfsemi fyrir 1. desember 2019.

Eftirfarandi gildir:

 • Fyrirtæki skal hafa greitt fleiri en einum starfsmanni laun í desember 2019 og janúar og febrúar 2020 sem svari hið minnsta til lágmarkslauna fyrir fullt starf í hverjum þessara mánaða.
 • Mánaðarlegar heildartekjur af starfseminni skulu hafa dregist saman frá 1. apríl 2020 um 75% miðað við meðaltal mánaðartekna 1. desember 2019 – 29. febrúar 2020 eða mánaðarlegar heildartekjur síðustu þriggja mánaða áður en sótt er um úrræðið skulu hafa dregist saman um a.m.k. 75% í samanburði við sömu mánuði árið 2019 eða fyrirsjáanlegt er að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því að sótt er um úrræðið verði a.m.k. 75% minni í samanburði við sama tíma á árinu 2019.
 • Samanlagður áætlaður rekstrarkostnaður og skuldir hans sem falla ígjalddaga á næstu tveimur árum séu meiri en heildarfjárhæð andvirðis peningaeignar hans, innstæðna, verðbréfa og krafna á hendur öðrum.
 • Fyrirtæki má skulda opinber gjöld.
 • Ef félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á félagi sem óskar eftir endurskipulagningu, er það ekki skilyrði að þeir sem bera ábyrgð óski eftir endurskipulagningu samhliða.
 • Fyrirtæki sem óskar eftir endurskipulagningu ræður lögmann eða löggiltan endurskoðanda sem verður aðstoðarmaður í ferlinu. Fyrirtækið ber kostnað af aðstoðarmanni.

Fyrirtæki sem óskar eftir fjárhagslegri endurskipulagningu skal senda beiðni þess efnis til viðkomandi héraðsdóms fyrir 1. janúar 20201. Ef fyrirtæki uppfyllir ekki öll viðeigandi skilyrði er beiðni synjað og ekki áfrýjað til annars dóms. Telji héraðsdómari skilyrði uppfyllt fær skuldari heimild til tilgreindrar dagsetningar innan þriggja mánaða frá úrskurði.

 • Aðstoðamaður skal innan sex vikna halda fund með kröfuhöfum þar sem hann kynnir stöðuna og ráðagerðir og leggur fram upplýsingar um tæmandi eignir og skuldir.
 • Fyrirtæki getur óskað eftir framlengingu frests vegna endurskipulagningar allt að 12 mánuðum.
 • Fyrirtæki getur farið fram á að fá heimild til nauðasamninga.
 • Meðan á fjárhagslegri endurskipulagningu stendur getur fyrirtæki ekki ráðastafað eignum sínum eða stofnað til skuldbindinga nema með samþykki aðstoðarmanns. Ráðstöfun eigna verða að vera nauðsynlegur þáttur í daglegum rekstri fyrirtækisins.
 • Renni heimildin til fjárhagslegrar endurskipulagningar út án árangurs geta kröfuhafar inann mánaðar krafist gjaldþrotaskipta hjá fyrirtæki.

Nánari upplýsingar veitir Pétur Steinn Guðmundsson hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte. 

D.    Viðamiklar breytingar á skattalögum

Í maí tóku gildi ýmsar áhugaverðar og viðamiklar breytingar á skattalögum. Breytingarnar eru margvíslegar en fyrst og fremst ber að vekja athygli á eftirfarandi:  

 • Markmið lagabreytinganna eru þau að atvinnufyrirtæki geti með einföldum aðgerðum fengið skjól til að endurskipuleggja rekstur sinn á meðan þetta ástand varir. Við arðgreiðslur milli hf., ehf. og slhf. þarf ekki lengur að halda eftir fjármagnstekjuskatti í staðgreiðslu. Sama undanþága var áður í gildi á
  milli samskattaðra lögðila en hefur nú verið útvíkkuð umtalsvert.  
 • Álagning lögaðila fer nú fram 1. nóvember (í stað 1. október), en kærufrestur lögaðila var styttur í einn mánuð.
 • Frádráttarbærni vaxtagjalda (e. thin-cap) var breytt þannig að skýrt er að fyrstu 100 m.kr. af stofni vaxtagjalda eru undanþegnar takmörkunum á frádráttarbærni vaxtagjalda.
 • Söluhagnaður hlutabréfa, þegar seljandi er með skattalega heimilisfesti erlendis, er undanþeginn staðgreiðslu hér á landi.
 • Vaxtatekjur erlendra aðila, af skuldabréfum sem eru skráð hjá verðbréfamiðstöð innan OECD, EES/EFTA/EU eða Færeyja, eru undanþegnar staðgreiðslu hér á landi.
 • Skylda Skattsins til að rannsaka virðisaukaskattsskýrslur þar sem innskattur er hærri en útskattur (inneignarskýrslur) er afnumin.
 • Frestun á greiðslu tekjuskatts við álagningu 2020 og jöfnun á móti rekstrartapi 2021:

o   Við álagningu 2020 er félögum heimilt að fresta að hluta til eða að öllu leyti um eitt ár greiðslu tekjuskatts allt að 20 m.kr., enda sé fyrirsjáanlegur taprekstur á yfirstandandi rekstrarári, og jafna frestuninni á móti rekstrartapi við álagninu 2021.

o   Félög þurfa að uppfylla sambærileg skilyrði og í tengslum við aðrar aðgerðir stjórnvalda, s.s. að vera ekki í vanskilum með opinber gjöld í árslok 2019, ekki greiða út arð eða kaupa eigin hluti 2020.

o   Ef frestuð skattgreiðsla nemur hærri fjárhæð en hægt er að jafna á móti rekstrartapi ársins 2020 þá reiknast dráttarvextir á mismuninn frá þeim tíma sem skattgreiðslan féll í gjalddaga. Skattinum er þó heimilt að fella niður dráttarvexti ef félag getur sýnt fram á að það hafi haft réttmæta ástæðu þegar farið var fram á frestunina. 

 • Heimilt er að fresta tekjufærslu vegna eftirgjafar skulda umfram rekstrartöp vegna greiðsluerfiðleika á árinum 2020, 2021 og 2022. Standi eftir í árslok 2022 eftirgjöf sem er hærri en 500 m.kr. er heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2023-2027. Sé eftirgjöf lægri en 500 m.kr. í lok árs 2022 færist hún ekki til tekna.
 • Þegar kröfu er breytt í hlutafé skal fara fram mat á verðmæti hlutafjárins og skal matsverðið miða við þann dag þegar skiptin eiga sér stað. Skuldara ber að tekjufæra mismun á verðmæti hlutafjárins og bókfærðu verði skuldarinnar. Kröfuhafa ber eftir atvikum að tekjufæra eða gjaldfæra mismun á bókfærðu verði kröfunnar og matsverði hlutafjárins. Mat á verðmæti hlutafjár skal unnið af óháðum matsaðila þegar umbreyting fer fram milli eignatengdra aðila.
 • Einstaklingi er heimilt að draga frá tekjuskattsstofni sínum 75% af fjárhæð sem hann sýnir fram á að sé tilkomin vegna fjárfestinga á árunum 2020 og 2021 í hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem uppfylla tiltekin skilyrði, m.a. varðandi stærðarmörk.

Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg Þorsteinsdóttir hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf
Deloitte. 

E.    Skattafrádráttur vegna nýsköpunar hækkaður í 25-35% af útlögðum kostnaði

Tvö ný bráðabirgðaákvæði voru sett við lög nr. 152/2009 um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Í fyrsta lagi hefur skattafrádrátturinn, sem nýsköpunarfyrirtækjum sem eru eigendur að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem holtið hafa staðfestingu Rannís, verið hækkaður úr 20% af útlögðum kostnaði í 35% af útlögðum kostnaði í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25% í tilviki stórra fyrirtækja við álagningu 2021 og 2022. Í öðru lagi hefur hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 verið hækkað í 1,1 ma.kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200 m.kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu.

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Ingi Birgisson hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte.

F.    Afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa

Með lögunum nr. 49/2020 voru felld brott ákvæði úr lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, um skyldu til að greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu skipa. Samkvæmt lögunum náði gjaldskyldan eingöngu yfir skip sem eru yfir fimm brúttótonn. Í frumvarpinu kom fram að með vísan til sjónarmiða um jafnræði atvinnugreina væri talið rétt að ekki verði lengur innheimt stimpilgjald vegna skjala er varða eignayfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum. Slík breyting væri jafnframt í samræmi við það regluverk sem fyrirfinnst á Norðurlöndunum varðandi stimpilgjöld, en þar takmarkist stimpilgjöld almennt við fasteignaviðskipti. Þá muni slík breyting bæta m.a. rekstrarumhverfi skipa á Íslandi, leiða til sambærilegra rekstrarumhverfis líkt og hjá erlendum samkeppnisaðilum og styðja sérstaklega við íslenskan sjávarútveg sem er í mikilli alþjóðlegri samkeppni. 

Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg Þorsteinsdóttir hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte. 

2. Hæstiréttur telur hlutdeildartekjur ekki grundvöll arðsúthlutunar

Skatta- og lögfræðiráðgjöf vekur athygli á því að nýverið komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu með dómi nr. 2/2020 að hagnaður sem byggði á hlutdeildarhagnaði í dótturfélögum samkvæmt ársreikningi 2011 hafi ekki talist frjáls sjóður sem heimilt var að úthluta sem arði. Ágreiningurinn í málinu varðaði beiðni um endurgreiðslu á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna arðs sem Iceland Seafood ehf. úthlutaði til hluthafa í Lúxemborg. Ríkisskattstjóri hélt því fram að arðgreiðslan hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið úthlutað úr frjálsum sjóði og hafnaði endurgreiðslunni.

Héraðsdómur taldi að arðgreiðslan hafi ekki verið lögmæt þar sem hún byggði á hlutdeildarhagnaði án þess að slík hlutdeild hafi í reynd verið greidd út í formi arðs. Landsréttur taldi á hinn bóginn að líta bæri á stöðu óráðstafaðs eigin fjár samkvæmt ársreikningi sem frjálsan sjóð sem heimilt væri að úthluta sem arð.

Á árinu 2016 var gerð breyting á 41. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga um að hlutdeild í bundnum eiginfjárreikningum hjá dóttur- eða hlutdeildarfélögum skuli færa á samsvarandi bundna eiginfjárreikninga félagsins. Fram til ársins 2016 voru hlutdeildartekjur sem færðar voru sem óráðstafað eigið fé og talið að heimilt væri að úthluta arði á grundvelli þeirra, líkt og annað óráðstafað eigið fé samkvæmt síðasta ársreikningi.

Í hlutafélagalögum er hugtakið „frjálsir sjóðir“ ekki skilgreint. Niðurstaða Hæstaréttar staðfestir að hlutdeildartekjur geta ekki talist frjáls sjóður, þ.e. fyrir lagabreytinguna 2016, en að öðru leyti gefur dómurinn ekki góðar leiðbeiningar um hvaða sjóðir séu frjálsir. Dómurinn segir að einkenni frjálsra sjóða er að fé sem til þeirra er fært er félaginu til ráðstöfunar og að reikningsskil eins og hlutdeildaraðferð geta ekki leitt til rýmri heimilda til arðgreiðslna en mælt er fyrir um í hlutafélagalögum. Jafnframt segir dómurinn að hafa verði í huga að ákvæði laga nr. 3/2006 um ársreikninga lúta að reikningsskilum félaga en fjalla ekkert um úthlutun af fjármunum þeirra. Að mati Deloitte kallar dómurinn á ýmis álitaefni í tengslum við samspil ársreikningalaga og hlutafélagalaga, sérstaklega varðandi skilgreiningu á því hvaða sjóðir geta myndað grundvöll til arðsúthlutunar.  

Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg Þorsteinsdóttir hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf
Deloitte. 

3. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður YSKN nr. 80/2020 (lánveitingar einkahlutafélags til tengds aðila, duldar arðgreiðslur, álag)

A var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu, en B var varamaður í stjórn félagsins. Í málinu var deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa A og B til skattskyldra tekna meintar óheimilar lánveitingar frá X ehf. á árunum 2013-2015. Ekki var fallist á með kærendum að hinar umdeildu greiðslur X ehf. til þeirra yrðu skýrðar með viðskiptum kærenda og X ehf. með fasteign á árinu 2012 sem gengið hefðu til baka á árinu 2013. Var m.a. bent á í því sambandi að greiðslur X ehf. til kærenda hefðu numið umtalsvert hærri fjárhæðum en sem næmi eftirstöðvum kaupverðs fasteignarinnar. Ekki var hrófla við þeirri niðurstöðu ríkisskattstjóra að skattleggja greiðslur X ehf. sem gjafir í hendi kærenda. Að því er varðar skattlagningu í hendi B kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að ákvæði skattalaga um skattlagningu óheimilla lánveitinga til hluthafa og stjórnarmanna einkahlutafélaga giltu m.a. um óheimila lánveitingu til stjórnarmanns sem ekki væri hluthafi í viðkomandi einkahlutafélagi. Ekki þótti hins vegar ástæða til að draga í efa að kærendur hefðu lagt X ehf. til húsbréf sem færð hefðu verið í bækur félagsins á árinu 2014. Var því fallist á varakröfu kærenda um lækkun tekjufærslu hjá B gjaldárið 2015 af þessum sökum.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður YSKN nr. 74/2020 (endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa)

Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu við byggingu íbúðarhúsnæðis að K. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær að um væri að ræða verksmiðjuframleitt íbúðarhús og að framleiðandi þess hefði fengið virðisaukaskatt endurgreiddan. Yfirskattanefnd taldi að viðeigandi reglugerðarákvæði yrðu ekki skilin öðru vísi en svo að kaupandi verksmiðjuframleidds íbúðarhúss teldist leggja til grunn slíks húss og væri sá aðili sem rétt ætti til endurgreiðslu virðisaukaskatts af slíkri vinnu. Í tilviki verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa yrði því að afmarka endurgreiðslurétt kaupanda hússins andspænis endurgreiðslurétti framleiðanda þess. Þar sem forsendur synjunar ríkisskattstjóra voru ekki taldar fá staðist var ákvörðun hans felld úr gildi og kæran send ríkisskattstjóra til meðferðar og nýrrar afgreiðslu.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður YSKN nr. 73/2020 (skattrannsókn, lágskattaríki, teknategund, málsmeðferð, álag)

Í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum kæranda árin 2010-2013 endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda vegna umræddra ára og færði kæranda til tekna í almennu skattþrepi tekjuskatts vanframtaldar greiðslur frá erlendu félagi, X, sem skráð var á Seychelles-eyjum í Indlandshafi. Kærandi hélt því fram að um væri að ræða endurgreiðslu láns. Yfirskattanefnd benti á að kærandi hefði ekki gert grein fyrir neinum kröfum á hendur X eða lánveitingum til félagsins í skattskilum sínum þau ár sem málið tók til. Þá hefði kærandi ekki lagt fram nein samtímagögn til  stuðnings því að hann hefði lánað X fjármuni. Var kærandi hvorki talinn hafa sýnt fram á að virða bæri greiðslur X til hans að einhverju leyti sem endurgreiðslur vegna kröfu sem kærandi hefði átt né að um væri að ræða arðgreiðslur til hans. Þá var ekki fallist á með kæranda að málsmeðferð skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra í máli hans hefði verið áfátt. Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu hans um niðurfellingu 25% álags.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður YSKN nr. 66/2020 (yfirfærsla einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag, söluhagnaður hlutabréfa, atvinnurekstur, tilheyrsla tekna)

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 197/2017 í máli kæranda vegna gjaldársins 2015 var hafnað kröfu kæranda um að telja eignarhald og umsýslu hans með hlutabréf í X hf. til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi í skattalegu tilliti. Af þeirri niðurstöðu var talið leiða að skilyrði 56. gr. laga nr. 90/2003 fyrir skattfrjálsri yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag væru ekki til staðar í tilviki yfirfærslu hlutafjáreignar kæranda í X hf. og skulda henni tengdri í Y ehf. í apríl 2015. Þá var talið að virða bæri framsal kæranda á hlutabréfum í X hf. til Z hf. í mars sama ár sem sölu kæranda sjálfs en ekki sölu Y ehf. Var því fallist á með ríkisskattstjóra að kæranda hefði borið að gera grein fyrir sölu hlutanna og uppgjöri söluhagnaðar af því tilefni í skattframtali sínu árið 2016. Tekjufærsla söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfa í X hf. á árunum 2016 og 2017 í skattframtölum kæranda árin 2017 og 2018 var hins vegar felld úr gildi með úrskurði yfirskattanefndar þar sem nefndin taldi verða að byggja á því að til framsals hlutabréfa kæranda í X hf., þ.e. þeirra hlutabréfa sem eftir stöðu að undangenginni fyrrgreindri ráðstöfun til Z hf., til Y ehf. á árinu 2015 hefði komið og formleg eigendaskipti að hlutabréfunum átt sér stað með venjulegum lögfylgjum. Var bent á að ríkisskattstjóri hefði ekki byggt á því í málinu að skilyrði væru fyrir hendi til að líta framhjá afsali kæranda á hlutafjáreigninni til Y ehf. í skattalegu tilliti.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

4. Skiladagsetningar framundan

1. júlí

 • Greiðsla 1. ársfjórðungur 2020 fyrirframgreiðsla vaxtabóta
 • Staðgreiðsla, tryggingagjald einstakl. af launum og hlunninda undanþegin staðgr.

6. júlí

 • Virðisaukaskattur, eins mánaðar skil

15. júlí

 • Eindagi fjársýsluskatts vegna júní
 • Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna júní
 • Takmörkuð skattskylda
 • Virðisaukaskattur, skemmri skil

20. júlí

 • Gjalddagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. apríl - 30. júní 2020

 31. júlí

 • Síðasti dagur til að tilkynna Fyrirtækjaskrá um samruna- eða skiptingaráætlun sem undirrituð var 30. júní

4. ágúst

 • Eindagi fjármagnstekjuskatts af vöxtum og arði vegna tímabilsins 1. apríl - 30. júní 2020

5. ágúst

 • Gjalddagi gistináttaskatts fyrir maí-júní 2020
 • Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir maí-júní 2020
 • Virðisaukaskattur, eins mánaðar skil

17. ágúst

 • Álagningarskrá einstaklinga liggur frammi til 31. ágúst 2020
 • Eindagi fjársýsluskatts vegna júlí
 • Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna júlí
 • Takmörkuð skattskylda
 • Virðisaukaskattur, skemmri skil

31. ágúst

 • Lokaskiladagur ársreikninga 2019 til ársreikningaskrár

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte í Skatta- og lögfræðiráðgjöf eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?