Faglegt efni

Punkturinn 5. tbl. 2019

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er farið yfir innlendar fréttir og nýlega úrskurði yfirskattanefndar. Þá eru sagðar skattafréttir frá Deloitte og farið yfir þær skiladagsetningar sem framundan eru.

1. Innlendar fréttir

Skráning upplýsinga um raunverulega eigendur

Í júní sl. samþykkti Alþingi lög nr. 82/2019 um skráningu raunverulegra eigenda. Á grundvelli laganna þurfa allir lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, þar með talin útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga, að afla upplýsinga um og skrá raunverulega eigendur sína og réttindi þeirra.

Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra vekur athygli á því að frá og með 30. ágúst 2019 skulu allir lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi afla upplýsinga um og skrá raunverulega eigendur sína og réttindi þeirra við stofnun í fyrirtækjaskrá. Við nýskráningu lögaðila eða útibúa í fyrirtækjaskrá ber að tilkynna um raunverulega eigendur þeirra með sérstöku eyðublaði RSK. 17.27. Ef ekki hefur verið tilkynnt um raunverulega eigendur þeirra aðila sem þegar eru skráðir í fyrirtækjaskrá skulu þeir hafa frumkvæði að því að bæta úr því. Fyrirtækjaskrá mun birta upplýsingar um hvernig skuli staðið að tilkynningu um raunverulega eigendur þeirra félaga sem þegar eru skráð í fyrirtækjaskrá á næstu vikum en frestur til þess að veita upplýsingarnar er til 1. júní 2020.

Skil lögaðila á framtali og ársreikningi vegna rekstrarársins 2018

Lokaskiladagur lögaðila á skattframtali 2019 er 10. september nk. en álagning lögaðila fer fram 27. september nk. Lengsti frestur til skila á ársreikningi 2018 til ársreikningaskrár er einnig 10. september 2019.

Skilaskylda er óháð því hvort félagið teljist hafa verið í starfsemi eða ekki. Sé ársreikningi ekki skilað eru félög sektuð samkvæmt sektarheimildum ársreikningaskrár.

2. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 109/2019 (stimpilgjald, eignayfirfærsla vegna sambúðarslita)

Ekki var fallist á með kæranda að undanþáguákvæði b-liðar 6. gr. laga um stimpilgjald nr. 138/2013, sem varðaði yfirfærslu fasteignar sem lögð væri út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, gæti tekið til yfirfærslu fasteignar vegna slita á óvígðri sambúð. Kom m.a. fram í því sambandi að þegar rætt væri um „maka“ í lögum væri jafnan átt við einstakling í hjúskap, nema annað yrði sérstaklega ráðið af samhengi lagatexta eða tiltækum lögskýringargögnum.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 115/2019 (duldar arðgreiðslur, tekjutímabil, málsmeðferð)

Kærandi var eigandi alls hlutafjár í X ehf. Athugun ríkisskattstjóra leiddi í ljós að greiðslur frá erlendum kaupendum þjónustu X ehf. höfðu verið lagðar inn á bankareikning kæranda. Var ágreiningur um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda umrædda fjármuni til tekna sem laun í skattframtölum hans árin 2013 og 2014 á þeim grundvelli að um væri að ræða greiðslur frá X ehf. sem ekki hefðu farið fram sem lögmæt úthlutun af fjármunum félagsins. Við ákvörðun tekjufærslu tók ríkisskattstjóri eingöngu mið af mismun tilgreinds handbærs fjár og bankainnstæðna X ehf. í lok áranna 2012 og 2013, þ.e. sjóðseign á þessum tímapunktum, án þess að litið væri til hliðstæðrar stærðar í upphafi þessara ára. Í úrskurði yfirskattanefndar var ekki talið fá staðist í tilvikum sem þessum að horfa eingöngu til stöðu tilgreinds sjóðs samkvæmt ársreikningum félags í árslok, þótt því yrði slegið föstu að hluthafi félagsins hefði á þeim tíma umráð fjármunanna og að fram hefði farið afhending þeirra til hans. Yrði ekki upplýst um peningalegar úttektir ársins nema taka einnig tillit til sjóðsstöðu í upphafi ársins auk þess sem uppruni fjármuna og atvik varðandi einstakar greiðslur á árinu kynnu einnig að skipta máli. Þar sem talið var að verulegir annmarkar hefðu verið á meðferð ríkisskattstjóra á málinu voru hinar umdeildu tekjufærslur felldar úr gildi.

3. Alþjóðlegi Punkturinn: Skattafréttir frá Deloitte

Fyrirtæki sem er með starfsemi í löndum þar sem þau eru hvorki með staðfestu né skráð á virðisaukaskattsskrá geta í einhverjum tilvikum átt rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Í síbreytilegu lagaumhverfi og með aukinni alþjóðavæðingu hjálpar Deloitte stjórnendum fyrirtækja og einstaklingum í rekstri að skipuleggja og haga málum er varða virðisaukaskatt. Deloitte hefur gefið út leiðbeiningar um endurgreiðslu virðisaukaskatts fyrir árið 2019 í 31 Evrópuríkjum (e. The 2019 European VAT refund guide ) en þar er að finna yfirlit yfir reglur og verklag hvers og eins ríkis.

Sérfræðingar á Skatta- og lögfræðisviði Deloitte bjóða upp á heildstæða ráðgjöf og samvinnu við önnur aðildarfélög Deloitte víðsvegar um heim.

4. Skiladagsetningar framundan

10. september

  • Lokaskiladagur lögaðila á skattframtali 2019
  • Lokaskiladagur lögaðila á ársreikningi 2018

16. september

  • Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna ágúst
  • Eindagi fjársýsluskatts vegna ágúst

7. október

  • Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir júlí-ágúst 2019

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte á skatta- og lögfræðisviði eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?