Faglegt efni

Punkturinn 6. tbl. 2019

Fréttabréf um skatta- og lögfræðimál

Í þessum Punkti er farið yfir innlendar fréttir, nýlega úrskurði yfirskattanefndar og þær skiladagsetningar sem framundan eru.

1. Innlendar fréttir

Átak fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að uppfæra upplýsingar um félög

Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra vekur athygli á því að skráin stendur nú fyrir átaki varðandi uppfærslu upplýsinga í skránni. Félagi ber að tilkynna ríkisskattstjóra um allar breytingar er varða skráningu sem lúta m.a. að heiti og heimilisfangi félagsins, nafni, lögheimili og kennitölu forráðamanna og raunverulegum eigendum samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.

Félög eru því hvött til þess að yfirfara skráningu sína í fyrirtækjaskrá við fyrsta tækifæri og senda fyrirtækjaskrá tilkynningu um breytingar þar sem við á annars kunni að koma til beitingu viðurlaga í formi dagsekta. 

Sérfræðingar í Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte geta veitt félögum aðstoð við að senda viðeigandi tilkynningar til RSK. Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg Þorsteinsdóttir (gth@deloitte.is).

Ný lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri

Lög nr. 119/2019 um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri voru samþykkt nýverið. Með lögunum er verið að bregðast við athugasemdum alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (e. Financial Action Task Force, FATF). Hér á landi er ekki í gildi sérstök löggjöf um frjáls félagasamtök almennt eða félagasamtök. Þó er víða að finna í lögum ákvæði sem varða einstaka þætti í starfsemi frjálsra félagasamtaka almennt eins og t.d. í skattalögum, lögum um bókhald og firmalögum. Þau félög sem falla undir lögin hafa nú verið aðgreind frá öðrum félagasamtökum og settar hafa verið reglur um stofnun slíkra félaga, meginefni samþykkta, stjórnun þeirra og skráningarskyldu í almannaheillafélagaskrá ríkisskattstjóra.

Lög nr. 119/2019 um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri ná m.a. til félagasamtaka sem hafa þann megintilgang að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu, svo sem til líknarmála, trúmála, menningarmála, menntamála, félagsmála eða annarra góðgerðarmála. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna skulu almenn félagasamtök sem falla undir gildissvið laganna og skráð eru í fyrirtækjaskrá við gildistöku þeirra, breyta skráningu sinni í félag til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri. Jafnframt skal skrá þau í almannaheillafélagaskrá og skila inn nýjum samþykktum, tilkynningum um stjórn, varstjórn, endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, skoðunarmenn eða trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna, og öðrum upplýsingum sem skrá skal samkvæmt lögunum. Vakin er sérstök athygli á því að skylt er að skrá raunverulega eigendur félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri og skal tilkynning um þá fylgja stofngögnum félagsins.

Sérfræðingar í Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte geta veitt félögum aðstoð við skrá þau í almannaheillafélagaskrá og uppfylla skyldur samkvæmt lögum skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri. Nánari upplýsingar veitir Andrea Olsen (anolsen@deloitte.is).

Frumvarp um breytingu á samkeppnislögum

Frumvarp um breytingu á samkeppnislögum nr. 44/2005, með síðari breytingum, er til umsagnar í Samráðsgátt. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að auka skilvirkni og gegnsæi laganna til hagsbóta fyrir atvinnulífið.

Lagt er til að veltumörk tilkynningarskyldra samruna hækki og breytingar lagðar til á málsmeðferð samrunamála sem ætlað er að einfalda málsmeðferð og bæta rannsóknir slíkra mála. Að auki eru lagðar til breytingar á framkvæmd undanþága frá bannákvæðum þess efnis að fyrirtæki meti sjálf hvort skilyrði undanþága séu uppfyllt og er sú breyting í samræmi við framkvæmd annars staðar á EES-svæðinu. Þá er einnig lagt til að heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots og til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verði felldar brott.

Fullgilding MLI sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2020

Íslensk stjórnvöld hafa afhent Efnahags- og framfarastofnuninni, (e. OECD) , tilkynningu um fullgildingu marghliða samnings um breytingar á tvísköttunarsamningum til þess að koma í veg fyrir rýrnum skattstofna og tilfærslu hagnaðar (MLI eða Multilateral Instrument) sem er hluti af BEPS aðgerðaráætlun (e. Base Erosion and Profit Shifting) sem er leitt af Efnahags- og framfarastofnuninni. Markmiðið með aðgerðaáætluninni er að koma böndum á möguleika alþjóðlegra stórfyrirtækja til skattasniðgöngu á grundvelli tilflutnings hagnaðar. MLI mun koma til framkvæmda þann 1. janúar 2020 og hafa strax áhrif á fjölda tvísköttunarsamninga.

Nánari upplýsingar hér.

Lagt til að embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra verði sameinuð; Skatturinn

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum fyrir Alþingi og lagt til að embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra verði sameinuð og muni bera heitið Skatturinn. Markmið breytinganna er að bæta þjónustu og stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í toll- og skattframkvæmd með sjálfvirknivæðingu og stafræna opinbera þjónustu að leiðarljósi.

Í frumvarpinu felst að sameina verkefni á sviði tollafgreiðslu og tollgæslu, sem embætti tollstjóra annast nú, og þau verkefni sem embætti ríkisskattstjóra sinnir. Verði frumvarpið að lögum mun tollafgreiðsla og tollgæsla færast til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020 og mun ríkisskattstjóri stýra hinni nýju stofnun.

Frumvarpið byggist á vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í júní 2018. Nefndin lagði til að innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri annaðist, yrði færð til ríkisskattstjóra og varð frumvarp þess efnis að lögum í desember 2018. Þann 1. maí 2019 fluttist innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu til ríkisskattstjóra.

2. Nýlegir úrskurðir yfirskattanefndar

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 159/2019 (rekstrarkostnaður, fyrnanleg eign, málsmeðferð)

Kærandi, sem var einkahlutafélag um fasteignasölu, keypti tvær húseignir og sumarbústað á árinu 2012. Deiluefni málsins laut að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að fella niður gjaldfærðan kostnað vegna fasteignanna í skattskilum kæranda. Fyrir lá í málinu að eigandi og fyrirsvarsmaður kæranda hafði nýtt aðra húseignina til íbúðar ásamt fjölskyldu sinni þau ár sem málið tók til og að faðir eigandans hafði haft endurgjaldslaus afnot af hinni húseigninni á sama tíma. Þá var tekið undir efasemdir ríkisskattstjóra um að rekstrarlegar ástæður hefðu búið að baki kaupum sumarbústaðar, enda þóttu atvik frekast benda til þess að eignin hefði verið í óbreyttri notkun sem orlofshús eiganda kæranda eða skyldmenna og venslamanna hans. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að fjárfesting í umræddum fasteignum hefði staðið í þeim tengslum við tekjuöflun félagsins að eignirnar gætu talist fyrnanlegar eignir í skattalegu tilliti og kostnaður vegna þeirra væri frádráttarbær sem rekstrarkostnaður. Var kröfum kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 154/2019 (húsnæðishlunnindi, skattmat, málsmeðferð)

Ríkisskattstjóri færði kæranda, sem var fyrirsvarsmaður og eigandi helmings hlutafjár í T ehf. á móti bróður sínum, til tekna skattskyld húsnæðishlunnindi vegna endurgjaldslausra afnota af sumarhúsi í eigu T ehf. á árunum 2014, 2015 og 2016. Ákvarðaði ríkisskattstjóri fjárhæð hlunnindanna miðað við 3.000 kr. fyrir hvern dag ársins að frádregnum 10 dögum og vísaði til þess að kærandi hefði haft óheft umráð sumarhússins á greindum árum. Yfirskattanefnd benti á að í skattmatsreglum vegna húsnæðishlunninda væri ekki kveðið á um ákvörðun hlunninda vegna tímabils umfram þá daga sem afnot orlofshúsnæðis yrðu talin standa með því að starfsmaður hefði „umráð“ húsnæðisins lengri tíma ársins. Var ekki fallist á með ríkisskattstjóra að líta mætti til reglna um fjárhæð bifreiðahlunninda við þær aðstæður að starfsmaður hefði full umráð bifreiðar í eigu launagreiðanda, enda greindu skattmatsreglur skýrlega milli bifreiðahlunninda og húsnæðishlunninda. Var ríkisskattstjóri ekki talinn hafa ákvarðað fjárhæð skattskyldra hlunninda kæranda á réttum grundvelli og var úrskurður ríkisskattstjóra felldur úr gildi.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 144/2019 (endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa)

Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu á verksmiðjuframleiddum einingahúsum á árinu 2017 á þeim forsendum að hin seldu hús væru ætluð til notkunar sem orlofshús eða til gistiþjónustu. Yfirskattanefnd taldi leiða af reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa að framleiðandi eða innflytjandi slíkra húsa eða eftir atvikum húseininga yrði að vera í stakk búinn til að leiða í ljós að hús væri ætlað til notkunar sem íbúðarhúsnæði, eftir atvikum með því að leggja fram gögn þar um frá kaupanda hússins eða byggingaryfirvöldum. Þar sem kærandi hefði ekki gert efnislegar athugasemdir við ályktanir ríkisskattstjóra um notkun hinna seldu húsa og málsgögn þóttu frekast benda til þess að ekki væri um íbúðarhús að ræða heldur hús ætluð til orlofsdvalar eða gistiþjónustu var kröfum kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 139/2019 (skattsekt, skattransókn, endurupptaka máls)

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 308/2015 í máli A var honum gerð sekt vegna vanrækslu á að telja fram í skattframtölum sínum tekjur sem til voru komnar vegna starfa fyrir X hf. og Y ehf. á árunum 2006 til 2009. A óskaði eftir endurupptöku málsins með vísan til þess að honum hefði verið refsað tvívegis fyrir sama brot, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 18. maí 2017 og dóm Landsréttar í máli nr. 4/2018. Yfirskattanefnd taldi atvik í dómum þessum í ýmsum atriðum frábrugðin atvikum í máli A, einkum hvað snerti tímaþátt málsmeðferðar. Þar sem ekki varð annað talið en að hinn umdeildi sektarúrskurður í máli A hefði grundvallast á gildandi réttarreglum og að hvorki hefði neitt komið fram um að ákvörðunin hefði byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né að atvik hefðu breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin var beiðni A um endurupptöku málsins hafnað..

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér.

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 127/2019 (skattskylda, einkahlutafélag, almenningsheill, málsmeðferð)

Kærandi í máli þessu var einkahlutafélag í eigu félagasamtakanna X. Var tilgangur kæranda að annast leiðbeiningarþjónustu og faglega fræðslu í þágu tiltekinnar atvinnugreinar. Ekki var fallist á með kæranda að félagið væri undanþegið tekjuskatti á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 þar sem félagið ræki ekki atvinnu og ráðstafaði hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hefði það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Var bent á að í dóma- og úrskurðaframkvæmd hefði starfsemi félaga og samtaka, sem hefðu að meginmarkmiði að vinna að hagsmunamálum tiltekinna starfsstétta, ekki verið talin miða að almenningsheill í skilningi fyrrnefnds ákvæðis, sbr. m.a. H 1989:298. Var kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðinn má sjá í heild sinni hér

3. Skiladagsetningar framundan

15. nóvember

  • Virðisaukaskattur, skemmri skil
  • Eindagi staðgreiðslu og tryggingagjalds vegna október
  •  Eindagi fjársýsluskatts vegna október

5. desember

  • Virðisaukaskattur, eins mánaðar skil
  • Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir september - október 2019

27. desember

  • Kærufrestur vegna álagningar lögaðila 2018 rennur út

Getum við aðstoðað ?

Sérfræðingar Deloitte í Skatta- og lögfræðiráðgjöf eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð á sviði skatta- og lögfræðimála.

Hér er hægt að skrá sig á póstlista Punktsins - punkturinn@deloitte.is 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Did you find this useful?