Lausnir

Áreiðanleikakannanir

Skatta- og lögfræðilegar

Skattalegar áreiðanleikakannanir

Þegar eignarhald á fyrirtækjum skiptir um hendur, hvort heldur með kaupum, samrunum eða skiptingum, er mikilvægt fyrir bæði seljendur og kaupendur að afla sér vissu um lengri tíma áreiðanleika fyrirtækjanna í skatta- og lögfræðilegu tilliti. Fjölmörg atriði í rekstri fyrirtækja, sem tengjast sköttum eða lagaskilyrðum, geta haft víðtæk áhrif á rekstrarhæfi þeirra og þar með hag eigenda. Þá verður að hafa í huga að heimild skattyfirvalda, til að krefjast breytinga á skattskilum fyrirtækja, nær sex ár aftur í tímann. Það er því ekki bara staða fyrirtækja við sölu sem þarf að rýna.

Ef upp koma verulegir annmarkar á þessum sviðum þá geta þeir haft grundvallaráhrif á samningaferlið og jafnvel leitt til þess umrætt fyriræki reynist minna virði en lagt var upp með í upphafi. Í verstu tilvikum getur komið til málaferla að viðskiptunum frágengnum. Það borgar sig því að hafa vaðið fyrir neðan sig og ráðast í skatta- og lögfræðilega áreiðanleikakönnun, samhliða fjárhagslegri áreiðanleikakönnun til að draga fram þau atriði sem skipt geta máli. Umfang áreiðanleikakönnunar er sniðið að þörfum og óskum verkkaupa hverju sinni.

Skattalegar áreiðanleikakannanir taka m.a. til eftirtalinna atriða:

 • Skoðun á skattskilum og tekjuskattskuldbindingu.
 • Eru öll opinber gjöld í skilum og hafa samskipti við skattyfirvöld almennt verið í góðu horfi.
 • Skattaleg málefni tengd samrunum og/eða skiptingum á undanförnum árum.
 • Skattalegt fyrirkomulag milli tengdra aðila.
 • Viðskipti á milli tengdra aðila og hvernig - ákvörðun um milliverðlagningu er háttað.[1]
 • Virðisaukaskattskil og kvaðir tengdar virðisaukaskatti. Hefur fyrirtækið einhverjar undanþágur frá virðisaukaskatti.[2]
 • Skattaleg álitamál tengd  verktakasamningum fyrirtækisins vegna aðkeyptrar þjónustu.
 • Hefur fyrirtækið fengið einhverjar kröfur/skuldir gefnar eftir.
 • Hafa skattamál starfsmanna, sem starfa að hluta erlendis, verið tekin til skoðunar.[3]


[1]
Sjá Nýjar reglur um milliverðlagningu

[2] Sjá nánar Atvinnurekstur og virðisaukaskattur.

[3] Sjá nánar Skattamál starfsmanna.

 

 

Lögfræðilegar áreiðanleikakannanir

Lögfræðilegar áreiðanleikakannanir taka m.a. til eftirtalinna atriða:

 • Eru allar skráningar hjá yfirvöldum í réttu horfi.
 • Lögfræðileg álitamál tengd samrunum og/eða skiptingum á undanförum árum.
 • Er skjalavinnsla og skjölun fyrirtækisins eins og vera ber.
 • Með hvaða hætti er haldið utan um starfsmannamál fyrirtækisins.
 • Er fyrirtækið á viðkvæmum samkeppnismörkuðum.
 • Á fyrirtækið sér sögu þegar kemur að dómsmálum eða öðrum deilumálum.
 • Er fyrirtækið skráð og fylgir það leiðbeiningum um góða stjórnarhætti.[1]
 • Er verkaskipting stjórnar og framkvæmdastjóra í samræmi við lög.
 • Sinnir stjórnin lögbundnu hlutverki sínu gagnvart hluthöfum.
 • Hefur fyrirtækið öll tilskilin starfsleyfi.
 • Aðrir þættir er varða fasteignir, tryggingarmál, hugverkaréttindi og fleira eftir því sem við á.

[1] Stjórnarhættir fyrirtækja, 4. útgáfa, 2012, útgefnar af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og NASDAQ OMX Ísland.

 

 

Að fenginni reynslu starfsmanna skatta- og lögfræðisviðs Deloitte við gerð áreiðanleikakannana er iðulega þörf á umbótum í tengslum við viðskipti milli tengdra aðila og ákvörðun milliverðs, ferla við skil á virðisaukaskatti og skráningu fasteigna, atriði sem tengjast samrunum og skiptingum fyrri ára, skipulag verktakasamninga og verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Hefðbundnar brotalamir sem koma upp í áreiðanleikakönnunum

Skatta- og lögfræðisvið Deloitte

Sérfræðingar Skatta- og lögfræðisviðs Deloitte hafa á að skipa víðtækri reynslu af skattalegum og lögfræðilegum áreiðanleikakönnunum og ráðgjöf til fyrirtækja og opinberra aðila. Sem hluti af alþjóðaneti Deloitte höfum við aðgang að sérfræðingum í um 150 löndum og getum því aðstoðað bæði við fyrirtækjakaup hérlendis og erlendis. Þá höfum við yfir að ráða sérfræðingum í stjórnarháttum fyrirtækja og lögfræðilegri rannsóknarvinnu og þekkjum því vel til þeirra álitamála sem gjarnan koma upp í rekstri fyrirtækja og tengjast áreiðanleika þeirra.

Þjónusta okkar felst í gerð óháðra og markvissra skatta- og lögfræðilegra áreiðanleikakannana þar sem dregin eru fram fjögur lykilatriði, þ.e. atriði sem gefa tilefni til frekari skoðunar kaupanda á fyrirtækinu sem um ræðir, atriði sem kunna að hafa áhrif á lögfræðilegan framgang fyrirtækisins, atriði sem lúta að áhættuþáttum sem hafa þarf í huga við möguleg kaup og atriði sem varða lögmæti kaupanna.

Að auki er innan Deloitte sérstakt svið um fjármálaráðgjöf sem hefur viðamikla reynslu á sviði fjárhagslegra áreiðanleikakannana og því getur Deloitte annast alla þætti slíkra kannana fyrir fyrirtæki.[1]

Hafðu samband og við aðstoðum þig við að greiða fyrir viðskiptum með fyrirtæki með því að auka vissu um skatta- og lögfræðilegan áreiðanleika þeirra.

[1] FAS, Áreiðanleikakönnun í söluferli

 

 

Did you find this useful?