Faglegt efni

Virðisaukaskattur í ferðaþjónustu

Boðaðar breytingar á mannamáli

Deloitte hefur útbúið samantekt um stöðu helstu ferðaþjónustuaðila um komandi áramót vegna boðaðra breytinga á virðisaukaskatti. Í samantektinni er farið á hnitmiðaðan máta yfir helstu breytingar frá árinu 2014, breytingar um komandi áramót sem búið er að samþykkja og aðrar breytingartillögur.

Ferðaþjónustuflækjur í virðisaukaskatti

Á miðvikudaginn, 25. nóvember sl., birti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis nefndarálit sitt varðandi frumvarp um ýmsar forsendur fjárlaga.

Álitið felur í sér margvíslegar breytingartillögur, þ.m.t. tengdar boðuðum breytingum á lögum nr. 124/2014 sem vörðuðu virðisaukaskatt af ferðaþjónustu sem taka gildi 1. janúar næstkomandi.

 

Samantekt Deloitte

Helstu breytingartillögur nefndarinnar tengdar framangreindu eru:

  • Að afhending skattskyldrar vöru eða þjónustu eftir 31. desember 2015 teljist til virðisaukaskattsskyldrar veltu án tillits til þess hvort samningur um sölu skattskyldrar vöru eða þjónustu hafi verið gerður fyrir 1. janúar 2016 eða greiðsla farið fram þá að hluta eða fullu.
  • Að ferðaleiðsögn verði felld undir 11% skatthlutfall virðisaukaskatts til einföldunar í skattlagningu ferðaþjónustunnar, sem mun 1. janúar 2016 að mestu leyti falla undir neðra þrep virðisaukaskatts.
  • Að heimild til færslu innskatts verði látin ná til torfærubifreiða með leyfða heildarþyngd yfir 5.000 kg. með þeim skilyrðum að bílarnir verði eingöngu notaðir í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og beri rauð/hvít skráningarnúmer. Með torfærubifreið hér er vísað í skilgreiningu í  reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja.
  • Endurgreiðsla á virðisaukaskatti til handa rekstraraðilum hópbifreiða sem undanþegnir eru virðisaukaskatti vegna útflutnings bifreiðanna helst óbreytt. Slíkir aðilar sem eru í blandaðri starfsemi fá hlutfallslega endurgreiðslu á virðisaukaskatti.
  • Að heimild til lækkunar á vörugjaldi vegna bílaleigubifreiða framlengist um eitt ár og mun því að óbreyttu gilda  til loka ársins 2017Að heimild til niðurfellingar á virðisaukaskatti vegna innflutnings á rafmagns, vetnis- eða tengil-tvinnbifreiðum framlengist um eitt ár.
  • Að endurgreiða skuli sveitarfélögum og stofnunum þeirra helming virðisaukaskatts sem þau munu greiða vegna kaupa á fólksflutningaþjónustu á árunum 2016 og 2017 vegna almenningssamgangna.

Það er von Deloitte að samantektin geri ferðaþjónustuaðilum betur kleift að átta sig á stöðu sinni og hvað þurfi helst að hafa í huga á þessu sviði, bæði til skemmri og lengri tíma. Samantektin verður uppfærð eftir þörfum og birt á vefsíðu sem og Fésbókarsíðu Deloitte.

Við hjá Deloitte erum að sjálfsögðu reiðubúin að veita frekari upplýsingar og ráðgjöf þessu tengdu en vinsamlegast hafið þá samband við Völu Valtýsdóttur, sviðsstjóra skatta- og lögfræðisviðs.

Did you find this useful?