Faglegt efni

Skýrsla um laun og hlunnindi í skráðum félögum

Stjórnendur og stjórnir skráðra íslenskra félaga 2015-2018    

Tilgangur skýrslu

Skýrslu Deloitte „Laun og hlunnindi í skráðum félögum" er ætlað að veita innsýn í þóknanir til æðstu stjórnenda, stjórnarlaun og notkun langtímahvata í skráðum íslenskum félögum.

Skráðum félögum ber að sinna viðvarandi upplýsingaskyldu á markaði skv. lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og reglum Nasdaq Iceland („Kauphöll“) fyrir útgefendur fjármálagerninga, ásamt því að fylgja upplýsingaskyldu í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga.  

Í reglum kauphallar er meðal annars fjallað um upplýsingaskyldu í tengslum við launakjör stjórnenda en samkvæmt reglunum skal birta upplýsingar um laun einstakra stjórnarmanna og æðsta stjórnanda. Þá skal sömuleiðis birta upplýsingar um hlutabréfatengd hvatakerfi. Skv. lögum um ársreikninga nr. 3/2006 skulu félög veita upplýsingar um heildarlaun, þóknanir og ágóðahluta til núverandi og fyrrverandi stjórnenda félags vegna starfa í þágu þess. Einnig kemur fram að upplýsingaskylda er á helstu ákvæði kaupréttaráætlana starfsmanna.

Aðferðafræði

Greiningar í skýrslu Deloitte eru byggðar á 19 íslenskum félögum skráðum á hlutabréfamarkað Nasdaq OMX Nordic, þar af 18 á íslenskan markað, Nasdaq OMX Iceland. Greiningin byggir eingöngu á opinberum upplýsingum um félögin, það er úr ársreikningum, af heimasíðum, fréttatilkynningum, aðalfundum og starfskjarastefnum. 

Notast var við síðustu fjögur fjárhagstímabil og endurspegla greiningar Deloitte, eins nákvæmt og mögulegt er, launaskiptingu á árunum 2015-2018. Launafjárhæðir eru birtar eins og þær eru settar fram í ársreikningum og hafa ekki verið vísitöluleiðréttar.

Did you find this useful?