Posted: 06 Dec. 2023 5 min. read

Eru tak­mörk á því hversu mikið má hafa gaman?

Greinin birtist á vefsvæði Innherja 4. desember 2023.

--

Já, það eru takmörk á því. Að minnsta kosti þegar kemur að því hvað launagreiðendur mega gefa starfsmönnum sínum í formi gjafa eða skemmtana, til dæmis í kringum hátíðir.

Árlega gefur ríkisskattstjóri út svokallað skattmat sem felur í sér reglur um það hvernig skuli meta hlunnindi til tekna og hvaða kostnaður telst frádráttarbær frá rekstri. Telja ber til tekna hvers konar gæði sem mönnum hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir þá ekki máli hvaðan þau stafa eða í hvaða formi þau eru. Á það meðal annars við um fatnað, fæði, húsnæði, hvers konar fríðindi, greiðslur í vörum eða afurð­um, svo og framlög og gjafir sé verð­mætið hærra en almennt gerist um tæki­færis­gjafir.

Á árinu 2023 voru gerðar lúmskar breytingar á skattmati ríkisskattstjóra um mat á hlunnindum eða gæðum sem telja ber til tekna. Undirrituð leyfir sér að notað lýsingarorðið „lúmskar“ því þær virðast ekki hafa farið sérlega hátt og komið mörgum í opna skjöldu nú þegar hátíð ljóss, friðar og gleðskapar nálgast.

Í grunnin eru breytingarnar tvíþættar:

Í fyrsta lagi var sett inn ný málsgrein sem orðrétt segir eftirfarandi: „Peningagjafir launagreiðanda til starfs­manna teljast alltaf til skatt­skyldra tekna viðtakanda, hvort sem gjöfin er í beinhörðum peningum, innleggi á banka­reikninga eða afhendingu á bankakorti.“ Algengt hefur verið að fyrirtæki gefi starfsmönnum sínum bankakort í jólagjöf en samkvæmt framangreindum breytingum á skattmatinu þá telst slík gjöf að fullu til tekna hjá starfsmanninum. Vakin skal athygli á að gjafakort í einstakar verslanir, verslanamiðstöðvar eða tiltekin þjónusta, s.s. hótelgisting, falla ekki undir skilgreiningu á bankakortum.

Í öðru lagi voru fjárhæðamörkin sem taka til viðurgjörnings til starfsmanns einnig látin ná til gjafa. Lengi hefur sú regla verið inni í skattmatinu að ekki skuli telja til tekna hlunnindi og fríðindi sem felast í ýmsum viðurgjörningi eins og til dæmis árshátíð, starfsmannaferðum, jólagleði og sambærilegum samkomum og viðburðum, enda sé að jafnaði um að ræða upplyftingu og góðgerðir sem standi öllum starfsmönnum launagreiðandans til boða og árlegur kostnaður af þeim nemi ekki hærri fjárhæð en tiltekin fjárhæð á hvern starfsmann, sem tekur breytingum árlega. Á árinu 2023 er þessi hámarksfjárhæð 163.000 krónur en það sem breyttist þetta árið er að nú eru meðtaldar allar gjafir til starfsmanna á umræddu ári. Segir nú að auki í skattmatinu varðandi upptalningu á skemmtunum að það taki einnig til „glaðninga, t.d. í kringum hátíðir“.

Grundvallarbreyting á fyrri framkvæmd

Þessi breyting er algjör nýjung því ekki hefur áður verið til staðar í skattmatinu ákveðin fjárhæðarmörk á gjöfum til starfsmanna, einungis sú almenna regla að miða eigi við að verðmæti þeirra sé líkt og almennt gerist um slíkar gjafir. Gagnrýna má hvort að sú nálgun sé réttmæt eða hvort færi ekki betur á því að festa tiltekna fjárhæð í skattmati hvers árs. Þannig væru þessi mörk vel skilgreind og myndu ekki skapa óvissu gagnvart launagreiðendum varðandi það hversu vel þeir mega gera við sína starfsmenn án þess að starfsmennirnir þurfi að greiða tekjuskatt af gjöfinni. Þeim gæti verið gerður bjarnargreiði við slíkar aðstæður.

Lengi vel var gantast með að viðmiðin varðandi jólagjafir til starfsmanna færi eftir „Cintamani vísitölunni“ þar sem Skatturinn sjálfur gaf starfsmönnum sínum árið 2009 dúnúlpur frá Cintamani í jólagjöf sem kostaði á þeim tíma 29.900 kónur í smásölu. Ef slík gjöf væri innan marka þess sem telja mætti að almennt gerist um tækifærisgjafir þá væri það eitthvað til að miða við varðandi jólagjafir launagreiðenda til starfsmanna. Í öllum tilvikum var talið að viðmið varðandi jólagjafir kæmu til viðbótar við það hámark sem launagreiðendur gætu eytt í árshátíðir, skemmtanir eða annan viðurgjörning.

Með framangreindum breytingum á skattmatinu hafa verið sett ákveðin fjárhæðarmörk á gjafir til starfsmanna vegna ársins 2023. Þær eru nú takmarkaðar við 163.000 króna verðmæti á ári – að því gefnu að engar aðrar skemmtanir, árshátíð eða viðurgerningar hafi átt sér stað á vegum launagreiðandans. Ef hins vegar árshátíðin var vegleg, þorrablótið eða jólahlaðborð líka svolítið skemmtilegt, þá kemur til álita hvort eitthvað sé eftir til ráðstöfunar í jólagjafir?

Það er þó alveg ljóst að nú er búið að takmarka það hversu skemmtilegur eða gjafmildur vinnuveitandinn má vera.

Höfundur

Guðbjörg Þorsteinsdóttir

Guðbjörg Þorsteinsdóttir

Meðeigandi Deloitte Legal, lögmaður

Starfsferill Deloitte Legal, 2021- Deloitte, 2007-2021 Landsbanki Íslands hf., lánasýsla og umsjón útibúa, 2003-2007 Menntun og starfsréttindi Héraðsdómslögmaður, 2012 Löggiltur fasteignasali, 2015 M.L., lögfræði, Háskólinn í Reykjavík, 2008 B.A., lögfræði, Háskólinn í Reykjavík, 2006 Ritstörf og fyrirlestrar Námskeið: Félagsslit (2010), Deloitte. Skattskylda og skattframtalsskil þrotabúa (2015) FLE blaðið, 37. árg., 1. tölublað, bls. 23-24. Námskeið: Skattlagning þrotabúa (2019), Félag löggiltra endurskoðenda. Námskeið: Samrunar- og skiptingar (2016, 2019), Deloitte. Breytingar á skattlagningu höfundarréttartekna (2019), STEF. Námskeið: Arðgreiðslur frá A-Ö (2020). Félag löggiltra endurskoðenda. Gestakennari í B.A. námi í lögfræði, Háskólinn í Reykjavík, 2021. Fundarstjórn á ýmsum hluthafafundum og opinberum samkomum, s.s. UT-Messan, FKA, o.fl., og margvísleg erindi á Skattadegi Deloitte. --- Experience Deloitte Legal, 2021- Deloitte, 2007-2021 Landsbanki Íslands hf., loan department, 2003-2007 Education & Certifications District Court Attorney at Law, 2012 Certified Real Estate Agent, 2015 M.L., Reykjavík University, faculty of law 2008 B.A., Reykjavík University, faculty of law 2006 Publications & Lectures Lecture: Liquidation of Companies (2010), Deloitte. Tax Obligations and Tax Compliance of Bankrupt Estates (2015) FLE blaðið, 37. ann., 1. ed., p. 23-24. Lecture: Taxation of Bankrupt Estates (2019), Institute of State Authorized Public Accountants in Iceland. Lecture: Mergers and de-mergers (2016, 2019), Deloitte. Changes in Taxation of Royalties (2019), STEF. Lecture: Dividend payments from A-Z (2020). Institute of State Authorized Public Accountants in Iceland. Guest lecturer in the B.A. programme of Reykjavik University Law School, 2021. High experience as a chairman at general and annual shareholders’ meetings and various other public gatherings, i.e. the UT Conference, FKA and others, and held various lectures at the annual Deloitte Tax Conference.