Posted: 21 Jul. 2023 5 min. read

Sáttameðferð

Nýmæli í stjórnsýslu Skattsins

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 7. júlí 2023.

--

Þegar kemur að sköttum hafa flest skoðun og flóra þeirra jafn fjölbreytt og samfélagið. Þrátt fyrir það má fullyrða að samhljómur sé um, nokkurs konar „lægsti samnefnari“, að álagning þeirra skuli vera skýr, jafnt varðandi form og efni. Umfjöllunarefnið hér er angi hins fyrrnefnda, nánar til tekið nýstárleg beiting Skattsins á málsmeðferðarreglum tekjuskattslaganna.

Grunnur tekjuskattslaganna, þótt þau virðist tyrfið bútasaumsteppi, er nokkuð einfaldur. Gjaldandi, einstaklingur eða lögaðili, afhendir skattyfirvöldum árlega framtal sem inniheldur upplýsingar um tekjur og eignaþróun viðkomandi á síðastliðnu ári. Starfsfólk Skattsins yfirfer framtalið og leggur á í samræmi við það, eða kveður upp eigin úrskurð eftir atvikum.

Álagningin þarf þó ekki að vera endanleg. Gjaldandi, sem uppgötvar að honum láðist að telja fram tilteknar tekjur eða eignir, getur gert Skattinum viðvart og stjórnvaldið kippir málinu í liðinn. Öllu algengara er þó, í ljósi þess að fólk er mis viljugt til að telja allt fram með réttum hætti, að Skatturinn skoði af sjálfsdáðum framtöl aftur í tímann. Í þeim efnum hefur embættið almennt sex ár til að endurákvarða það sem miður fór.

Við það verkefni hefur stjórnvaldið ekki frjálsar hendur. Þvert á móti mæla tekjuskattslögin fyrir um nokkuð stífa málsmeðferð. Með nokkurri einföldun má segja að mál hefjist vanalega með fyrirspurn frá Skattinum til gjaldanda, sem þá gefst kostur á að koma á framfæri leiðréttingu eða andmælum. Stundum nægir ein fyrirspurn og eitt svar en öðrum stundum upphefst mikill pennavinaleikur.

Að honum loknum, séu skýringar gjaldanda ekki teknar góðar og gildar, boðar Skatturinn gjaldabreytingu og á ný gefst skattaðila kostur til andmæla. Dugi þau ekki til kveður stjórnvaldið upp úrskurð um þrætuefnið, þann úrskurð má kæra til yfirskattanefndar (YSKN) og niðurstöðu hennar er síðan unnt að stefna fyrir dóm. Allt þetta ferli, frá fyrstu fyrirspurn til endanlegs dóms, getur tekið fjöldamörg ár, jafnvel áratug.

Krókur eða kelda?

Það skal því engan undra, þótt dómstólar hafi verið nokkuð gjarnir á að kvitta undir niðurstöður Skattsins, að starfsfólk freistist til að velta fyrir sér leiðum til að komast hjá tímafrekum bréfa- og greinargerðarskrifum. Fæstum dytti þó í hug að lagt yrði af stað í slíka vegferð, en sú er þó raunin.

Undanfarin misseri hafa komið upp tilvik, þar sem fundur milli skattaðila og tiltekinnar deildar Skattsins hefur komið í stað formlegs boðunarbréfs eða úrskurðar. Frumathugun Skattsins hefur þá leitt í ljós að einhver atriði megi betur fara, og í stað þess að boða breytta álagningu, þar sem embættið rökstyður sína niðurstöðu, er skattaðila boðið að senda inn leiðréttingarbeiðni. Ekki nóg með það heldur hefur embættið stundum forskrifað leiðréttingarbeiðnina, þannig að aðeins undirritun og nokkrar tölur vanti.

Við fyrstu sýn kynni fyrirkomulagið að hljóma ágætlega og minna á sáttameðferð, áþekka þeirri sem Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands bjóða upp á. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að ólíkt þeim tilvikum eru ekki til neinar reglur um fyrirkomulagið gagnvart skattyfirvöldum. Skattaðila er einfaldlega stillt upp við vegg, jafnvel undir þeim formerkjum að þetta hafi bara verið forathugun, hann eigi pottþétt fleiri beinagrindur í skápnum, og því sé þetta kostaboð. Það eina sem þurfi að gera sé að senda inn leiðréttinguna, borga allt möglunarlaust og fá með því örlítinn afslátt af því sem út af stendur. Virðið fyrir ríkið er augljóst, enda vissir fjármunir í nútíð verðmætari en óvissir fjármunir í framtíð.

Aðeins heiðursmannasamkomulag

Þessi skapandi stjórnsýsla rúmast, strangt til tekið, formlega innan laganna bókstaf. Skattaðilinn getur hins vegar lent í því, þegar hann telur sig hólpinn, að embættið endurákvarði það sem út af stendur. Dæmi um slíkt má finna í úrskurði YSKN frá í fyrra, en um var að ræða anga sem gjaldandi og Skatturinn náðu ekki saman um á sáttafundi, rataði því ekki inn í leiðréttingarbeiðnina og leiddi til þess að gjaldandinn hafði ekki réttmætar væntingar til þess að sá þáttur yrði ekki endurákvarðaður seinna meir. Í öðrum tilvikum  er ekki víst að nýráðið starfsfólk eða önnur eftirlitssvið embættisins telji sér skylt að virða slíkt heiðursmannasamkomulag.

Fleiri dæmi eru um áþekka tilraun til sáttameðferðar en hálfgert hipsum-haps virðist vera hverjum stendur hún til boða. Þess þekkjast dæmi að tveir lögmenn sitji hlið við hlið, með tvö áþekk málsatvik og gjaldaliði en aðeins öðrum  umbjóðandanum er boðið að  leitasátta, jafnvel þótt málsatvik- og gjaldaliðir séu sambærilegir.

Það gefur auga leið að með slíku fyrirkomulagi er jafnræði gjaldenda fyrir borð borið. Því er brýnt að festa í lög hvenær embættið hefur heimild til að bjóða sáttameðferð og hvernig skuli að henni staðið.

Höfundur

Jóhann Óli Eiðsson

Jóhann Óli Eiðsson

Sérfræðingur Deloitte Legal

Starfsferill Deloitte Legal, 2021- Viðskiptablaðið, 2019-2021 Vísir / Fréttablaðið, 2014-2019 Menntun og starfsréttindi M.A., lögfræði, Háskóli Íslands, 2022 B.A., lögfræði, Háskóli Íslands, 2019 Félags- og trúnaðarstörf Framkvæmdastjóri Úlfljóts, tímarits laganema, Háskóli Íslands, 2017-2019 --- Experience Deloitte Legal, 2021- Viðskiptablaðið, 2019-2021 Vísir / Fréttablaðið, 2014-2019 Education & Certifications M.A., University of Iceland, faculty of law, 2022 B.A., University of Iceland, faculty of law, 2019 Other Notable Additions Managing director of Úlfljótur, University of Iceland Law Review, 2017-2019