Vinnustaðurinn

Hin hliðin

Fáum að kynnast starfsfólki Deloitte örlítið betur

Innsýn í líf starfsfólks Deloitte, svo sem verkefnin í vinnunni, áhugamál og ýmislegt fleira.

Við tókum starfsfólkið okkar tali og fengum að skyggnast inn í líf þeirra, bæði verkefnin hjá Deloitte og hverju þau taka upp á í frítímanum sínum.

 

 

 

Þorvarður Arnar Ágústsson

 1. Nafn og staða hjá Deloitte? 
  Þorvarður Arnar Ágústsson, lögmaður og verkefnastjóri hjá Deloitte Legal.
 2. Bakgrunnur?
  Ég lauk magister juris gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2017 og hef starfað í lögmennsku og fyrirtækjaráðgjöf frá útskrift. Ég er með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi og er að ljúka verðbréfaréttindum.
 3. Hvað hefur þú starfað lengi hjá Deloitte?
  Ég hóf störf hjá skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte í miðju Covid haustið 2020 og hef starfað hjá Deloitte Legal frá stofnun.
 4. Hver eru skemmtilegustu verkefnin í þínu starfi hjá Deloitte?
  Almennt séð myndi ég segja að ég eigi erfitt með að velja uppáhalds verkefni. Á meðan sumir lögfræðingar velja sér kjörsvið innan lögfræðinnar hef ég heillast mest af því að vinna í verkefnum sem láta reyna á rökhugsun þvert á fræðasvið. Þau verkefni sem ég held þó mest upp á eru líklega dómsmálin, samningar um fjármögnun og kaup fyrirtækja og alþjóðlegur skattastrúktúr.
 5. Hvar væri líklegt að finna þig, ef ekki í vinnunni?
  Sem faðir tvegga drengja á leikskólaaldri eru 90% líkur á að utan vinnu sé ég heima við að sinna drengjunum mínum og eiginkonu. Utan heimilisins væri mögulegt að rekast á mig í ræktinni þar sem ég hef gaman af kraftlyftingum og einstaka sinnum bregð ég mér á tónleika í íslensku svartmálmssenunni.
 6. Sturluð staðreynd um þig?
  Ég gekk næstum óvart til Kongó (DRC).

 

 

Rannveig Anna Guicharnaud

 1. Nafn og staða hjá Deloitte? 
  Ég heiti Rannveig Anna Guicharnaud og ég er liðstjóri í sjálfbærniteymi  Deloitte.
 2. Bakgrunnur?
  Ég er með B.Sc. gráðu í jarðvísindum og M.Sc. and PhD gráðu í jarðvegsfræði frá Háskólanum í Aberdeen, Skotlandi. Ég lauk námi árið 2009 og doktorsrannsóknin mín fjallaði um áhrif hlýnandi veðurfars á losun gróðurhúsaloftegunda frá landi. Þá hafði enginn áhuga á ritgerðinni en í dag skilst mér að það sé loksins farið að glugga í hana. En eins og einhver sagði, betra seint en aldrei :)
 3. Hver eru skemmtilegustu verkefnin í þínu starfi hjá Deloitte?
  Þetta hljómar eins og ég sé að segja ósatt en mér finnst öll verkefni skemmtileg sem koma á mitt borð. Það skemmtilegasta er þó að fá að styðja við verkefni sem vinna að því að finna lausnir við loftslagsvandanum með því að þróa aðferðir og tækni til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég nýt þess líka að vinna í alþjóðlegu umhverfi.
 4. Hvernig myndir þú lýsa vinnumenningunni hjá Deloitte?
  Metnaðarfullt fagfólk fram í fingurgóma en alltaf stutt í léttleikann, húmorinn og hjálpsemina.
 5. Sturluð staðreynd um þig?
  Ég er Sæunn í Hættuspilinu og er með landsnámshænur í garðinum.
 6. Hvar væri líklegt að finna þig, ef ekki í vinnunni?
  Hjólandi (á sex hjól og þarf á þeim öllum að halda ef þú spyrð mig), hlaupandi, syndandi (elska sem sagt þríþraut og er margfaldur Íslandsmeistari í henni) eða upp á fjalli með hundinum mínum Míró.

 

 

Magnús Andri Pétursson

 1. Nafn og staða hjá Deloitte? 
  Ég heiti Magnús Andri Pétursson og starfa sem assistant manager í Fjármálaráðgjöf Deloitte. Þar að auki sinni ég stundakennslu við Háskóla Íslands samhliða starfi mínu hjá Deloitte.
 2. Bakgrunnur?
  Ég lauk grunnnámi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands vorið 2016. Í kjölfarið af því flutti ég til Kaupmannahafnar og bjó þar í fimm ár. Þar kláraði ég m.a. meistaranám í fjármálum (Finance and Investments) frá Copenhagen Business School og vann hjá danska lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk sem er eitt stærsta lyfjafyrirtæki í heiminum.
 3. Hvað hefur þú starfað lengi hjá Deloitte?
  Ég flutti heim til Íslands frá Danmörku í lok ágúst 2021 og hóf störf hjá Deloitte 1. september sama ár. Þó mér finnist það hafa verið í gær, þá eru komin rúmlega eitt og hálft ár síðan sem ég mætti til vinnu í Turninn í fyrsta sinn.
 4. Hvað fékk þig til að sækja um hjá Deloitte á sínum tíma?
  Ég hafði mikinn áhuga á að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni ásamt því að fá að vinna í umhverfi þar sem mikil áhersla er lögð á framþróun í starfi. Mér fannst því liggja beinast við að starfa í ráðgjöf og þar er Deloitte númer eitt á heimsvísu og sá vinnustaður sem mig langaði mest að vinna hjá.

  Síðan ég kom inn á 8. hæðina, heimasvæði Fjármálaráðgjafarinnar, í fyrsta skipti hef ég fengið að takast á við ótrúlega skemmtileg verkefni þar sem enginn dagur er eins. Að sama skapi hef ég lært ótrúlega mikið á þessum stutta tíma og kynnst fullt af frábæru fólki.
 5. Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítímanum?
  Ég reyni að eyða eins miklum tíma og ég get með Hinriki Má syni mínum sem er nýorðinn eins árs og Evu kærustunni minni. Okkur finnst ótrúlega gaman að ferðast saman og næsta ferðalag hjá okkur er einmitt til Sardíníu á Ítalíu núna í lok mánaðar.

  Svo er ég mikill stuðningsmaður Manchester United og reyni að horfa á eins marga leiki með þeim og ég kemst upp með. Ég reyni líka að fara á Old Trafford á leik allavega einu sinni á hverju tímabili. Síðast en ekki síst finnst mér hrikalega gaman að skála í góðu rauðvíni með vinum.
 6. Hvað er eitthvað sem allir ættu að prófa að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni?
  Það ættu allir að upplifa meistaradeildarkvöld á Old Trafford undir flóðljósunum að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni.

 

 

Steina M Lazar Finnsdóttir

 1. Nafn og staða hjá Deloitte? 
  Ég heiti Steina Margrét Lazar Finnsdóttir og er liðsstýra á sviði Viðskiptalausna. Þar hef ég yfirumsjón með útvistun á bókhaldi og launavinnslum fyrir viðskiptavini Deloitte.
 2. Bakgrunnur?
  Ég er með B.Sc. gráðu frá HA í viðskiptafræði með áherslu á fjármál og tók einnig Viðurkennda bókarann í HR.
 3. Hvað hefur þú starfað lengi hjá Deloitte?
  Ég er að verða 16 ára í starfi hjá Deloitte. Sigurður Páll, fyrrverandi forstjóri, réði mig í bókhaldið í júní 2007 á skrifstofu Deloitte á Sauðárkróki en hann var þá útibússtjóri þar. Við fjölskyldan fluttum svo í Kópavoginn árið 2011 og skipti ég því um starfsstöð. Ég fékk svo að taka þátt í stofnun á Viðskiptalausnum árið 2014 með frábærum samstarfsaðilum.
 4. Hvað fékk þig til að sækja um hjá Deloitte á sínum tíma?
  Ég var viðskiptavinur Deloitte á Sauðárkróki en við hjónin rákum kaffihúsið Kaffi Krók og áttum Hótel Tindastól á Sauðárkrók. Ég heillaðist alltaf af brandinu og ákvað því að sækja um starf bókara samhliða fjarnámi í HA.
 5. Hvar væri líklegt að finna þig, ef ekki í vinnunni?
  Heima með fjölskyldunni, við erum sex í fjölskyldu auk Svala, heimilishundi. Annars finnst mér algjörlega geggjað að skella mér í sjósund og uppáhaldsstaðurinn er Nauthólsvíkin.
 6. Sturluð staðreynd um þig?
  Ég bjó á Grænlandi í fimm mánuði.

 

 

Ottó Marvin Gunnarsson

 1. Nafn og staða hjá Deloitte? 
  Ég heiti Ottó Marvin Gunnarsson og er sérfræðingur í Viðskiptalausnum Deloitte þar sem ég vinn mikið með sjálfvirknivæðingu bókhaldsferla og hjálpa fyrirtækjum að taka fyrstu skrefin í rafrænum viðskiptum.
 2. Bakgrunnur?
  Ég er bókari að mennt og er í B.Sc. námi í viðskiptafræði með áherslu á viðskiptagreind og fjármálastjórnun við Háskólann á Bifröst, áætluð útskrift vorið 2025.
 3. Hver eru skemmtilegustu verkefnin í þínu starfi hjá Deloitte?
  Öll verkefni eru skemmtileg á sinn hátt, en þau verkefni sem snúa að því að innleiða nýjungar eru þau allra skemmtilegustu. Svo hef ég mjög gaman að því að miðla reynslu og þekkingu og hef verið svo heppinn að fá að kenna námskeið sem mér finnst mjög gefandi og skemmtilegt.
 4. Hvar væri líklegt að finna þig, ef ekki í vinnunni?
  Heima, ég veit ekkert betra en að vera heima með stelpurnar mínar, hvort sem það er a vera sófa-kartafla eða með verkfærin í hendinni að setja upp einhvern sjálfvirkniferil fyrir lýsinguna eða heimilistækin. Af þeim höttum sem ég ber þá er ég fyrst og fremst stoltur fjölskyldufaðir.
 5. Sturluð staðreynd um þig?
  Ég átti lengi gildanandi heimsmet í OilSim, Alþjóðlegri olíuleitarkeppni ungmenna, en Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu sigraði þá keppni 3 ár í röð, en hún var haldin í Imperial Collage í London.

 

Did you find this useful?