Fréttatilkynningar

Saman í gegnum skaflinn

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 26. mars 2020

Björgvin Ingi Ólafsson, meðeigandi og sviðsstjóri Deloitte Consulting, og Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, meðeigandi og sviðsstjóri Fjármálaráðgjafar Deloitte, skrifa.

Tillögur ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands um viðnám við því efnahagsáfalli sem dynur á okkur í Covid-19 faraldrinum eru nauðsynlegt viðbragð. Ljóst er að gera þarf mjög margt, fyrir mjög marga og það mjög fljótt.

Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til gefa góð fyrirheit. Af orðum fjölmargra ráðherra má jafnframt skilja að þau skref sem hafi verið stigin séu áfangar á leið frekar en endastöð. Á Stöð 2 að morgni þriðjudagsins 24. mars nefndi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem dæmi „að það sem við hefðum séð væri ekki pakkinn, þetta væru bara þau skref sem voru tekin í fyrstu”. Það er vel. Ljóst er að knýjandi þörf er víða á enn sterkari viðspyrnu með stuðningi stjórnvalda.

Lönd um allan heim eru öll að glíma við sama erfiða vandann þó vægi þeirra atvinnugreina sem verst verða úti sé misjafnt milli landa. Við getum dregið lærdóm af aðgerðum stjórnvalda í löndunum í kringum okkur sem eru stöðugt að bæta í þá aðgerðapakka sem þeir hafa kynnt. Hér verða rakin  dæmi frá öðrum löndum um aðgerðir stjórnvalda sem við teljum að hið opinbera ætti að hafa til skoðunar við frekari þróun aðgerðapakkans sem þegar hefur verið kynntur.

Niðurfellingar gjalda í stað frestunar

Þó frestun skattgreiðslna styrki lausafjárstöðu til skemmri tíma getur frestun ekki verið nóg og kann að vera þörf á niðurfellingu gjalda til lífvænlegra félaga í lausafjárvanda. Líta má til Lúxemborgar þar sem rekstraraðilar, einstaklingar í rekstri og fyrirtæki geta sótt um niðurfellingu á sköttum vegna fyrstu tveggja fjórðunga ársins 2020 (greitt í mars og júní 2020). Auk þess hefur tryggingagjald í Noregi verið lækkað til næstu tveggja mánaða.

Frestun á greiðslum fyrirtækja í lífeyrissjóði

Tímabundin frestun á greiðslum í lífeyrissjóði hefur umtalsverð áhrif á lausafjárstöðu og getur vegið þyngra en frestun skatta og tryggingagjalds. Fyrirtæki í Danmörku, Hollandi, Frakklandi, Sviss, Ítalíu og Póllandi hafa tímabundna heimild til þess að fresta greiðslum í lífeyrissjóði. Heimild til frestunar er til allt að fjögurra mánaða.

Samþætting skattára

Afturvirk nýting skattalegs taps getur skipt miklu fyrir fyrirtæki sem fóru milli ára úr arðbærum rekstri í tap. Í Noregi er fyrirtækjum heimilt að láta vænt tap á árinu 2020 ganga upp í tekjuskattsgreiðslur vegna hagnaðar ársins 2019. 

Lágvaxtalánveitingar hins opinbera

Til að bregðast við lausafjárvanda minni rekstraraðila í Bretlandi hefur ríkisstjórnin tilkynnt um lánveitingar allt að 5 milljónum punda til hvers rekstraraðila. Endurgreiðslutímabil fjármögnunarinnar getur verið til allt að tíu ára og án vaxta á fyrsta árinu.

Sænski seðlabankinn hefur tilkynnt að bankar í Svíþjóð geti tekið allt að 500 milljarða sænskra króna að láni hjá bankanum til að tryggja aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni. Þessi lán verða veitt á kjörum sem eru þau sömu og stýrivextir bankans, 0%.

Í Þýskalandi er verið að undirbúa að ríkisbankinn KfW útbúi lánveitingarpakka til lítilla og meðalstórra fyrirtækja á afsláttarkjörum.

Bætur til viðburðahaldara

Danmörk hefur kynnt bótasjóð fyrir þá sem hafa aflýst viðburðum með fleiri en 1.000 þátttakendum eða viðburðum sem beint var að áhættuhópum eins og t.d. eldri borgurum. Noregur hefur kynnt bótakerfi fyrir rekstraraðila og einstaklinga sem standa fyrir menningar- og íþróttaviðburðum. Er þessu ætlað að bæta upp tekjutap vegna þátttökugjalda og miðasölu.

Niðurfelling fasteignagjalda

Fasteignaskattar vega þungt í rekstri margra fyrirtækja, sérstaklega minni verslana og hótela, og hafa farið hækkandi undanfarin ár. Til viðbótar við tillögur um frestun greiðslna fasteignagjalda sem mörg ríki hafa útfært þá áforma pólsk yfirvöld tímabundna niðurfellingu fasteignagjalda hjá minni rekstraraðilum. Í Bretlandi hafa yfirvöld útfært sambærilega leið, þar sem rekstraraðilar sem reka smásölu, hótel- og gistiþjónustu, veitingaþjónustu eða afþreyingu fá fasteignagjöld niðurfelld næstu tólf mánuði.

Sú staða sem komin er upp felur í sér mikla áskorun fyrir allt efnahagslífið. Það skiptir öllu máli að við leggjumst á eitt í að færa fram hugmyndir sem þörf er á til að koma fólki, fyrirtækjum og hagkerfinu í heild í gegnum skaflinn. Saman náum við árangri.

Did you find this useful?